Reglur Mosfellsbæjar um stuðningsfjölskyldur fyrir fötluð börn.
I. kafli Almenn atriði
1. gr. Lagagrundvöllur
Í reglum þessum er kveðið á um útfærslu á þjónustu sem sveitarfélögum er skylt að veita sbr. 15. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018.
2. gr. Markmið og ábyrgð
Fjölskyldur fatlaðra barna skulu eiga kost á stuðningsfjölskyldu eftir því sem þörf krefur. Verkefni stuðningsfjölskyldu er að taka fatlað barn í umsjá sína í skamman tíma í þeim tilgangi að létta álagi af fjölskyldu þess og auka möguleika barnsins á félagslegri þátttöku.
Hlutverk stuðningsfjölskyldu er að taka fatlað barn í umsjá sína í skamman tíma í þeim tilgangi að létta álagi af fjölskyldu þess og auka kosti barnsins á félagslegri þátttöku. Slíkri umsjá fylgir ekki krafa um sérstaka þjálfun eða hæfingu umfram þá daglegu þjálfun sem felst í almennum kröfum sem lúta að uppeldi barnsins.
Stuðningsfjölskylda ber ábyrgð á velferð barns meðan á dvöl hjá henni stendur og skal hlúa að því í hvívetna. Það á jafnt við í tilfinningalegu, heilsufarslegu sem og félagslegu tilliti.
3. gr. Réttur til þjónustu
Eftirfarandi skilyrði þarf að uppfylla til að barn eigi rétt á þjónustu samkvæmt reglum þessum:
a. Barnið og forsjáraðilar þess skulu eiga lögheimili í Mosfellsbæ.
b. Barnið og forsjáraðilar þess skulu metin í þörf fyrir þjónustu samkvæmt reglum þessum.
c. Barnið skal falla undir skilgreiningu 1. tl. 2. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.
Heimilt er, eftir sérstöku mati, að veita fötluðum einstaklingum kost á áframhaldandi þjónustu stuðningsfjölskyldu eftir að 18 ára aldri er náð, meðan leitað er að annarri viðeigandi þjónustu.
4. gr. Umfang þjónustu
Um sólarhringsþjónustu er að ræða. Þörf barns fyrir stuðningsfjölskyldu er alltaf metin með foreldrum þess í samráði við ráðgjafa. Almenn samþykkt er 2-3 sólarhringar í mánuði. Í sérstökum undantekningartilvikum er heimilt að veita þjónustuna að hámarki í 15 sólarhringa á mánuði, sé þörfin metin umfangsmikil.
Semja má um aðra tilhögun en sólarhringsþjónustu til að koma til móts við þörf á dagsdvöl.
Ekki er heimilt að fela stuðningsfjölskyldu umsjón fleiri en tveggja fatlaðra barna, sem dvelja í senn, nema um systkini sé að ræða.
II. kafli Umsóknir og mat
5. gr. Umsókn um stuðningsfjölskyldu
Umsókn um stuðningsfjölskyldu má nálgast rafrænt á mínum síðum Mosfellsbæjar. Í umsókn skulu koma fram upplýsingar um barnið, fötlun þess og ástæðu umsóknar. Einnig skal leggja fram viðeigandi fylgiskjöl, svo sem greiningargögn og gilt umönnunarmat, liggi þau ekki þegar fyrir hjá velferðarsviði.
6. gr. Mat á stuðningsþörf og afgreiðsla umsóknar
Mat á stuðningsþörf er framkvæmt í samstarfi forráðamanna og ráðgjafa. Við matið er horft til aldurs barns, eðlis og umfangs fötlunar og umönnunarþarfar, félagslegra aðstæðna sem og heildaraðstæðna fjölskyldunnar. Tekið er tillit til óska fjölskyldunnar við val á stuðningsfjölskyldu eftir því sem kostur er.
Sé niðurstaða mats með þeim hætti að ekki sé þörf fyrir stuðning samkvæmt reglum þessum, eða öllum skilyrðum í 3. gr. er ekki fullnægt, skal umsókn synjað.
Sé ekki unnt að hefja þjónustu strax eða innan þriggja mánaða frá samþykkt umsóknar skal umsókn sett á biðlista. Umsækjandi skal upplýstur um áætlaðan biðtíma og hvaða þjónusta geti staðið honum til boða á biðtíma sbr. Reglugerð nr. 1035/2018 um biðlista, forgangsröðun og úrræði á biðtíma eftir þjónustu.
