Samþykkt um sorphirðu og hreinsun opinna svæða í Mosfellsbæ.
1. gr.
Mosfellsbær annast sorphirðu (sorpeyðingu og sorphreinsun almenns húsasorps) og hreinsun opinna svæða í Mosfellsbæ samkvæmt ákvæðum þessarar samþykktar. Sorphirða fer fram undir stjórn umhverfissviðs Mosfellsbæjar og eftirliti Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis.
2. gr.
Verktakar sem annast sorphreinsun samkvæmt samningi við Mosfellsbæ skulu hafa starfsleyfi heilbrigðisnefndar.
3. gr.
Sérhverjum húsráðanda í Mosfellsbæ er skylt að nota þær aðferðir og ílát við sorpgeymslu og -hreinsun sem bæjarstjórn, í samráði við heilbrigðisnefnd, ákveður.
4. gr.
Sorpgeymslur skulu vera aðgengilegar fyrir sorphirðumenn og standa sem næst aðkomu að lóð. Tvær skulu staðsettar saman ef um fjölbýlishús er að ræða. Húsráðendur skulu halda tunnum hreinum og hreinsa snjó frá sorpgeymslum á vetrum og halda greiðfærri leið að þeim, svo unnt sé að annast hreinsun.
5. gr.
Mosfellsbær leggur íbúðum til sorpílát þegar breytingar eru gerðar á fyrirkomulagi sorphirðu, sbr. 3 gr. samþykktar þessarar.
Í sorpílátin má aðeins setja neysluúrgang, þ.e. venjulegt heimilissorp, í samræmi við nánari fyrirmæli sem kunna að verða sett um flokkun úrgangs, sbr 3. gr. Ekki má setja í sorpílát mold, grjót, byggingarefni, garðaúrgang o.þ.h. Spilliefni, lyf og annar hættulegur úrgangur má ekki fara í sorpílát. Glerbrotum og öðrum oddhvössum hlutum, sem hætta er á að skaði þá sem meðhöndla úrgang eða sorpílát, skal pakkað inn eða gengið frá þeim á annan tryggilegan hátt. Gæta skal þess að fylla ekki sorpílátin meira en svo að auðveldlega megi loka þeim.
6. gr.
Bæjarstjórn ákveður í samráði við heilbrigðisnefnd hversu oft sorphreinsun fer fram á vegum bæjarins.
7. gr.
Spilliefnum, hættulegum úrgangi og öllum öðrum úrgangi en heimilissorpi skal skila á endurvinnslu- eða söfnunarstöð, sem hefur starfsleyfi heilbrigðisnefndar. Jarðvegsefnum skal komið fyrir á sérstökum losunarstað fyrir jarðvegsefni samkvæmt ákvörðun bæjarstjórnar á hverjum tíma.
8. gr.
Fyrirtæki og stofnanir geta samið við þar til bæran aðila um að annast sorphirðu á þeirra vegum, enda greiði þau ekki sorphirðugjöld til sveitarfélagsins.
Mosfellsbær getur tekið að sér að annast sorphirðu fyrir fyrirtæki og stofnanir gegn greiðslu samkvæmt gjaldskrá sbr. 1. mgr. 9. gr. samþykktar þessarar (886/2000).
Frágangur og umgengni um sorpílát, svo og flutningur á úrgangi frá fyrirtækjum og stofnunum, skal vera í samræmi við fyrirmæli heilbrigðisnefndar.
9. gr.
Bæjarstjórn er heimilt að setja gjaldskrá, að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar, til að standa undir kostnaði við sorphirðu samkvæmt samþykkt þessari. Gjöld mega aldrei vera hærri en sem nemur kostnaði við veitta þjónustu og framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum. Sveitarfélagið skal láta birta gjaldskrána í B-deild stjórnartíðinda. Vísa skal til samþykktar þessarar í gjaldskránni. 886/2000
10. gr.
Kvartanir vegna sorphirðu á vegum Mosfellsbæjar skal bera upp við starfsmenn áhaldahúss bæjarins. Telji viðkomandi sig ekki fá fullnægjandi úrlausn hjá bæjaryfirvöldum getur hann skotið málinu til heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis.
11. gr.
Brjóti húsráðandi ákvæði samþykktar þessarar um meðferð eða geymslu úrgangs skulu sorphirðumenn tilkynna það heilbrigðiseftirliti.
12. gr.
Ekki má henda rusli, garðaúrgangi eða sorpi á opin svæði, götur, gangstíga eða fjörur innan bæjarmarkanna, eða skilja númerslausa bíla og aðrar vélar eða tæki eftir á þessum stöðum.
Starfsmenn áhaldahúss Mosfellsbæjar hafa, í umboði heilbrigðisnefndar, eftirlit með því að hlutir séu ekki geymdir þannig að í bága fari við heilbrigðis- og mengunarvarnareglugerð. Þetta á t.d. við um númerslausar bifreiðar og bílflök, kerrur, báta, tæki og vinnuvélar. Í umboði heilbrigðisnefndar er þeim heimilt að fjarlægja slíka hluti að undangenginni viðvörun sem límd hefur verið á tækið. Viðvörunin skal auðkennd heilbrigðisnefnd.
Ákvörðun þar að lútandi er heimilt að skjóta til heilbrigðisnefndar.
13. gr.
Með brot á samþykkt þessari skal farið samkvæmt ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.
14. gr.
Samþykkt þessi, sem er samin af heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis og samþykkt af bæjarstjórn Mosfellsbæjar, staðfestist hér samkvæmt 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og tekur gildi þegar við birtingu.
Umhverfisráðuneytinu, 2. október 1998.
F. h. r.
Ingimar Sigurðsson
Sigurbjörg Sæmundsdóttir