Hoppa í meginmál
mos.is - Forsíða

Regl­ur Mos­fells­bæj­ar um skamm­tíma­dvöl fyr­ir fatlað fólk með langvar­andi stuðn­ings­þarf­ir.

Skv. 17 gr. laga um þjón­ustu við fatlað fólk með langvar­andi stuðn­ings­þarf­ir nr. 38/2018 og reglu­gerð um starf­semi og að­bún­að á skamm­tíma­dval­ar­stöð­um nr. 1037/2018.

1. gr. Markmið og for­send­ur

Skamm­tíma­dval­ir eru fyr­ir börn og ung­menni sem vegna mikillar umönnunarþarfa umfram jafnaldra þurfa á skammtímadvöl að halda. Skammtímadvöl er ætluð börnum sem flokkast í umönnunarflokka 1, 2 og 3 eins og þeir eru skilgreindir í 5. gr. reglugerðar nr. 504/1997 um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna.

Heimilt er einnig að veita fullorðnu fötluðu fólki með langvarandi stuðningsþarfir, sem býr í foreldra­húsum, skammtímadvöl meðan beðið er eftir annarri þjónustu.

Markmið þessara reglna er að tryggja að starfsemi og aðbúnaður á skammtímadvalarstöðum fyrir fötluð börn, ungmenni og fullorðna taki mið af aldri þeirra, aðstæðum og stuðningsþörf.

Skammtímadvalir eru í þremur sveitarfélögum þ.e.;

  • Móaflöt í Garðabæ er fyrir börn á aldrinum 6-18 ára að jafnaði.
  • Hnotuberg í Hafnarfirði er fyrir fólk frá 16 ára aldri.
  • Hrauntunga í Kópavogi er fyrir ungt fólk sem undirbúningur fyrir sjálfstæða búsetu.

2. gr. Gæði þjónustunnar

Þjónustu- og rekstraraðili sem ber faglega og fjárhagslega ábyrgð á þjónustu skammtímadvalar skal tryggja að aðstæður miðist við aldur og getu þeirra sem þar dvelja á hverjum tíma.

Hver og einn notandi sem hefur fengið úthlutað í skammtímavistun fær tengi­lið sem er starfsmaður skammtímadvalarinnar. Hlutverk tengils er að samræma þjónustu með gerð einstaklingsbundinnar þjónustuáætlunar ef við á. Þjónustu- og rekstraraðili skal á 12 mánaða fresti, í það minnsta, framkvæma mat á gæðum þjónustunnar og ráðast í gerð umbótaáætlunar sé þess talin þörf. Slíkt mat skal vera aðgengilegt almenningi.

3. gr. Umsóknarferli og úthlutanir

Umsókn um skammtímadvöl skal senda rafrænt í gegnum íbúagátt Mosfellsbæjar.

Þegar umsókn hefur verið móttekin skal innan tveggja vikna boða umsækjanda og eftir atvikum aðstandanda/tengilið í viðtal til að afla frekari upplýsinga. Einnig er óskað eftir upplýsingum frá fagaðilum, með framvísun læknisvottorðs og/eða greinargerð frá viðurkenndum greiningaraðila, þar sem fram kemur mat á þörf viðkomandi fyrir stuðning. Á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga er annars vegar metið hvort almenn úrræði samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga geta komið til móts við þarfir umsækjanda eða hvort þörf sé sérstakra stuðningsúrræða samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Umsókn er lögð fyrir fund teymis. Umsækjanda er tilkynnt um úthlutun innan sjö daga frá ákvörðun. Umsækjandi getur áfrýjað ákvörðun innan fjögurra vikna frá því honum barst vitneskja um ákvörðun. Umsækjanda skal kynntur áfrýjunarréttur þegar niðurstaða liggur fyrir.

Þegar losnar um í skammtímadvöl forgangsraðar hvert sveitarfélag umsóknum um skammtímadvalir sem síðan eru lagðar fyrir í samráðshópi sveitarfélaga. Í samráðshópi sitja starfsmenn frá hverju sveitarfélagi fyrir sig ásamt forstöðumanni viðkomandi skammtímadvalar. Hópurinn gerir tillögu að úthlutun.