III. kafli Framkvæmd
7. gr. Samningur um þjónustu
Dvöl barnsins skal bundin í þríhliða samningi milli forráðamanna, stuðningsfjölskyldu og velferðarsviðs og skal samningurinn vera tímabundinn til samræmis við samþykkt umsóknar. Í samningi skulu koma fram upplýsingar um samningsaðila, fjölda sólarhringa í mánuði og ábyrgð allra samningsaðila auk ákvæðis um þagnarheit. Í samningi skulu einnig vera gagnkvæm uppsagnarákvæði en samningi má rifta ef forsendur ákvörðunar eða rekstrarleyfis stuðningsfjölskyldu bresta.
Stuðningsfjölskylda skal hafa gilt rekstrarleyfi frá Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála sbr. 10. gr.
Umsóknir um stuðningsfjölskyldur eru almennt samþykktar til árs í senn. Heimilt er þó að samþykkja stuðningsfjölskyldur til allt að þriggja ára sé ljóst að ekki sé að vænta breytinga á þörf umsækjanda fyrir þjónustu.
8. gr. Skyldur forráðamanna barns
Ákvörðun um dvöl barns hjá stuðningsfjölskyldu er á ábyrgð forráðamanna þess. Þeir skulu upplýsa stuðningsfjölskyldu um það sem er mikilvægt velferð barnsins, þ.á.m. sjúkdóma, ofnæmi, óþol og slíkt.
Aðlögun að vist hjá stuðningsfjölskyldu skal miðuð við þarfir barnsins.
Forráðamenn bera ábyrgð á að koma barni til og frá stuðningsfjölskyldu.
9. gr. Eftirlit og ábyrgð velferðarsviðs
Velferðarsviði er skylt að fylgjast með því að dvölin þjóni markmiði sínu og velferð barnsins sé höfð að leiðarljósi.
Velferðarsvið skal grípa til viðeigandi ráðstafana, svo sem að rifta samningi um vistun, ef umönnun og aðbúnaður barns á heimili stuðningsfjölskyldu er óviðunandi eða aðstæður á heimilinu hafa breyst þannig að ekki sé sýnt að aðbúnaður og öryggi barnsins sé tryggt.
10. gr. Umsókn um veitingu leyfis fyrir stuðningsfjölskyldur
Umsækjandi um leyfi til að gerast stuðningsfjölskylda skal ekki vera yngri en 23 ára. Þegar um er að ræða þjónustu stuðningsforeldra inn á heimili barnsins má gera undantekningu frá þeirri reglu, á ábyrgð forráðamanna. Ekki er skilyrði að umsækjandi sé í sambúð eða hjónabandi. Umsókn hjóna og sambýlisfólks skal vera sameiginleg.
Umsóknir um leyfi til að gerast stuðningsfjölskylda skulu berast Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála (GEV) ásamt nauðsynlegum fylgigögnum. GEV sendir velferðarsviði beiðni um umsögn og úttekt og tekur ákvörðun á grundvelli allra gagna sem fyrir liggja.
IV. kafli Kostnaður og greiðslur
11. gr. Kostnaður forráðamanna
Forráðamenn barns greiða útlagðan kostnað vegna þátttöku þess í félagslífi með stuðningsfjölskyldunni sem og kostnað við akstur barnsins til og frá stuðningsfjölskyldu.
12. gr. Greiðslur til stuðningsfjölskyldna
Greiðslur til stuðningsfjölskyldna eru alla jafna verktakagreiðslur og eru skilgreindar í gildandi gjaldskrá Mosfellsbæjar um stuðningsfjölskyldur.
Mosfellsbæ er heimilt að fara fram á endurgreiðslu greiðslna til stuðningsfjölskyldu ef greitt hefur verið fyrir þjónustu sem ekki hefur verið veitt samkvæmt samningi þessum.
V. kafli Málsmeðferð
Um málsmeðferð gilda ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ákvæði XVI. og XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991.
13. gr. Könnun á aðstæðum
Kanna skal aðstæður umsækjanda svo fljótt sem unnt er eftir að umsókn hans um stuðningsþjónustu hefur borist. Sama á við ef sveitarfélagi berast upplýsingar um nauðsyn á aðstoð með öðrum hætti. Sveitarfélag skal taka ákvörðun í máli svo fljótt sem unnt er og tryggja að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin.
14. gr. Samvinna við umsækjanda
Við meðferð umsóknar, öflun gagna og ákvarðanatöku skal leitast við að hafa samvinnu og samráð við umsækjanda eftir því sem unnt er en að öðrum kosti við aðstandendur hans eftir því sem við á.
