Reglur vegna opinna funda nefnda Mosfellsbæjar.
Reglur þessar eru settar með vísan til 46. greinar sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 um fundi nefndar og ályktunarhæfi. Tilgangur sem setningu þessarra reglna er m.a. að stuðla að opinni og gegnsærri stjórnsýslu Mosfellsbæjar í anda lýðræðisstefnu bæjarins.
1. gr.
Reglur þessar gilda um allar fastanefndir Mosfellsbæjar samkvæmt samþykkt þessari. Fundir nefnda skulu almennt haldnir fyrir luktum dyrum, en heimilt er þó nefnd að opna fundi sína komi fram ósk um slíkt sbr. 2. gr. og svo fremi lög eða eðli máls hamli því ekki. Um opna fundi nefnda, ályktunarhæfi þeirra, atkvæðagreiðslur o.fl. gilda ákvæði sveitarstjórnarlaga eftir því sem við getur átt.
2. gr.
Rétt kjörinn nefndarmaður/menn sem sæti á í viðkomandi nefnd getur óskað eftir því að fundur nefndar verði opinn. Á sama hátt geta bæjarráð og bæjarstjórn óskað eftir því við viðkomandi nefnd að hún haldi opinn fund í þeim tilgangi að stuðla að opinni og gegnsærri stjórnsýslu og til að veita innsýn í starf og verkefni viðkomandi nefndar, allt í anda lýðræðisstefnu Mosfellsbæjar um aukið gagnsæi og upplýsta starfshætti.
Komi fram ósk um opinn fund skv. þessari grein skal óskin vera á dagskrá næsta fundar nefndarinnar þar sem taka skal ákvörðun um framkomna ósk sbr. 3. gr.
3. gr.
Ákvörðun um að opna fund nefndar skal tekin á settum og löglegum fundi nefndar og nægir einfaldur meirihluti atkvæða til ákvörðunarinnar. Samhliða ákvörðun um opinn fund skal nefndin taka afstöðu til þess hvort og þá með hvaða hætti fundargestum gefst kostur á að taka þátt í fundinum s.s. að taka til máls um einstök dagskrármál, að leggja fram tillögu að afgreiðslu einstakra dagskrármála o.sv.fr. Geta skal þess sérstaklega í fundarboði að viðkomandi nefndarfundur verði opinn. Að öðru leyti gildir um boðun opinna funda, sömu reglur og almennt gilda um boðun funda hjá Mosfellsbæ með vísan til ákvæða III. kafla sveitarstjórnarlaga um sveitarstjórnarfundi.
4. gr.
Á opnum fundi nefndar samkvæmt reglum þessu skal þess gætt að reglur um þagnarskyldu standi því ekki í vegi að fjallað sé um tiltekin erindi á opnum fundi nefndar. Af þessu leiðir að koma kann til þess að stilla verður í hóf fjölda opinna funda nefnda allt eftir verkefnum þeirra og eðli, en þó skal kappkosta að halda a.m.k. einn opinn fund á hverju almanaksári í samræmi við lýðræðisstefnu Mosfellsbæjar.
Samþykkt á 621. fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar þann 26. febrúar 2014.