I. kafli – Almenn ákvæði
1. gr. Tilgangur
Tilgangur með reglum þessum er að stuðla að vönduðum, hagkvæmum og vistvænum innkaupum og tryggja gæði vöru, þjónustu og verka sem Mosfellsbær kaupir.
Reglum þessum er ætlað að vera lögum um opinber innkaup nr. 120/2016 (hér eftir lög um opinber innkaup eða lögin) og öðrum lögum sem um innkaup Mosfellsbæjar gilda til fyllingar og útfæra nánar framkvæmd innkaupa hjá sveitarfélaginu.
2. gr. Gildissvið
Reglur þessar gilda fyrir Mosfellsbæ og allar stofnanir og deildir sem reknar eru af sveitarfélaginu sbr. ákvæði í lögum um opinber innkaup. Reglurnar taka ekki til fyrirtækja í eigu sveitarfélagsins, samtaka eða samlaga sem sveitarfélagið á aðild að með öðrum sveitarfélögum, þó að lög um opinber innkaup geti gilt um þau, sbr. 3. gr. laganna.
Reglurnar taka til allra innkaupa sveitarfélagsins. Við innkaup skal enn fremur fylgt lögum um opinber innkaup og lögum um framkvæmd útboða nr. 65/1993, sem og öðrum lögum og reglugerðum sem gilda um innkaup sveitarfélaga.
3. gr. Samningar sem innkaupareglurnar taka til
Innkaupareglur þessar taka til samninga um fjárhagslegt endurgjald sem sveitarfélagið gerir við einn eða fleiri utanaðkomandi aðila og hafa að markmiði framkvæmd verks, sölu vara eða veitingu þjónustu í skilningi laga um opinber innkaup.
4. gr. Samningar undanþegnir ákvæðum innkaupareglnanna
Innkaupareglur þessar taka ekki til samninga sem undanþegnir eru ákvæðum laga um opinber innkaup, s.s.:
- Þjónustusamninga er varða atriði sem tilgreind eru í 11. gr. laga um opinber innkaup. Meðal þeirra eru vinnusamningar, lánssamningar, samningar um kaup eða leigu á jörðum eða fasteignum, tiltekin fjármála- og lögfræðiþjónusta, almannavarnir og tiltekin forvarnaþjónusta, tilteknar rannsóknir og þróun á þjónustu, sbr. nánar ákvæði 11. gr. laganna.
- Samninga aðila sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu, sbr. 9. gr. laga um opinber innkaup. Um slíka samninga gildir reglugerð nr. 340/207 um innkaup aðila sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu.
- Samninga sem gerðir eru á grundvelli einkaréttar eða sérleyfis, skv. 12. gr. laganna.
- Samninga milli opinberra aðila á grundvelli 13. gr. laganna.
- Þjónustusamninga sem í raun eru styrktarsamningar.
Um opinbera samninga um félagsþjónustu og aðra sértæka þjónustu fer skv. 92. gr. laga um opinber innkaup, sbr. reglugerð nr. 1000/2016 um innkaup sem falla undir félagsþjónustu og aðra sértæka þjónustu samkvæmt lögum um opinber innkaup.
Að öðru leyti vísast til laga um opinber innkaup.
5. gr. Meginreglur við innkaup
Gæta skal jafnræðis, meðalhófs og gagnsæis við innkaup. Óheimilt er að mismuna aðilum á grundvelli þjóðernis eða takmarka samkeppni með óeðlilegum hætti. Viðeigandi ráðstafanir skulu gerðar til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra í innkaupaferli til að tryggja jafnræði.
Það telst ekki andstætt jafnræði að áskilja að vara sé afhent, þjónusta veitt eða verk unnið á tilteknum stað, enda byggist slíkur áskilnaður á málefnalegum ástæðum.
II. kafli – Ábyrgð, umsjón og eftirfylgni með innkaupum
6. gr. Ábyrgð á innkaupum
Bæjarráð Mosfellsbæjar ber ábyrgð á innkaupum sveitarfélagsins. Bera skal ákvarðanir um val tilboða í kjölfar útboðs undir bæjarráð til samþykktar eða synjunar. Framkvæmdastjórar sviða bera ábyrgð á að innkaup sviða séu í samræmi við innkaupareglur og fjárhagsáætlun sveitarfélagsins. Ábyrgðin nær til innkaupa stofnana sem undir hvern framkvæmdastjóra heyra. Forstöðumenn stofnana bera ábyrgð á innkaupum sinna stofnana í umboði framkvæmdastjóra. Þjónustu- og samskiptadeild ber ábyrgð á innkaupum sem heyra undir fleiri en eitt svið.
7. gr. Umsjón með innkaupum
Bæjarstjóri er prókúruhafi sveitarfélagsins, sbr. 4. mgr. 55. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Bæjarstjóri hefur veitt framkvæmdastjórum einstakra sviða prókúru.
Framkvæmdastjórum er heimilt að stofna til útgjalda fyrir hönd sveitarfélagsins innan ramma fjárhagsáætlunar hverju sinni og bera þeir ábyrgð á innkaupum sinna stofnana og deilda. Framkvæmdastjórar geta veitt einstökum starfsmönnum heimild til að stofna til útgjalda. Öllum sem heimild hafa til að stofna til útgjalda ber að staðfesta að þeir hafi kynnt sér efni innkaupareglna sveitarfélagsins og að þeir muni fylgja þeim við innkaup. Sveitarfélagið heldur skrá yfir þá starfsmenn sem hafa heimild til að stofna til útgjalda og ber fjármálastjóri ábyrgð á að viðhalda skránni.
Umhverfissvið sér um útboð og samninga á verklegum framkvæmdum sveitarfélagsins.