15. gr. Endurskoðun
Rétt til stuðningsþjónustu má endurskoða hvenær sem er. Meta skal hvort umsækjandi stuðningsþjónustu fullnægi skilyrðum reglna þessara og hvort breytingar sem orðið hafa á aðstæðum umsækjanda og/eða annarra heimilismanna hafi áhrif á rétt hans og umfang þjónustu.
16. gr. Rangar eða villandi upplýsingar
Ef sannreynt er við meðferð máls að upplýsingar sem umsækjandi hefur veitt eru rangar eða villandi, stöðvast afgreiðsla umsóknarinnar á meðan umsækjanda er gefið tækifæri á að leiðrétta eða bæta úr annmörkum. Ef umsókn um stuðningsþjónustu hefur verið samþykkt og í ljós kemur síðar að hún var byggð á röngum eða villandi upplýsingum af hálfu umsækjanda getur það leitt til afturköllunar ákvörðunar.
17. gr. Varðveisla gagna, trúnaður og aðgangur að gögnum
Málsgögn er varða persónulega hagi einstaklinga skulu varðveitt á öruggan hátt í samræmi við lög um opinber skjalasöfn, nr. 77/2014, skjalavistunaráætlanir og reglur sveitarfélags.
Starfsmenn eru bundnir þagnarskyldu um málefni er leynt eiga að fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Starfsmönnum er óheimilt að rjúfa trúnað nema að fengnu samþykki viðkomandi. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
Umsækjandi getur óskað eftir aðgangi að fyrirliggjandi gögnum er varða hann sjálfan. Við mat á því hvaða gögnum verður miðlað skal meðal annars litið til ákvæða persónuverndarlaga, upplýsingalaga auk annarra laga og reglna sem kunna að eiga við hverju sinni. Vinnsla mála og varðveisla gagna byggist á lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018. Upplýsingar um vinnslu persónuupplýsinga má finna í persónuverndarstefnu sveitarfélagsins.
18. gr. Leiðbeiningar til umsækjanda
Við afgreiðslu umsóknar skal starfsfólk velferðarsviðs Mosfellsbæjar bjóða umsækjanda ráðgjöf ef þörf er á og veita upplýsingar og leiðbeiningar um réttindi sem hann kann að eiga annars staðar. Þá skal starfsmaður einnig upplýsa umsækjanda um þær skyldur sem kunna að hvíla á honum vegna framkvæmdar samkvæmt reglum þessum.
19. gr. Heimildir til ákvarðana samkvæmt reglum þessum
Starfsfólk velferðarsviðs Mosfellsbæjar tekur ákvarðanir samkvæmt reglum þessum í umboði sveitarfélagsins.
20. gr. Niðurstaða og rökstuðningur synjunar
Kynna skal niðurstöðu umsóknar skriflega svo fljótt sem unnt er. Sé umsókn synjað skal umsækjandi fá svar þar sem vísað er með skýrum hætti til viðeigandi lagaákvæða og/eða ákvæða í reglum þessum og honum leiðbeint um heimild til að óska rökstuðnings fyrir synjun.
Upplýsa skal umsækjanda um rétt hans til að fara fram á að velferðarnefnd Mosfellsbæjar taki umsóknina til meðferðar en slík beiðni skal berast nefndinni innan fjögurra vikna frá því að umsækjanda barst vitneskja um ákvörðun.
21. gr. Heimild velferðarnefndar til að veita undanþágu frá reglum þessum
Velferðarnefnd hefur heimild til að veita undanþágu frá reglum þessum skv. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga ef sérstakar málefnalegar ástæður liggja fyrir. Aðstoð í formi stuðningsþjónustu getur hafist á grundvelli ákvörðunar velferðarsviðs þó að mál sé til meðferðar hjá velferðarnefnd.
Ákvörðun velferðarnefndar skal kynnt umsækjanda svo fljótt sem unnt er og um leið skal honum kynntur réttur hans til málskots til úrskurðarnefndar velferðarmála.
22. gr. Kæra til úrskurðarnefndar velferðarmála
Umsækjandi getur kært ákvörðun velferðarnefndar til úrskurðarnefndar velferðarmála, sé um synjun að ræða. Skal það gert innan þriggja mánaða frá því að umsækjanda var kunngerð ákvörðun velferðarnefndar.
23. gr. Gildistaka
Reglur þessar, sem samþykktar voru í velferðarnefnd 22.4.2025 og staðfestar í bæjarstjórn 30.4.2025 taka gildi strax. Jafnframt falla úr gildi reglur Mosfellsbæjar um stuðningsfjölskyldur fyrir fötluð börn og fjölskyldur þeirra frá 29.11.2017 sem birtar voru á heimasíðu Mosfellsbæjar.