Reglur um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum bæjarfulltrúa og trúnaðarstörfum utan bæjarstjórnar.
1. gr. Tilgangur
Reglum þessum er ætlað að veita almenningi upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni bæjarfulltrúa og varabæjarfulltrúa í Mosfellsbæjar og trúnaðarstörf þeirra utan bæjarstjórnar og þar með auka gagnsæi í störfum bæjarstjórnar Mosfellsbæjar.
Skráning upplýsinga og viðhald skráningar er á ábyrgð hvers og eins bæjarfulltrúa.
2. gr. Skráning upplýsinga
Skráning samkvæmt reglum þessum er valkvæð og skulu þeir bæjarfulltrúar sem kjósa að skrá hagsmuni sína í samræmi við reglurnar, innan mánaðar frá því að nýkjörin bæjarstjórn kemur saman eftir kosningar, gera opinberlega grein fyrir fjárhagslegum hagsmunum sínum og trúnaðarstörfum utan bæjarstjórnar. Það sama á við um varabæjarfulltrúa, sem taka fast sæti í bæjarstjórn eða hafa setið fjórar vikur samfellt í bæjarstjórn.
Þeir bæjarfulltrúar sem kjós að skrá ekki hagsmuni sína upplýsa starfsmann bæjarstjórnar um það og ná ákvæði reglnanna ekki til þeirra.
Þeir bæjarfulltrúar sem kjósa að skrá sig skuldbinda sig til að viðhalda skráningu sinni með því að skrá nýjar upplýsingar og viðbótarupplýsingar innan mánaðar frá því að þær liggja fyrir.
3. gr. Skrá um fjárhagslega hagsmuni og trúnaðarstörf
Þjónustu- og samskiptadeild skal halda skrá, og birta á vef Mosfellsbæjar, um fjárhagslega hagsmuni bæjarfulltrúa, svo og um trúnaðarstörf þeirra utan bæjarstjórnar.
Skráin er byggð á upplýsingum sem bæjarfulltrúar sem kjósa að skrá hagsmuni sína, láta sjálfir í té og senda inn á rafrænan hátt. Innfærslan felur í sér staðfestingu á skráðum upplýsingum og að nýjar upplýsingar verði færðar inn eftir því sem aðstæður breytast.
Við skráningu upplýsinga skal fylgja að fullu fyrirmælum reglna þessara. Ekki er heimilt að taka inn í skrána upplýsingar sem falla utan reglnanna.
4. gr. Fjárhagslegir hagsmunir
Eftirfarandi fjárhagslegir hagsmunir skulu skráðir:
-
- Launuð störf og tekjumyndandi starfsemi.
- Laun stjórnarseta í einkareknum eða opinberum félögum. Staða og félag skulu skráð.
- Launað starf eða verkefni (annað en launuð störf vegna setu í bæjarstjórn). Starfsheiti og nafn vinnuveitanda eða verkkaupa skulu skráð.
- Starfsemi sem rekin er samhliða starfi bæjarfulltrúa og er tekjumyndandi fyrir hann eða félag sem hann á sjálfur eða er meðeigandi í. Tegund starfsemi skal skráð.
- Fjárhagslegur stuðningur, gjafir, utanlandsferðir og eftirgjöf eftirstöðva skulda.
- Fjárframlag eða annar fjárhagslegur stuðningur frá innlendum og erlendum lögaðilum og einstaklingum, þar á meðal stuðningur í formi skrifstofuaðstöðu eða hliðstæðrar þjónustu, sem fellur utan þess stuðnings sem Mosfellsbær eða stjórnmálasamtök bæjarfulltrúa lætur í té, og verðgildi stuðnings nemur meira en 50 þús. kr. á ári. Enn fremur skal skráður fjárhagslegur stuðningur í formi afsláttar af markaðsverði og annars konar ívilnunar að verðmæti meira en 50 þús. kr. sem ætla má að sé veittur vegna setu í bæjarstjórn. Skráð skal hver veitir stuðninginn og hvers eðlis hann er.
- Gjöf frá innlendum og erlendum lögaðilum og einstaklingum þegar áætla verður verðmæti hennar yfir 50 þús. kr. og að gjöfin sé veitt út af setu í bæjarstjórn. Skrá skal nafn þess sem gefur, tilefni gjafar, hvers kyns hún er og hvenær hún er látin í té.
