Reglur um kjör á íþróttafólki Mosfellsbæjar.
1. gr. Hæfi
Íþrótta- og tómstundanefnd Mosfellsbæjar (ÍTM) skal í lok hvers árs gangast fyrir útnefningu á Íþróttafólki Mosfellsbæjar í karla og kvennaflokki og skulu þau valin úr hópi einstaklinga 16 ára og eldri sem eiga lögheimili í Mosfellsbæ.
2. gr. Tilnefning og kjör
Íþróttafólk Mosfellsbæjar skal koma úr röðum starfandi íþróttafélaga, deilda íþróttafélaga innan Mosfellsbæjar eða frá félögum utan Mosfellsbæjar. Íþróttafélagið skal vera innan vébanda Íþróttasambands Íslands (ÍSÍ). Íþróttafélög skila inn rökstuddum tilnefningum til ÍTM fyrir 30. nóvember ár hvert. Félögum er heimilt að tilnefna einn keppanda í karlaflokki og einn úr kvennaflokki,16 ára og eldri, fyrir hverja grein sem stunduð er hjá viðkomandi íþróttafélagi. ÍTM er jafnframt heimilt að tilnefna íþróttafólk ef ástæða þykir til
ÍTM sér um undirbúning á kjöri Íþróttafólks Mosfellsbæjar og skal kalla eftir tilnefningum frá stjórnum íþróttafélaga í Mosfellsbæ.
Aðal- og varamönnum ÍTM og íþróttafulltrúa Mosfellsbæjar er heimilt að tilnefna til kjörs á íþróttafólki aðra en þá sem íþróttafélögin hafa tilnefnt.
Komi útnefning frá tveimur félögum í sömu íþróttagrein er ÍTM heimilt að leita til viðkomandi sérsambands innan ÍSÍ um álit.
Öllum tilnefningu skal fylgja greinargerð um íþróttaleg afrek og annað það sem gerir viðkomandi að framúrskarandi íþróttamanneskju.
Kjörið fer þannig fram að aðalmenn í ÍTM velja 10 úr karlaflokki og 10 úr kvennaflokki úr innsendum tilnefningum sem kosið er á milli með tvennum hætti. Annars vegar fer fram rafræn íbúakosning milli fyrrnefnds íþróttafólks sem gildir 40% á móti kjöri aðalfulltrúa ÍTM skv. sérstakri vinnureglu þar að lútandi. Standi tvennt efst og jafnt að kjöri loknu, kjósa aðalfulltrúar ÍTM milli þeirra tveggja að nýju. Niðurstaða kjörsins er síðan kunngjörð í janúar ár hvert.
Tilnefningar eru allar birtar á vef Mosfellsbæjar.
Íbúum Mosfellsbæjar gefst kostur á að velja Íþróttafólk Mosfellsbæjar með rafrænni kosningu á vef bæjarins.
Aðal- og varamenn ÍTM fara yfir tilnefningar og velja Íþróttafólk Mosfellsbæjar með hliðsjón af innsendum greinargerðum.
3. gr. Verðlaun og viðurkenningar
Afhending sæmdarheitisins Íþróttafólks ársins í Mosfellsbæ skal fara fram með viðhöfn í upphafi árs. Veita skal farandbikar og eignarbikar til Íþróttafólks ársins.
Við sama tækifæri skal veita heiðursviðurkenningar til
- Sjálfboðaliða ársins
- Þjálfara ársins
- Liðs ársins
Reglur þessar eru settar samkvæmt samþykkt bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 816. fundi þann 23.11.2022.