Reglur um snjómokstur og hálkueyðingu í Mosfellsbæ.
Götur og stígar eru flokkaðir eftir umferð og mikilvægi.
Götur í fyrsta forgangi
Aðaltengigötur og leiðir strætisvagna. Leiðir strætisvagna eru saltaðar en aðrar götur í fyrsta forgangi eru sandaðar af Þjónustustöð. Reynt er að tryggja að þessar leiðir séu ávallt færar og ganga þær fyrir öðrum götum allan tímann sem þurfa þykir. Strætisvagnaleiðum er haldið opnum eftir því sem þarf fram á kvöld og um helgar. Vinna hefst að jöfnu eigi síðar en kl. 7:30 og fyrr ef með þarf.
Notuð eru tæki bæjarins, vörubíll með snjótönn, traktorsgrafa og traktor með snjótönn.
Á strætóleiðum er samningur við Vegagerðina. Vegagerðin sér um fyrsta mokstur á morgnana og söltun og Þjónustustöð sér síðan um að halda leiðunum opnum eftir því sem þarf fram á kvöld og um helgar. Ef þurfa þykir er Vegagerðin kölluð út á öðrum tímum.
Ef þessi tækjafloti ræður ekki við ástandið eru verktakar kallaðir inn eftir þörfum og er bænum þá hverfisskipt.
Götur í öðrum forgangi
Safngötur og íbúðamargar götur. Farið er í hreinsun á þessum götum eftir að tryggt er að götur með fyrsta forgang eru færar. Notuð eru tæki bæjarins, vörubíll með snjótönn, traktorsgrafa og traktor með snjótönn. Ef þessi tækjafloti ræður ekki við ástandið eru verktakar kallaðir inn eftir þörfum og er bænum þá hverfisskipt.
Aðrar götur
Húsagötur og vegir að sveitabýlum eru hreinsaðar þegar götur í fyrsta og öðrum forgangi eru færar þó skal stefnt að því að þær verði aldrei ófærar lengur en sólarhring. Notuð eru tæki bæjarins, vörubíll með snjótönn, traktorsgrafa og traktor með snjótönn. Ef þessi tækjafloti ræður ekki við ástandið eru verktakar kallaðir inn eftir þörfum og er bænum þá hverfisskipt.
Stígar í fyrsta forgangi
Aðalstígar sem tengja hverfi og skólasvæði. Reynt er að tryggja að þessir stígar séu ávallt færir og ganga þeir fyrir öðrum stígum allan tímann sem þurfa þykir. Vinna hefst að jöfnu eigi síðar en kl. 7:30 og fyrr ef með þarf. Notuð eru tæki bæjarins, 2 traktorar með snjótennur. Ef þessi tækjafloti ræður ekki við ástandið eru verktakar kallaðir inn eftir þörfum og er bænum þá hverfisskipt.
Stígar í öðrum forgangi
Aðrir stígar þar á meðal reiðstígar. Farið er í hreinsum á þessum stígum eftir að tryggt er að stígar með fyrsta forgang eru færar. Notuð eru tæki bæjarins, 2 traktorar með snjótennur. Ef þessi tækjafloti ræður ekki við ástandið eru verktakar kallaðir inn eftir þörfum og er bænum þá hverfisskipt.
Plön við stofnanir og plön við snjóþung hverfi
Bílastæði við skóla, leiksskóla og bæjarskrifstofur eru í forgang og skulu þau vera hreinsuð fyrir kl. 07:30. Samningur er við verktaka um þessa vinnu. Plön við snjóþung hverfi eru útbúin þegar mjög snjóþungt er og líkur á að götur í öðrum forgangi og aðrar götur teppist.