Reglur um innritun og dvöl barna í leikskólum Mosfellsbæjar.
1. gr.
Sótt er um leikskólavist á vala.is og gildir umsóknin fyrir alla leikskóla Mosfellsbæjar þar sem bærinn er eitt leikskólasvæði. Hvaða árgangar eru í einstökum leikskólum getur breyst milli ára þar sem stærðir árganga hefur áhrif á heildar samsetningu hvers leikskóla. Því gæti komið til færsla barna milli leikskóla vegna aldurs samsetningar.
2. gr.
Skilyrði fyrir leikskólaplássi er að foreldri og barn eigi lögheimili í Mosfellsbæ en hægt er að sækja um leikskólapláss ef lögheimili er væntanlegt þó úthlutun og upphaf leikskólavistar eigi sér ekki stað fyrr en lögheimili er komið.
3. gr.
Innritun í leikskóla fer fram samkvæmt 4. grein og skiptist í þrjú þrep.
- Fyrsta þrep (aðalinnritun) fer fram í mars og apríl ár hvert og eru þá umsóknir teknar sem borist hafa fyrir 1. mars það ár og aðlögun að öllu jöfnu í ágúst til september sama ár.
- Annað þrep nær yfir þær umsóknir sem berast eftir 1. mars og eftir að aðalinnritun líkur (fyrsta þrep) og eru þær teknar fyrir frá maí til ágúst.
- Þriðja þrep tekur við fram að næstu aðalinnritun. Innritað er þá eftir því sem pláss losna og samkvæmt 4. grein eins og áður segir.
4. gr.
Innritun í leikskóla fer fram á eftirfarandi hátt:
- Nývistun í leikskóla er boðin eftir aldursröð innan árgangs, þau elstu fá úthlutað fyrst en hafa ber í huga að þá er ekki átt við í einstaka skóla heldur almennt í leikskóla í Mosfellsbæ. Stefnt er að því að börn sem eru orðin 12 mánaða 1. ágúst ár hvert eiga kost á leikskóladvöl þegar starfsárið hefst 1. september.
- Börn með fötlun eða alvarleg þroska frávik eru í forgangi.
- Starfsfólk leikskóla getur sótt um forgang ef umsögn leikskólastjóra liggur fyrir. Láti starfsmaður af störfum áður en komið er að hefðbundinni innritun barns skv. 4. gr. fellur leikskólavist niður.
5. gr.
Hægt er að óska eftir forgangi að leikskólaplássi ef barnaverndarsjónarmið mæla með því. Afgreiðsla um forgang að leikskólaplássi, umfram 6. gr. eru unnar í samráði við starfsmenn barnaverndarnefndar.
6. gr.
Við upphaf vistunar barns er gerður dvalarsamningur við foreldra barnsins um vistunartíma. Samþykkt foreldra í Völu leikskóla á leikskólavist og breytingum á henni jafngilda samningi sem báðir aðilar eru bundnir að.
7. gr.
Afgreiðsla beiðna um flutning milli leikskóla.
Óski foreldrar eftir flutningi barns milli leikskóla sækja þeir um það í Völu. Unnið er með slíkar beiðnir á sama tíma og nývistun samkvæmt þrepi 1. Aldur barna hefur ekki áhrif hvort hægt er að verða við flutningi heldur hvort pláss séu laus. Að sama skapi er lagt faglegt mat á stöðu í viðkomandi leikskólum. Óskir um flutning njóta ekki forgangs þar sem barnið er nú þegar með úthlutaða leikskólavist í Mosfellsbæ.
8. gr.
Almennur uppsagnarfrestur er einn mánuður.
Samþykkt á 853. fundi bæjarstjórnar 19. júní 2024