Umsækjanda er tilkynnt um úthlutun innan sjö daga frá ákvörðun.

4. gr. Þjónustutími

Þjónustutími skammtímadvalar getur verið allt frá einum upp í 14 sólarhringa á fjögurra vikna tímabili.

Sé talin þörf fyrir þjónustu í meira en 90 sólarhringa í 26 vikur samfleytt skal unnin einstaklingsbundin þjónustuáætlun um aukna aðstoð á heimili notandans. Þurfi notandi annars konar og meiri þjónustu en unnt er að veita á heimili fjölskyldu hans samhliða skammtímadvöl skal vísa málefni hans til sérfræðingateymis skv. 20. gr. laga nr. 38/2018.

Dvelji notandi í skammtímadvöl í samtals 90 sólarhringa á ári eða lengur skal gert ráð fyrir að dvölin verði hluti af einstak­lings­bundinni þjónustuáætlun viðkomandi svo unnt sé að tryggja gæði þjónustunnar og samráð við fjöl­skyldu og aðra þjónustuaðila.

5. gr. Hámarksfjöldi notenda á skammtímadvalarstað

Fjöldi notenda á hverjum skammtímadvalarstað skal, alla jafna, ekki vera fleiri en sex samtímis. Við mat á hámarksfjölda notenda á hverjum tíma skal tekið mið af einstaklingsbundnum þörfum hvers og eins og aðstæðum á skammtímadvalarstað hverju sinni.

6. gr. Kostnaðarþátttaka

Þjónusta í skammtímadvöl er notendum að kostnaðarlausu. Þeir skulu þó standa straum af kostnaði vegna frístunda og ferða sinna á meðan á skammtímadvöl stendur. Notendur skammtímadvalar skulu ekki bera kostnað vegna þátttöku starfsmanna í frístundastarfi með þeim.

Notendur eldri en 18 ára skulu standa straum af kostnaði vegna fæðis meðan á dvöl stendur og greiða samkvæmt gjaldskrá hverju sinni. Gjaldskrá miðast við neysluviðmið Stjórnarráðs Íslands ár hvert.

7. gr. Starfsmannahald

Forstöðumaður skammtímadvalar skal hafa háskólapróf á sviði félags-, heilbrigðis- eða mennta­vísinda og reynslu sem nýtist í starfi. Jafnframt skal að minnsta kosti einn annar starfs­maður með fagmenntun vera til staðar á vökutíma. Starfsmenn skulu hafa grunnþekkingu í þjónustu við fatlað fólk og uppeldi barna ef við á.

Rekstrarsveitarfélag tekur á sig ábyrgð á ráðningu starfsmanna. Óheimilt er að ráða starfsmann sem hlotið hefur refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. kafla eða 211. og 218. gr. almennra hegningarkafla nr. 19/1940. Hafi starfsmaður verið dæmdur til refsingar fyrir brot á öðrum ákvæðum almennra hegningarlaga skal meta áhrif þess á hæfi viðkomandi til að gegna því starfi sem um ræðir, m.a. að teknu tilliti til eðlis starfsins og alvarleika brotsins.

8. gr. Ábyrgð

Sveitarfélag ber ábyrgð á að aðbúnaður og þjónusta á skammtímadvalarstað sé í samræmi við gild­andi lög og reglugerðir. Sú ábyrgð nær jafnt til þeirrar þjónustu sem veitt er á vegum sveitar­félags og annarra aðila sem veita þjónustu á grundvelli samninga við sveitarfélagið.

9. gr. Eftirlit

Sveitarfélag annast eftirlit með starfsemi skammtímadvalarstaða, sbr. 5. gr. laga nr. 38/2018. Eftirlitið getur verið í formi úttekta á gæðum sem byggjast á kröfulýsingum, þar sem aðstæður eru skoðaðar.

10. gr. Gildistaka

Reglur þessar voru samþykktar á 292. fundi fjölskyldunefndar 17. mars 2020 og staðfestar á 758. fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar þann 1. apríl 2020.

Netspjall

Opið virka daga
mán. – fim. 8:00-16:00
fös. 8:00-13:00

Þjónustuver 525-6700

Opið virka daga
mán. – fim. 8:00-16:00
fös. 8:00-13:00