Samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Mosfellsbæ.
1. gr. Markmið og gildissvið
Markmið samþykktar þessarar er:
a) að stuðla að því að meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið,
b) að stuðla að því að sveitarfélagið nái settum markmiðum fyrir endurvinnslu og urðun úrgangs frá heimilum og rekstraraðilum,
c) að stuðla að vinnuvernd starfsfólks og veita góða þjónustu við íbúa,
Horft verði til forgangsröðunar við meðhöndlun úrgangs, áhersla lögð á úrgangsforvarnir og mengunarbótareglan, sá geldur sem veldur, höfð að leiðarljósi við ákvörðun gjaldtöku vegna meðhöndlunar úrgangs.
Samþykkt þessi gildir fyrir úrgang sem fellur undir lög nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Samþykktin gildir um meðhöndlun úrgangs í Mosfellsbæ og gildir bæði fyrir íbúa og rekstraraðila.
2. gr. Umsjón og eftirlit
Umhverfissvið Mosfellsbæjar hefur umsjón með málefnum er varða meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu í umboði sveitarstjórnar. Sviðið fer með daglega yfirstjórn meðhöndlunar úrgangs samkvæmt samþykkt þessari.
Heilbrigðisnefnd Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness hefur eftirlit með meðhöndlun úrgangs, skv. 2. mgr. 4. gr. laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003 og 9. gr. reglugerðar nr. 803/2023 um meðhöndlun úrgangs og með því að farið sé að samþykkt þessari skv. 47. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.
3. gr. Söfnun og flokkun heimilisúrgangs
Mosfellsbær sér um og ber ábyrgð á söfnun á heimilisúrgangi frá íbúðarhúsum í sveitarfélaginu. Sveitarfélagið getur sinnt söfnun úrgangs á eigin vegum eða falið öðrum framkvæmdina.
Sérhverjum húsráðanda íbúðarhúss er skylt að flokka heimilisúrgang við húsnæðið og að nota ílát, merkingar og aðferðir sem sveitarfélagið ákveður, sbr. 4. gr. samþykktanna. Íbúar skulu flokka heimilisúrgang í að lágmarki sjö flokka:
a) Spilliefni
b) Lífúrgang
c) Pappír/pappa
d) Plast
e) Textíl
f) Málma
g) Gler
Úrgang sem ekki er hægt að endurnýta skal setja í ílát fyrir blandaðan úrgang.
Sveitarfélagið útvegar ílát fyrir lífúrgang (matarleifar, afskorin blóm, pottaplöntur og eldhúspappír), pappír/pappa, plast og blandaðan úrgang við heimili. Matar- og eldhúsúrgang skal setja í pappírspoka. Ekki er heimilt að nota annað en pappírspoka. Þar sem heimajarðgerð er til staðar er skylt að vera með ílát fyrir lífúrgang sem nýtist ekki í heimajarðgerð. Tekið er á móti rúmfrekum garðaúrgangi á endurvinnslustöðvum, en óheimilt er að setja hann í ílát fyrir lífúrgang við heimili.
Tekið er á móti a.m.k. gleri, málmum og textíl á grenndar- og endurvinnslustöðvum.
Óheimilt er að setja eftirfarandi úrgangsflokka í ílát fyrir blandaðan úrgang en tekið er á móti þessum úrgangsflokkum frá íbúum á endurvinnslustöðvum:
a) Spilliefni eða annan hættulegan úrgang
b) Timbur, brotamálm, múrbrot og annan grófan úrgang
c) Garðaúrgang, jarðefni og grjót
Lyfjum og lyfjaumbúðum sem komist hafa í snertingu við lyf skal skila í lyfjabúðir.
Mosfellsbær birtir áætlun um hirðutíðni á vefsíðu sinni. Miða skal við að ílát fyrir lífúrgang verði losuð ekki sjaldnar en á 14 daga fresti. Ílát fyrir blandaðan úrgang skulu að öllu jöfnu losuð samhliða lífúrgangi. Heimilt er að losa ílát fyrir pappír/pappa og plast sjaldnar og er sveitarfélaginu heimilt að ákveða þá hirðutíðni.
Ganga skal þannig frá úrgangi að ekki stafi hætta af honum fyrir starfsfólk sem sinnir hirðu eða annarri meðhöndlun úrgangs.
