Samþykkt um kattahald í Mosfellsbæ.
1. gr.
Samþykkt þessi er gerð til að stuðla að því að eigendur og umráðamenn katta fari vel með ketti og tryggi þeim góða vist og sjái jafnframt til þess að þeir séu ekki á flækingi og af þeim stafi ekki ónæði og óþrifnaður.
2. gr.
Ef köttur veldur nágrönnum eða öðrum ónæði, óþrifum eða tjóni, þá ber eiganda eða forráðamanni að leita leiða til að koma í veg fyrir slíkt. Kattaeigendur eru ábyrgir fyrir því tjóni sem kettir þeirra sannanlega valda. Foreldrar eru ábyrgir fyrir köttum ólögráða barna sinna.
3. gr.
Alla ketti skal merkja með ól um hálsinn, eða á annan sambærilegan hátt, þar sem fram koma upplýsingar um eiganda, heimilisfang og símanúmer.
4. gr.
Eigendum og forráðamönnum katta ber að taka tillit til fuglalífs á varptíma, með því að hengja bjöllu á ketti og takmarka útiveru katta.
5. gr.
Ketti skal ormahreinsa reglulega, þ.e.a.s. einu sinni á ári eða oftar eftir þörfum. Eigendur katta skulu halda til haga vottorðum um reglulega ormahreinsun katta. Hvatt er til reglulegra bólusetninga katta gegn helstu smitsjúkdómum þeirra.
6. gr.
Ef köttur hverfur frá heimili sínu skal eigandi eða umráðamaður gera ráðstafanir til að finna köttinn. Heilbrigðisnefnd, heilbrigðisfulltrúi eða aðili sem hefur sérstakt umboð þeirra getur handsamað ketti. Hafi kattarins ekki verið vitjað innan einnar viku skal honum ráðstafað til nýs ábyrgs eiganda eða hann aflífaður. Allur kostnaður greiðist af eiganda.
7. gr.
Bæjarstjórn skal gera ráðstafanir til útrýmingar á villiköttum. Slíkar aðgerðir skulu auglýstar á áberandi hátt með a.m.k. einnar viku fyrirvara.
8. gr.
Eigendur katta skulu sæta skriflegri áminningu fyrir brot á samþykkt þessari. Bæjar-stjórn er heimilt að banna eða takmarka rétt viðkomandi til að halda kött ef fyrir liggja skriflegar áminningar um ónæði eða hættu sem kötturinn er sannanlega valdur að.
9. gr.
Mosfellsbær annast eftirlit með kattahaldi, samkvæmt samþykkt þessari, undir yfirstjórn Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis. Leita má aðstoðar lögregluyfirvalda ef þörf krefur.
10. gr.
Samþykkt þessi, sem bæjarstjórn Mosfellsbæjar samþykkti á fundi sínum 26. júní 1996. staðfestist hér með samkvæmt 18. gr. laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit nr. 81/1988 til þess að öðlast gildi við birtingu.
Nr. 146/1997