- Ferðir og heimsóknir innan lands og utan sem geta tengst setu í bæjarstjórn og útgjöldin eru ekki að öllu leyti greidd af bæjarsjóði, stjórnmálasamtökum bæjarfulltrúans eða bæjarfulltrúanum sjálfum. Skrá skal hver stóð undir útgjöldum ferðar, tímabil hennar og nafn áfangastaða.
- Eftirgjöf eftirstöðva skuldar og ívilnandi breytingar á skilmálum samnings við lánardrottinn. Skrá skal lánardrottinn og eðli samningsins.
- Eignir.
- Fasteign, sem er að einum þriðja eða meira í eigu bæjarfulltrúa eða félags sem hann á fjórðungshlut í eða meira, annað en húsnæði til eigin nota fyrir bæjarfulltrúa og fjölskyldu hans og lóðarréttindi undir slíkt húsnæði. Skrá skal heiti landareignar og staðsetningu fasteignar.
- Heiti félags eða sparisjóðs í atvinnurekstri, sem bæjarfulltrúi á hlut í og fer yfir einhver eftirtalinna viðmiða:
- Verðmæti hlutar nemur að markaðsvirði meira en einni milljón króna miðað við 31. desember ár hvert.
- Hlutur nemur 1% eða meira í félagi eða sparisjóði þar sem eignir í árslok eru 230 milljónir króna eða meira eða rekstrartekjur 460 milljónir króna eða meira.
- Hlutur nemur 25% eða meira af hlutafé eða stofnfé félags eða sparisjóðs.
- Heiti sjálfseignarstofnunar í atvinnurekstri, sbr. 3. gr. laga nr. 33/1999, um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur, sem bæjarfulltrúi á hlut í og fer yfir einhver þeirra viðmiða sem talin eru í lið ii).
- Skuldir.
- Skrá skal skuldir, sjálfskuldarábyrgðir og aðrar ábyrgðir, sem tengdar eru rekstri fasteignar eða atvinnurekstri félaga, sparisjóða eða sjálfseignarstofnana, sbr. 3. tölul. Skrá skal skuldir og ábyrgðir sem eru hærri en þingfararkaup alþingismanna eins og það er á hverjum tíma. Ekki skal skrá fjárhæð skuldar eða skuldir eða ábyrgðir sem stofnað er til í öðrum tilgangi, svo sem vegna kaupa á íbúðarhúsnæði til eigin nota eða bifreið til eigin nota, námslána eða annarra ráðstafana sem ekki tengjast atvinnurekstri. Jafnframt skal skrá tegund skuldar eða ábyrgðar og skuldareiganda.
- Samkomulag við fyrrverandi eða verðandi vinnuveitanda.
- Samkomulag við fyrrverandi vinnuveitanda sem er fjárhagslegs eðlis, þar á meðal samkomulag um orlof, launalaust leyfi, áframhaldandi launagreiðslur eða fríðindi, lífeyrisréttindi og ámóta meðan setið er í bæjarstjórn. Skrá skal gerð samkomulags og nafn vinnuveitanda.
- Samkomulag við framtíðarvinnuveitanda um ráðningu, óháð því að ráðningin taki fyrst gildi eftir að bæjarfulltrúi hverfur úr bæjarstjórn. Skrá skal gerð samkomulags og nafn vinnuveitanda.
- Launuð störf og tekjumyndandi starfsemi.
Ekki skal skrá fjárhæð eða verðgildi þeirra þátta sem eru tilgreindir í greininni.
Við mat á því hvort skrá skuli fjárhagslega hagsmuni bæjarfulltrúa í félagi sem hann á sjálfur eða er meðeigandi í skal miðað við skilgreiningu á raunverulegum eiganda, sbr. ákvæði laga um skráningu raunverulegra eigenda nr. 82/2019.
5. gr. Trúnaðarstörf utan bæjarstjórnar
Skráðar skulu upplýsingar um stjórnarsetu og önnur trúnaðarstörf fyrir hagsmunasamtök, opinberar stofnanir, sveitarfélög og félög önnur en stjórnmálasamtök óháð því hvort þessi störf eru launuð. Skrá skal nafn félags, hagsmunasamtaka, stofnunar eða sveitarfélags og eðli trúnaðarstarfs.