4. gr. Ílát fyrir úrgang við heimili
Mosfellsbær skal útvega ílát til notkunar við íbúðarhús, önnur en djúpgáma og gáma á yfirborði, sbr. 10. gr. samþykktanna. Að lágmarki skulu vera ílát fyrir fjóra flokka úrgangs við hvert íbúðarhús, þ.e. blandaðan úrgang, lífúrgang, pappír/pappa og plast. Ílátin eru eign Mosfellsbæjar sem sér um viðhald á þeim.. Íbúar skulu ganga vel um ílát sem þeim eru látin í té og skulu bera ábyrgð á að ílát séu þrifin, að hægt sé að þjónusta þau , og að upplýsa Mosfellsbæ um ílát í óviðunandi ásigkomulagi.
Mosfellsbær skal merkja ílátin með samræmdum flokkunarmerkjum.
Ílát fyrir úrgang skulu vera 140L, 240L með einu hólfi, tvískipt 240L (144L/96L), 360L eða 660L. Íbúum er heimilt að óska eftir því að heimilisúrgangur sé hirtur í djúpgámum eða gámum á yfirborði, sbr. 10. gr. samþykktanna. Mosfellsbær áskilur sér rétt til að breyta og/eða bæta við tegundum íláta í þjónustu.
Ílát skulu rúma þann úrgang sem fellur til milli hirðuumferða og þyngd þeirra ekki vera meiri en svo að hægt sé að færa þau til losunar. Þannig skal taka tillit til þyngdar viðkomandi úrgangsflokks við val á stærð og staðsetningu íláta. Sveitarfélagið getur ákveðið fjölda og stærð íláta telji það að rýmd fyrir úrgang sem fellur til sé ófullnægjandi eða stærð íláta henti illa til hirðu. Um stærð og fjölda djúpgáma og gáma á yfirborði fer skv. 10. gr. samþykktanna.
Að uppfylltum framangreindum skilyrðum er íbúum heimilt að óska eftir breytingum á stærð og fjölda íláta. Slík ósk er þó háð samþykki Mosfellsbæjar. Í fjöleignarhúsum þar sem sorpgeymslur og sorpílát eru samnýtt skulu ákvarðanir um fjölda og stærð íláta teknar í samræmi við ákvæði laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.
Í dreifbýli er Mosfellsbæ heimilt í samráði við heilbrigðisnefnd að setja upp ílát fyrir heimilisúrgang í alfaraleið í stað þess að sækja úrganginn á hvert heimili. Sé hirða úrgangs framkvæmd með þessum hætti skal þjónustustig við hirðu endurvinnsluefna ekki vera lakara en blandaðs úrgangs. Staðsetning íláta skal vera þannig að aðgengi að þeim sé gott. Í ílátin má eingöngu setja heimilisúrgang í samræmi við merkingar á ílátum, þ.e. blandaðan úrgang, lífúrgang, pappír/pappa og plast.
Íbúar skulu gæta þess að valda ekki skemmdum á ílátum. Verði ílát fyrir skemmdum af öðrum ástæðum en eðlilegri notkun og sliti getur sveitarfélagið farið fram á að íbúi sem haft hefur viðkomandi ílát til afnota greiði fyrir nýtt ílát. Íbúar skulu halda ílátum hreinum svo ekki skapist heilsuspillandi aðstæður eða óþægindi af völdum þeirra. Haldi íbúar ílátum ekki hreinum getur heilbrigðisnefnd gefið fyrirmæli um þrif þeirra, sbr. 15. gr. reglugerðar nr. 803/2023.
Íbúar skulu gæta þess að fylla ekki ílátin meira en svo að auðveldlega megi loka þeim, flytja og tæma. Tilfallandi umframúrgang sem ekki rúmast í íláti skal losa á grenndar- eða endurvinnslustöðvar, þar sem tekið er við viðkomandi úrgangsflokki.
