Í tilefni af að 100 ár eru liðin frá fæðingu Halldórs Laxness hefur bæjarstjórn Mosfellsbæjar ákveðið að koma á fót Laxnesssetri í Mosfellsbæ og gildir um það eftirfarandi samþykkt.
1. gr.
Meginmarkmið og tilgangur setursins er að:
- Halda á lofti minningu Halldórs Laxness með safni og sýningu sem tengd er ævi hans og verkum.
- Vera fræðasetur, tileinkað Halldóri Laxness, þar sem byggð yrði upp sérþekking á öllu því sem viðkemur skáldinu
- Minna á að Mosfellsbær var heimabyggð Halldórs Laxness og tengja það við sögu sveitarinnar
- Vera lifandi staður og koma á framfæri upplýsingum til gesta setursins
- Styrkja tengsl Mosfellinga við heimabyggð sína
- Efla menningartengda ferðaþjónustu í Mosfellsbæ
- Vera vettvangur fyrir fundi, ráðstefnur og margvíslega viðburði.
2. gr.
Málefni Laxnessseturs er í höndum stjórnar sem skipuð er þremur fulltrúum og þremur til vara kosnum af bæjarstjórn og einum fulltrúa, tilnefndum af fjölskyldu Halldórs Laxness. Bæjarstjórn kýs formann og varaformann. Kjörtímabil hennar er það sama og bæjarstjórnar. Stjórnin skal halda gerðabók og skulu fundargerðir hennar sendar bæjarstjórn.
3. gr.
Stjórnin fer með málefni Laxnessseturs, setur stofnuninni markmið og gerir áætlun um meginþætti starfseminnar ásamt kostnaðarmati ár hvert. Stjórnin gerir árlega fjárhags- og starfsáætlun. Skal hún lögð fyrir bæjarstjórn Mosfellsbæjar til samþykktar.
4. gr.
Stjórnin ræður forstöðumann og skilgreinir verksvið hans. Forstöðumaður situr fundi stjórnarinnar með málfrelsi og tillögurétt. Hann undirbýr fundi í samstarfi við formann og framkvæmir ákvarðanir stjórnarinnar.
Mosfellsbæ 10. apríl 2002.
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar.