1. gr.
Vistunargjald greiðist fyrirfram, einn mánuður í senn og skal greitt fyrsta virka dag mánaðarins. Vistunargjald miðast við einn almanaksmánuð. Byrji barn í miðjum mánuði er innheimt fyrir þá virku daga sem barnið er í gæslu. Reikna skal 21,67 virka daga í hverjum mánuði.
2. gr.
Ef greiðsla vegna vistunar hefur ekki borist dagforeldri fyrir 5. hvers mánaðar er dagforeldri ekki skylt að taka barnið í vistun nema um annað sé samið.
3. gr.
Foreldrar þurfa að gera ráð fyrir a.m.k. viku tíma í alögun barns í upphafi vistunar. Fullt vistunargjald greiðist á aðlögunartíma. Greiða ber vistunargjald frá þeim degi er samið var um samkvæmt vistunarsamningi, þó svo að foreldrar fresti upphafi gæslu. Ef dagforeldri og foreldrar eru sammála um að ekki verði af frekari vistun verður sá mánuður ekki endurgreiddur en uppsagnarfrestur er þá aðeins 3 vikur.
4. gr.
Uppsagnarfrestur beggja aðila er 1 mánuður og miðast við 1. og 15. hvers mánaðar. Uppsögn skal vera skrifleg á þar til gerðu breytingablaði. Sé um fyrirvaralausa uppsögn að ræða af hálfu forráðamanns, skal greiða vistunargjald út uppsagnarfrestinn. Sé um fyrirvaralausa uppsögn að ræða af hálfu dagforeldris, skal forráðamaður fá endurgreitt fyrir þann tíma sem ónýttur er.
Orlof er innifalið í vistunargjaldi og því greiðist ekkert gjald á meðan á sumarleyfi dagforeldris stendur.
Dagforeldri skal tilkynna forráðamanni hvenær hann tekur orlof fyrir fyrsta apríl ár hvert. Fari barn í orlof á öðrum tíma en dagforeldri, skal greiða fyrir barnið þann tíma.
Mikilvægt er að foreldrar virði vistunartíma barnsins. Dagforeldri hefur heimild til að innheimta sérstaklega ef barn er sótt of seint samkvæmt gjaldskrá þjónustusamnings. Ítrekuð brot á þessari reglu jafngildir uppsögn af hálfu foreldris.
5. gr.
Barn þarf að hafa meðferðis hlýjan útifatnað, regnfatnað og aukaföt til skiptanna. Bleyjur eru samningsatriði milli dagforeldris og foreldra. Við komu og brottför barns klæðir foreldri barn sitt í og úr yfirhöfn. Foreldrar koma með vagna sem barnið sefur í á hvíldartíma þess, sé vilji til þess að barnið sofi í vagni. Ávallt skulu vera örugg og viðurkennd beisli í vögnunum. Dagforeldri og foreldri hafa samkomulag um hvort hægt er að geyma vagna í daggæslunni milli daga. Börn eru ekki látin sofa úti í frosti skv. reglum landlæknis.
6. gr.
Börn skulu ekki horfa á sjónvarp né aðra skjái ss. skjábretti eða snjallsíma, í daggæslunni.
7. gr.
Dagforeldri ber að passa vel upp á eigur barnanna s.s. fatnað, leikföng, vagna og annað sem tilheyrir barninu en það ber ekki kostnað af því ef eitthvað skemmist eða týnist.
8. gr.
Foreldrar skulu láta dagforeldri vita sem fyrst og eigi síðar en kl 9:00 ef barnið kemur ekki í vistun þann daginn.
9. gr.
Dagforeldri ber að bíða í allt að hálfa klukkustund á morgnanna eftir komu barns en eftir þann tíma áskilur það sér rétt til að fara í gönguferð eða aðra útivist án þess að láta foreldri vita eða bíða lengur.
10. gr.
Dagforeldri getur ekki tekið á móti veiku og/eða vansvefta barni. Ef grunur leikur á að barn sé að veikjast eða beri smit á barnið ekki að mæta í daggæslu. Ef barn veikist eða slasast í daggæslu ber dagforeldri að láta foreldra vita eins fljótt og kostur er og foreldrar sækja þá barnið. Nauðsynlegt er að barnið jafni sig vel af veikindum sínum heima og mæti aftur frískt í daggæslu svo það geti tekið þátt í allri daglegri starfsemi úti sem inni.
11. gr.
Börnum eru ekki gefin lyf hjá dagforeldri nema brýna nauðsyn beri til.
12. gr.
Foreldri ber skylda til að láta dagforeldri vita, ef annar en hann kemur að sækja barnið.
13. gr.
Tilkynna skal foreldri ef gæludýr eru á heimilinu. Gæludýr skulu ávalt vera afsíðis eða fjarri börnunum á meðan á daggæslunni stendur. Gæludýramatur og dallar skulu ekki vera í nálægð við börnin þannig að þau komist í snertingu við það.
14. gr.
Dagforeldri kaupir slysatryggingu vegna barna í samræmi við reglur Mosfellsbæjar og félags dagforeldra.
15. gr.
Dagforeldri áskilur sér rétt á veikindaleyfi í allt að 10 daga á starfsárinu án þess að draga það frá vistunargjaldi. Starfsár telst vera frá 1. ágúst til 31. júlí.
16. gr.
Dagforeldri á rétt á að taka 3 starfsdaga á starfsári. Þar af telst einn dagur vera fræðsludagur sem Fræðsluskrifstofa skipuleggur. Dagsetningar þessara daga skulu liggja fyrir eigi síðar 1. september ár hvert og skulu þeir kynntir foreldrum og fræðsluskrifstofu Mosfellsbæjar.
17. gr.
Fullur trúnaður skal ríkja milli dagforeldris og forráðamanna um hagi hvors annars. Áríðandi er að upplýsingastreymi sé mikið og óþvingað á milli forráðamanna og dagforeldri því það er nauðsynlegur grunnur fyrir góða samvinnu.
Samþykkt á fundi 706. fundi bæjarstjórnar þann 29.11.2017.