Ílát verður ekki hirt ef aðstæður hindra hirðuaðila í að sinna þjónustunni. Ástæður geta m.a. verið:
a) Ílát inniheldur úrgang sem ekki á að safna eða flokkun úrgangs er röng.
b) Ílát er skemmt, yfirfullt eða stíflað þar sem úrgangi er þjappað í það.
c) Ílát finnst ekki eða það vantar lykla að geymslum.
d) Ílát eða aðstaða brýtur í bága við lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, reglur eða reglugerðir settar skv. þeim eða ákvæði samþykktar þessarar.
e) Ekki er hægt að færa ílát að hirðubíl til losunar þar sem leiðin að íláti er lokuð eða ógreiðfær.
Ef ílát er ekki hirt verður íbúum tilkynnt um ástæður þess og upplýst hvernig íbúar skuli bregðast við með miða sem límdur verður ná viðkomandi ílát.
5. gr. Grenndarstöðvar
Mosfellsbær skal, í samstarfi við önnur sveitarfélög eða með sameiginlegum þjónustusamningum, annast rekstur grenndarstöðva fyrir flokkaðan heimilisúrgang frá íbúum.
Á grenndarstöðvum skal tekið á móti flokkuðum úrgangi frá íbúum til endurnýtingar. Stöðvarnar skulu staðsettar þar sem aðgengi er gott hvort sem er fyrir gangandi, hjólandi eða akandi. Grenndarstöðvar skulu vera í nærumhverfi íbúa og þéttleiki grenndarstöðva skal vera þannig að gætt sé jafnræðis m.t.t. aðgengis íbúa. Í dreifbýli er heimilt að hafa þéttleika minni en í þéttbýli.
Á minni grenndarstöðvum skal í það minnsta tekið á móti gleri, málmum og textíl en á stærri grenndarstöðvum skal tekið á móti pappír/pappa, plasti, gleri, málmum og textíl.
Ílát skulu merkt með samræmdum flokkunarmerkjum. Óheimilt er að losa annan úrgang á grenndarstöð en þá flokka úrgangs sem tilgreindir eru með merkingum á hverri stöð. Óheimilt er að skilja úrgang eftir utan við gáma á grenndarstöðvum.
6. gr. Endurvinnslustöðvar
Mosfellsbær skal, í samstarfi við önnur eða með sameiginlegum þjónustusamningum, annast rekstur endurvinnslustöðva. Þéttleika, opnunartíma, gjaldtöku og aðrar rekstrarforsendur endurvinnslustöðva skal skilgreina í þjónustusamningi.
Ílát skulu merkt með samræmdum flokkunarmerkjum. Á endurvinnslustöðvum skal tekið á móti flokkuðum úrgangi frá íbúum og rekstraraðilum, m.a.:
a) Flokkuðum byggingar- og niðurrifsúrgangi
b) Rúmfrekum úrgangi
c) Garðaúrgangi
d) Spilliefnum
7. gr. Móttökustöðvar
Mosfellsbær skal, í samstarfi við önnur sveitarfélög eða með sameiginlegum þjónustusamningum, annast rekstur móttökustöðvar fyrir úrgang sem fellur til í sveitarfélaginu og skal tryggja honum farveg. Á móttökustöð skal vera aðstaða til að taka við úrgangi til geymslu til lengri eða skemmri tíma, til umhleðslu, flokkunar eða annarrar meðhöndlunar. Þaðan fer úrgangurinn til förgunar eða nýtingar.
Mosfellsbær skal, í samstarfi við önnur sveitarfélög eða með sameiginlegum þjónustusamningum, hafa umsjón með allri ráðstöfun úrgangs, sérsöfnuðum og blönduðum, sem safnað er frá íbúðarhúsum í sveitarfélaginu. Mosfellsbær, í samstarfi við önnur sveitarfélög eða með sameiginlegum þjónustusamningum, ýmist meðhöndlar úrgang, flytur hann til ráðstöfunaraðila eða býður út móttöku á sérsöfnuðum endurvinnsluefnum, sem og fylgir eftir úrgangsstraumum og útvegar staðfestingu á ráðstöfun efnis til endurvinnslu, annarrar endurnýtingar eða förgunar.
8. gr. Söfnun, flokkun og ráðstöfun úrgangs hjá rekstraraðilum
Rekstraraðilar skulu flokka heimilisúrgang í að lágmarki eftirfarandi flokka:
a) Lífúrgang
b) Pappír/pappa
c) Plast
d) Gler
e) Málma
f) Textíl
g) Blandaðan úrgang
Rekstrarúrgang skulu rekstraraðilar flokka þannig að hámarka megi undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu og aðra endurnýtingu, í þessari forgangsröð.
