Siðareglur kjörinna fulltrúa hjá Mosfellsbæ.
1. gr. Markmið
Markmið þessara reglna, er að skilgreina það hátterni sem ætlast er til að kjörnir fulltrúar sýni af sér við störf sín fyrir hönd Mosfellsbæjar.
Með kjörnum fulltrúum er átt við bæjarfulltrúa sem og alla aðra sem kjörnir eru til setu í nefndum og ráðum Mosfellsbæjar. Gildi Mosfellsbæjar um jákvæðni, virðingu, framsækni og umhyggju eru hluti af markmiðum þessara siðareglna.
2. gr. Að fylgja lögum og gæta almannahagsmuna
Kjörnum fulltrúum ber að gegna störfum sínum af alúð og samviskusemi, fyrir opnum tjöldum, vera reiðubúnir að axla ábyrgð á ákvörðunum sínum og gæta hagsmuna Mosfellsbæjar. Í störfum sínum eru kjörnir fulltrúar bundnir af lögum, reglum og samþykktum Mosfellsbæjar, sem og sannfæringu sinni. (Þeir skulu í störfum sínum og í umræðu um málefni Mosfellsbæjar stuðla að og viðhafa orð og athafnir sem samrýmast geta góðum mennleglum samskiptum.)
Kjörnir fulltrúar hafa ávallt í heiðri grundvallarreglur góðrar stjórnsýslu í störfum sínum, þ,m.t. gagnsæja og upplýsta ákvarðanatöku, og framkvæma ekkert það sem er til þess fallið að vekja grunsemdir um að annað en lögmæt málefnaleg sjónarmið ráði för við stjórn Mosfellsbæjar. Kjörnir fulltrúar gæta þagnarskyldu um það sem þeir fá vitnesku um í starfi sínu og leynt á að fara vegna einkahagsmuna eða almannahagsmuna samkvæmt lögum eða eðli máls. Trúnaðurinn helst áfram eftir að látið er af störfum.
3. gr. Valdmörk
Í störfum sínum ber kjörnum fulltrúum að virða ákvörðunarvald, réttindi og verkaskiptingu annarra kjörinna fulltrúa og fara ekki út fyrir umboð sitt í störfum sínum. Þeir mega ekki hvetja til eða aðstoða kjörinn fulltrúa við að brjóta þær meginreglur sem hér eru settar fram.
Kjörnir fulltrúar virða aðgerðir í þágu stjórnsýslueftirlits hjá Mosfellsbæ og leggja sitt af mörkum til að slíkt eftirlit nái markmiðum sínum.
4. gr. Misbeiting valds – bann við spillingu
Kjörnir fulltrúar skulu eigi beita réttindum eða aðstöðu sem fylgja embætti þeirra í þágu einkahagsmuna sinna eða annarra í því skyni að geta notið óbeinna eða beinna persónulegra hagsbóta af því.
Kjörnir fulltrúar skulu ekki viðhafa hegðun innan og utan starfa þeirra fyrir hönd sveitarfélagsins sem gæti talist fela í sér að veita eða þiggja mútur og tilkynna skulu þeir um gjafir eða boð um gjafir í samræmi við reglur sem bæjarstjórn setur.
5. gr. Hagsmunaárekstrar
Kjörnir fulltrúar skulu forðast hagsmunaárekstra í störfum sínum. Þegar kjörinn fulltrúi á óbeinna eða beinna persónulegra hagsmuna að gæta í máli sem eru til umfjöllunar hjá bæjarstjórn, bæjarráði, nefndum eða ráðum sveitarfélagsins, skal hann gera grein fyrir þessum hagsmunum áður en umræður, atkvæðagreiðslur eða embættisfærslur fara fram og ef vafi getur leikið á um hæfi hans og skal hann ekki taka þátt í umræðum eða atkvæðagreiðslum í málum ef hann er vanhæfur til þess, vegna eigin hagsmuna eða náinna vandamanna. Um mat á hæfi fer eftir hæfisreglum sveitarstjórnarlaga og stjórnsýslulaga.
Kjörnir fulltrúar nýta sér ekki stöðu sína í þágu einkahagsmuna sinna eða annarra sem eru þeim tengdir, hvort sem ávinningur af slíku kemur fram strax eða síðar, þ.m.t. eftir að störfum fyrir Mosfellsbæ lýkur.
Stjórnsýslusvið Mosfellsbæjar heldur skrá, og birtir opinberlega, um fjárhagslega hagsmuni bæjarfulltrúa, svo og um trúnaðarstörf þeirra utan bæjarstjórnar í samræmi við reglur þar um.
6. gr. Ábyrgð í fjármálum
Kjörnum fulltrúum ber að virða fjárhagsáætlun og grundvallarreglur um fjármálastjórn sem tryggja réttmæta og ábyrga meðferð á almannafé.
Við störf sín skulu kjörnir fulltrúar ekki aðhafast neitt sem getur falið í sér misnotkun á almannafé.
7. gr. Stöðuveitingar
Kjörnum fulltrúum ber að gæta þess að við stöðuveitingar hjá Mosfellsbæ sé í hvívetna fylgt lögum og reglum og að einungis málefnalegar forsendur liggi að baki vali á starfsmönnum.
8. gr. Bann við að tryggja sér stöður
Kjörnir fulltrúar skulu ekki í störfum sínum leita eftir starfslegum ávinningi í framtíðinni, til dæmis með því að ívilna fyrirtæki eða stofnun sem þeir hafa eftirlit með eða hafa stofnað til samningssambands við fyrir hönd sveitarfélagsins, með athöfnum eða athafnaleysi, þannig að fari í bága við hagsmuni þess.
9. gr. Miðlun siðareglna til kjörinna fulltrúa og almennings
Kjörnum fulltrúum ber að tileinka sér þessar siðareglur og lýsa því yfir að þeir séu reiðubúnir til að hafa þessar siðareglur að leiðarljósi.
Siðareglurnar skulu vera aðgengilegar starfsfólki sveitarfélagsins, almenningi og fjölmiðlum á heimasíðu sveitarfélagsins og annan þann hátt sem bæjarstjórn ákveður, til að þessir aðilar geti gert sér grein fyrir meginreglum þeirra.
Samþykkt á 530. fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar þann 24. febrúar 2010.