6. gr. Skráning upplýsinga
Þeir bæjarfulltrúar sem kjósa að skrá hagsmuni sína, skrá upplýsingar á rafrænan hátt innan mánaðar frá því að nýkjörin bæjarstjórn tekur sæti, þegar varabæjarfulltrúi hefur tekið fast sæti bæjarfulltrúa eða eftir að varabæjarfulltrúi hefur setið fjórar vikur samfellt í bæjarstjórn. Skráningarblað sem notað er skal staðfest af bæjarráði.
Nýjar upplýsingar skv. 4. og 5. gr., þar með taldar upplýsingar um nýfengna hluti í félögum eða breytingar á áður skráðum upplýsingum, skulu skráðar innan mánaðar eftir að upplýsingarnar liggja fyrir.
Þegar nýjar upplýsingar eru skráðar eða eldri upplýsingum er breytt skulu áður skráðar upplýsingar um hagsmuni þingmanns geymdar í skjalasafni Mosfellsbæjar. Nýjar eða breyttar upplýsingar skulu vera aðgengilegar á vef Mosfellsbæjar innan 10 daga frá því að bæjarfulltrúi hefur tilkynnt um skráningu þeirra. Heimilt er að fella niður upplýsingar sem getið er um í 2. tölul. 4. gr. þegar fjögur ár eru liðin frá upphaflegri skráningu þeirra. Upplýsingar skulu teknar úr birtingu á vef Mosfellsbæjar þegar bæjarfulltrúi lætur af störfum.
Skráning að loknum bæjarstjórnarkosningum skal vera aðgengileg almenningi á vef Mosfellsbæjar innan 10 virkra daga eftir að skráningarfrestur er runninn út.
Upplýsingar skulu fjarlægðar af vef Mosfellsbæjar þegar bæjarfulltrúi lætur af störfum.
7. gr. Framkvæmd
Þjónustu- og samskiptadeild hefur umsjón með skráningunni, veitir bæjarfulltrúum leiðbeiningar um framkvæmd skráningarinnar auk þess að veita almennar leiðbeiningar eftir því sem tilefni er til.
Við upphaf kjörtímabils og við lok þess frests sem bæjarfulltrúar hafa til þess að skrá hagsmuni sína, sbr. 1. mgr. 2. gr., skal vekja athygli bæjarfulltrúa á skyldu til þess að skrá hagsmuni sína og að viðhalda skránni samkvæmt reglum þessum.
Þjónustu- og samskiptadeild skal minna bæjarfulltrúa á skyldu til þess að skrá hagsmuni sína og viðhalda skráningu þeirra samkvæmt reglum þessum. Skal senda þeim sem reglurnar taka til tilkynningu þessa efnis í mars og október ár hvert og þegar tilefni er til samkvæmt ákvörðun þjónustu- og samskiptadeildar.
8. gr. Eftirfylgni
Þeir bæjarfulltrúar sem kjósa að skrá hagsmuni sína samkvæmt reglum þessum bera einir ábyrgð á skráningu fjárhagslegra hagsmuna sinna og trúnaðarstarfa utan bæjarstjórnar.
Fái þjónustu- og samskiptadeild ábendingu um að bæjarfulltrúi hafi vanrækt að skrá hagsmuni sína, ekki skráð þá réttilega eða ekki haldið við skráningu þeirra skal starfsmaðurinn gera honum viðvart um slíkt.
Erindum vegna hagsmunaskráningar bæjarfulltrúa skal beint til bæjarráðs.
9. gr. Endurskoðun fjárhæða
Bæjarstjórn skal við lok kjörtímabils bæjarstjórnar leggja mat á hvort tilefni sé til að endurskoða viðmiðunarfjárhæðir í reglum þessum.
10. gr. Gildistaka o.fl.
Reglur þessar, sem settar eru með vísan til 5. gr. siðareglna kjörinna fulltrúa í Mosfellsbæ og taka þegar gildi. Skráningu samkvæmt reglum þessum skal lokið innan mánaðar frá gildistöku þeirra. Reglurnar koma í stað reglna frá 24. febrúar 2010.
Samþykkt í bæjarstjórn Mosfellsbæjar 31. ágúst 2022.