Rekstraraðilum er skylt að flokka byggingar- og niðurrifsúrgang í a.m.k.:
a) Spilliefni
b) Timbur
c) Steinefni
d) Gler
e) Málma
f) Plast
g) Gifs
Sérstök söfnun skal vera á lóð rekstraraðila fyrir þá flokka heimilisúrgangs sem til falla við starfsemina og tilgreindir eru í 1. mgr. reglugerðar þessarar.
Rekstraraðilar skulu semja við þjónustuaðila, sem skulu hafa staðfesta skráningu skv. reglugerð nr. 830/2022 um skráningarskyldan atvinnurekstur samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, eða starfsleyfi um söfnun og flutning heimilisúrgangs, og skulu rekstraraðilar leggja fram staðfestingu þess efnis óski sveitarfélagið eða heilbrigðisnefnd þess. Tryggt skal að fjöldi íláta sé í samræmi við flokkun sem nauðsynleg er og að ílátin rúmi þann úrgang sem fellur til við viðkomandi rekstur milli tæminga eða hirðuumferða. Telji Mosfellsbær meðhöndlun heimilisúrgangs hjá rekstraraðila ekki samræmast lögum, reglugerðum eða samþykkt þessari er Mosfellsbæ heimilt að ákveða fjölda íláta og flokkun hvað þann rekstraraðila varðar. Fari rekstraraðili ekki að fyrirmælum eða ákvæðum samþykktar þessarar er heilbrigðisnefnd heimilt að beita þvingunarúrræðum skv. 66. gr. laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003, m.a. að láta vinna verk á kostnað viðkomandi rekstraraðila.
Þjónustuaðilar sem sinna söfnun úrgangs í sveitarfélaginu skulu skila Umhverfisstofnun skýrslu um tegund, magn, uppruna og ráðstöfun úrgangs, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003.
Rekstraraðilar skulu koma í veg fyrir að rekstrarúrgangur safnist fyrir á þeirri lóð sem rekstur fer fram á. Aðstaða rekstraraðila til flokkunar og meðhöndlunar úrgangs, skal vera nægilega rúmgóð til að rúma flokkunarílát og úrgang sem fellur til við starfsemina milli tæminga eða hirðuumferða. Rekstraraðila er óheimilt að geyma rekstrarúrgang utan þeirrar lóðar sem rekstur fer fram á. Óheimilt er að geyma úrgang innan lóðar þannig að valdið geti ónæði, skaða eða lýti á umhverfi.
Rekstraraðilar í Mosfellsbæ skulu skila öllum úrgangi til þjónustuaðila sem skal hafa staðfesta skráningu skv. reglugerð nr. 830/2022 um skráningarskyldan atvinnurekstur samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir eða á móttökustöð fyrir úrgang sem er með gilt starfsleyfi. Rekstraraðilum er heimilt að nýta endurvinnslustöðvar til skila á rekstrarúrgangi en skulu greiða fyrir móttöku úrgangs skv. gjaldskrá þjónustuaðila eða móttökustöðvar. Rekstraraðilum er óheimilt að nýta grenndarstöðvar eða ruslabiður sem Mosfellsbær rekur til afsetningar á úrgangi.
Mengaðan jarðveg skal færa til viðeigandi meðhöndlunar, sbr. reglugerð nr. 1400/2020 um mengaðan jarðveg.
Um smitandi úrgang fer skv. 12. og 13. gr. reglugerðar nr. 803/2023 um meðhöndlun úrgangs og I. viðauka við hana.
9. gr. Geymslur og gerði fyrir söfnun úrgangs
Íbúar skulu ganga þannig frá ílátum, geymslum og gerðum að þau valdi ekki óþrifum eða óþægindum. Halda skal geymslum og gerðum við eftir þörfum og þau hreinsuð reglulega. Þau má eingöngu nota til geymslu úrgangs.
Við hönnun á nýjum geymslum og gerðum og breytingar á eldri geymslum og gerðum skal rými fyrir ílát miðast við viðeigandi flokkun og áætlað úrgangsmagn sem til fellur í húsnæðinu og að aðgengi sé gott til losunar íláta.
Sorpílát skulu vera á jarðhæð og standa sem næst aðkomu að lóð þegar losun fer fram eða ekki lengra en 15 m frá lóðarmörkum þar sem því verður komið við. Af ílátum undir úrgang við íbúðarhús sem draga þarf lengra en 15 m að hirðubíl til losunar er heimilt að innheimta viðbótarlosunargjald samkvæmt gjaldskrá fyrir meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu. Þar sem fleiri en eitt ílát eru við hús skulu ílát sem ætluð eru sama úrgangsflokki geymd á einum stað en ekki dreift um lóð.
Óheimilt er að staðsetja ílát undir úrgang sem eru þyngri en 40 kg með úrgangi þannig að fara þurfi með þau um tröppur eða mikinn hæðarmun á lóð. Þar sem fara þarf með ílát um tröppur skulu vera á tröppum rampar sem draga má ílátin eftir. Gangbraut milli rampa skal vera u.þ.b. 35 sm breið og breidd hvers ramps minnst 20 sm.
Halda skal leið að ílátum fyrir úrgang greiðfærri og hreinsa burt snjó á vetrum. Þegar hundur er tjóðraður á lóð eða laus á lóð innan hundheldrar girðingar skal tryggja að komast megi óhindrað að ílátum til losunar. Aðkomuleiðir að ílátum undir úrgang skulu, eftir því sem kostur er, vera upplýstar og upphitaðar svo ekki skapist hætta fyrir starfsfólk við losun ílátanna. Sveitarfélaginu er heimilt að hafna losun íláta telji það aðstæður skapa hættu fyrir starfsfólk sorphirðu og aðgengi eða frágang sorpgeymslu eða -gerðis ófullnægjandi.
Séu sorpgeymslur eða -gerði læst skal notast við lyklakerfi sveitarfélagsins. Þar sem fara þarf um lokuð hlið eða dyr getur sveitarfélagið farið fram á að til staðar sé búnaður, t.d. krækjur, til að halda dyrum og hliðum opnum á meðan losun fer fram.
Að öðru leyti er vísað til ákvæða byggingarreglugerðar, nr. 112/2012, og reglugerðar um meðhöndlun úrgangs, nr. 803/2023.
10. gr. Gámar – Djúpgámar og gámar á yfirborði
Með gámum er átt við bæði djúpgáma og gáma á yfirborði. Með djúpgámum er átt við niðurgrafna gáma sem losaðir eru með krana. Með gámum á yfirborði er átt við ílát sem eru stærri en svo að ekki er hægt að færa þau að söfnunarbíl með handafli. Hífa eða lyfta þarf gámum upp með vélarafli til að tæma þá í söfnunarbíl.
Gámar skulu uppfylla ákvæði staðalsins IST EN 13071. Afla skal samþykkis sveitarfélagsins við val á gámum, fjölda þeirra, stærð og staðsetningu.
Kaup á gámum, framkvæmdir við gerð og frágang í kringum þá, hvort sem er kassi, gámur, lúga eða annar tengdur búnaður, greiðist af og er á ábyrgð fasteignareiganda. Gámar skulu rúma það magn úrgangs sem til fellur frá viðkomandi fasteign, miðað við hirðutíðni. Við ákvörðun á fjölda gáma skal minnst gera ráð fyrir þeim fjórum úrgangsflokkum sem safna skal við heimili. Taka skal tillit til þyngdar viðkomandi úrgangsflokks við val á stærð og staðsetningu gáma.
Gámar skulu vera staðsettir á lóð en ekki á bæjarlandi. Mosfellsbær getur heimilað fasteignareigendum aðliggjandi lóða að vera með sameiginlega gáma sem staðsettir eru á lóð eða lóðum sem tilheyra fasteignunum. Sameiginlegir gámar eru háðir samþykki byggingarfulltrúa. Ef söfnun úrgangs er sameiginleg fyrir tvær eða fleiri aðliggjandi lóðir og færð af lóð mannvirkis skal öll söfnun úrgangs færast af viðkomandi lóðum.
Staðsetning gámanna skal vera þannig að losun þeirra hindri ekki aðra umferð og að öryggi vegfarenda sé tryggt. Fasteignareigandi ber ábyrgð á rekstri gáma og umráðmaður lóðar ber ábyrgð á hreinsun og umgengni um lóðina og nánasta umhverfi hennar, eins og um annars konar sorpgeymslur sé að ræða. Heilbrigðisnefnd hefur eftirlit með almennum þrifnaði og hreinlæti utanhúss og hlutast til um að fram fari eftir þörfum almenn hreinsun lóða og lendna í þrifnaðarskyni, sbr. 14. gr. reglugerðar nr. 803/2023 um meðhöndlun úrgangs.
Staðsetning og frágangur gáma skal vera í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir fyrir viðkomandi svæði og hönnunarviðmið/leiðbeiningar Mosfellsbæjar um slíkar úrgangslausnir. Miða skal við ákvæði byggingarreglugerðar við ákvörðun um fjarlægð gáma frá inngangi fasteignar.
Að öðru leyti gildir 4. gr. samþykktar þessarar eftir því sem við á.
11. gr. Heimild til aukinnar söfnunar
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 3. gr. er Mosfellsbæ heimilt að veita öðrum aðilum leyfi til aukinnar söfnunar á flokkuðum heimilisúrgangi frá íbúðarhúsum í sveitarfélaginu. Skilyrði er að þjónusta sem veitt er sé meiri en þjónusta sem sveitarfélagið veitir, þ.e. nái til söfnunar á öðrum úrgangsflokkum. Í leyfi skal kveðið á um nánari skilyrði, m.a. uppsagnarákvæði þjónustunnar gagnvart þjónustuþegum. Leyfishafi skal vera með eftir atvikum staðfesta skráningu skv. reglugerð nr. 830/2022 eða starfsleyfi. Úrganginum skal skilað til móttökustöðvar með gilt starfsleyfi skv. lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Leyfishafi skal gefa sveitarfélaginu skýrslu um magn úrgangs og flokkun hans, fjölda heimila, fjölda íláta, tíðni losunar og meðferð úrgangsins og aðrar þær upplýsingar sem óskað er eftir. Leyfishafi skal veita gögn til staðfestingar á meðhöndlun úrgangsins, sé þess óskað. Leyfishafi skal veita upplýsingar að eigin frumkvæði fyrir 1. mars ár hvert. Sinni leyfishafi ekki þeim skyldum sem á hann eru lagðar er sveitarfélaginu heimilt að fella leyfið úr gildi að undangenginni viðvörun.
Mosfellsbæ er heimilt að veita félögum sem eru ekki rekin í hagnaðarskyni, leyfi til söfnunar á flokkuðum heimilisúrgangi í sveitarfélaginu. Skilyrði er að úrgangurinn nýtist til undirbúnings fyrir endurnotkun að hluta eða öllu leyti. Í leyfi skal kveðið á um nánari skilyrði, m.a. uppsagnarákvæði. Leyfishafi skal vera með eftir atvikum staðfesta skráningu skv. reglugerð nr. 830/2022 eða starfsleyfi. Leyfishafi skal gefa sveitarfélaginu skýrslu um magn úrgangs og flokkun hans, fjölda og staðsetningu íláta, meðhöndlun úrgangsins og aðrar þær upplýsingar sem óskað er eftir. Leyfishafi skal veita gögn til staðfestingar á meðhöndlun úrgangsins, sé þess óskað. Leyfishafi skal veita upplýsingar að eigin frumkvæði fyrir 1. mars ár hvert. Sinni leyfishafi ekki þeim skyldum sem á hann eru lagðar er sveitarfélaginu heimilt að fella leyfið úr gildi að undangenginni viðvörun.
12. gr. Úrgangur á almannafæri
Óheimilt er að skilja úrgang eftir á víðavangi, götum, gangstéttum eða opnum svæðum. Sama á við um númerslausa bíla, bílflök og sambærilega hluti. Heilbrigðisnefnd er heimilt að fjarlægja tæki, hluti eða ökutæki og bera eigendur þeirra allan kostnað af þeirri framkvæmd, sbr. ákvæði 14. gr. reglugerðar um meðhöndlun úrgangs nr. 803/2023.
13. gr. Fræðsla og kynningar
Mosfellsbær hefur sjálfur, eða í samstarfi við önnur sveitarfélög eða með sameiginlegum þjónustusamningum, umsjón með fræðslu og kynningu um úrgangsmeðhöndlun og úrgangsforvarnir. Setja skal fram upplýsingar um söfnun og aðra úrgangsstjórnun í sveitarfélaginu svo að almenningur, rekstraraðilar og aðrir handhafar úrgangs þekki skyldur sínar, t.d. um losunartíðni íláta við heimili og staðsetningar grenndar-, endurvinnslu- og móttökustöðva.
14. gr. Úrgangsforvarnir
Úrgangsstjórnun í sveitarfélaginu og flokkun úrgangs skal hvetja til úrgangsforvarna. Gjöld skulu miða við magn úrgangs, rúmmál eða þyngd, svo íbúar og rekstraraðilar borgi í samræmi við það sem hent er. Rekstraraðilar skulu vinna að úrgangsforvörnum.
Í fræðslu- og kynningarefni á vegum sveitarfélagsins skal lögð áhersla á úrgangsforvarnir. Mosfellsbær skal í samstarfi við önnur sveitarfélög, eða með sameiginlegum þjónustusamningi, vinna að því að skapa markað fyrir endurnotkun.
15. gr. Gjaldtaka
Mosfellsbær innheimtir gjald fyrir meðhöndlun úrgangs í samræmi við ákvæði 23. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs.
Gjald skal ákvarðað og innheimt samkvæmt gjaldskrá sem bæjarstjórn Mosfellsbæjar setur í samræmi við ákvæði 23. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, sbr. og 59. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Mosfellsbær skal láta birta gjaldskrána í B-deild Stjórnartíðinda. Gjald fyrir söfnun á heimilisúrgangi og rekstur grenndar- og endurvinnslustöðva innheimtist með fasteignagjöldum á sömu gjalddögum.
Gjald fyrir heimilisúrgang skal miðast við fjölda og stærð íláta og tegund úrgangs. Einnig er heimilt að miða gjaldið við vegalengd sem draga þarf ílát við losun. Sé þessu breytt breytist gjaldið miðað við hluta úr ári reiknað í vikum. Mosfellsbær annast skráningu íláta og skiptingu gjalds á eigendur.
Gjald fyrir rekstur grenndar- og endurvinnslustöðva er lagt á allt íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu en atvinnuhúsnæði skal undanskilið þessu gjaldi.
Mosfellsbær, í samstarfi við önnur sveitarfélög eða með þjónustusamningum, gefur út gjaldskrá fyrir móttöku úrgangs á endurvinnslu- og móttökustöðvum.
Gjöld samkvæmt gjaldskrá eru tryggð með lögveðsrétti í viðkomandi fasteign í tvö ár eftir gjalddaga, sbr. 5. mgr. 59. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.
Hirðugjald er ekki endurgreitt falli hirða niður af ástæðum sem tilgreindar eru í 9. mgr. 4. gr. samþykktarinnar. Þá verður hirðugjald ekki endurgreitt verði tafir á hirðu vegna t.d. ófærðar eða bilana.
Rekstraraðilar skulu greiða fyrir losun og aðra meðhöndlun á öllum gjaldskyldum úrgangi samkvæmt gjaldskrá endurvinnslustöðva og/eða móttökustöðva.
16. gr. Kvartanir, ábendingar og kærur
Hafi íbúi eða rekstraraðili fram að færa ábendingu eða kvörtun vegna meðhöndlunar úrgangs, skal henni komið á framfæri við sveitarfélagið eða aðila með þjónustusamning, eftir því sem við á.
Heimilt er að kæra stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli samþykktar þessarar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 67. gr. laga um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, og 65. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.
17. gr. Viðurlög
Með brot á samþykkt þessari skal farið samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. einnig XIII. kafla laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.
Um sektir og önnur viðurlög vegna óheimillar losunar úrgangs fer skv. XIX. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, XIII. kafla laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og lögreglusamþykkt Mosfellsbæjar nr. 956/2017.
18. gr. Gildistaka
Samþykkt þessi er sett af sveitarstjórn Mosfellsbæjar samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, sbr. 59. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, og staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi samþykkt nr. 589/1998, um sorphirðu og hreinsun opinna svæða í Mosfellsbæ.
Mosfellsbær, 16. desember 2024.