Þjónustu- og samskiptadeild sér um og hefur frumkvæði að því að samræma innkaup sveitarfélagsins þegar um er að ræða vöru eða þjónustu sem stofnanir sveitarfélagsins hafa almenn not fyrir.
8. gr. Stuðningur, eftirfylgni og samræming innkaupa
Framkvæmdastjórar einstakra sviða skulu fylgjast með innkaupum, hver á sínu sviði og vera öðrum starfsmönnum til aðstoðar við innkaup og framfylgd innkaupareglna. Þeir skulu stuðla að og fylgjast með samræmingu innkaupa innan sinna sviða. Framkvæmdastjórar skulu leitast við að samræma innkaup milli allra sviða og stofnana sveitarfélagsins og fylgjast með því að upplýsingar séu tiltækar um innkaup, m.a. svo hægt sé að fylgja skilgreindum mælikvörðum.
Fjármálastjóri sér um að tiltækar séu upplýsingar um heildarinnkaup, m.a. í samræmi við skilgreinda mælikvarða, og að þær berist viðkomandi framkvæmdastjórum, forstöðumönnum stofnana og öðrum eftir atvikum.
Lögmaður Mosfellsbæjar veitir lögfræðilega ráðgjöf um efni innkaupareglna og framkvæmd útboða.
III. kafli – Undirbúningur innkaupa
9. gr. Mat á þörf fyrir innkaup
Áður en ákvörðun er tekin um innkaup, útboð undirbúið eða samið um framkvæmd verks, kaup á vöru eða veitingu þjónustu, skal greina þörfina fyrir innkaup. Mikilvægt er að það sé gert í samráði við væntanlega notendur og jafnframt íhugað hvort þörfin verði uppfyllt eftir öðrum leiðum, s.s. með breyttu vinnulagi, endurnýtingu, þjónustu eða á annan hátt.
10. gr. Skilgreining innkaupa og upplýsingagjöf
Skilgreina skal vel það sem á að kaupa. Þar sem seljendum er gefið svigrúm til að útvega vöru eða þjónustu, eða til að framkvæma verk, skulu þarfir sveitarfélagsins skilgreindar nákvæmlega og þau skilyrði sem vara, verk eða þjónusta á að uppfylla. Setja skal fram forsendur um gæði, umhverfisáhrif og vistferilskostnað eins og kostur er.
Við innkaup skal enn fremur tilgreina hver pantar, hvaða svið eða stofnun viðkomandi vara eða þjónusta tilheyrir og önnur þau atriði sem máli skipta.
11. gr. Val á aðferð við innkaup
Við innkaup skal ávallt kanna fyrst hvort mögulegt sé að kaupa inn á grundvelli rammasamnings, sbr. 40. gr. laganna. Almennt er óheimilt að nýta aðrar innkaupaaðferðir ef innkaup á grundvelli rammasamnings eru möguleg nema heimild til annars sé í rammasamningi og málefnaleg rök réttlæti innkaup með öðrum aðferðum.
Áður en ákvörðun er tekin um aðrar innkaupaaðferðir og samið um framkvæmd verks, kaup á vöru eða veitingu þjónustu, skal lagt mat á hvaða aðferð henti við innkaupin, með tilliti til eðlis og umfangs þeirra, sbr. einnig önnur ákvæði reglna þessara.
Við innkaup samkvæmt reglum þessum skal einkum nota eftirfarandi aðferðir ef rammasamningar eru ekki tiltækir:
- Verðfyrirspurn
- Almennt útboð
- Lokað útboð með forvali
Heimilt að viðhafa aðrar innkaupaaðferðir sem lýst er í IV. kafla laga um opinber innkaup sé það talið líklegra til árangurs og séu skilyrði laganna að öðru leyti uppfyllt.
12. gr. Viðmiðunarfjárhæðir
Þegar áætlað virði samnings fer yfir eftirfarandi fjárhæð er skylt að viðhafa útboð innanlands sbr. III. kafla laga um opinber innkaup:
- Vöru- og þjónustusamningar – 15.500.000 kr.
- Verksamningar – 49.000.000 kr.
Þegar áætlað virði samninga fer yfir eftirfarandi fjárhæð er skylt að viðhafa útboð á Evrópska efnahagssvæðinu:
- Vöru- og þjónustusamningar – 27.897.000 kr.
- Verksamningar – 697.439.000 kr.
Við innkaup undir framangreindum viðmiðunarfjárhæðum, en umfram 2.500.000 kr., skal við hafa verðfyrirspurn í samræmi við 14. gr.
Allar viðmiðunarfjárhæðir eru án virðisaukaskatts.
Viðmiðunarfjárhæðir um útboð bæði innanlands og á EES svæðinu fara eftir lögum um opinber innkaup. Uppfæra þarf innkaupareglurnar þegar viðmiðunarfjárhæðir laganna breytast. Sé misræmi milli innkaupareglna og laga um opinber innkaup gilda viðmiðunarfjárhæðir laganna.
13. gr. Útreikningur á virði samninga og skipting innkaupa
Við útreikning á áætluðu virði samnings skal fara eftir III. kafla laga um opinber innkaup. Almennt skal unnin kostnaðaráætlun þar sem áætluð er sú heildarfjárhæð sem sveitarfélagið mun greiða fyrir innkaup án virðisaukaskatts, að teknu tilliti til hvers konar valfrjálsra ákvæða og hugsanlegrar endurnýjunar samnings.
Mikilvægt er við útreikning að tekið sé tillit til áætlaðra heildarfjárhæðar innkaupa allra sviða, deilda eða stofnana sveitarfélagsins, nema þær beri sjálfstæða ábyrgð á innkaupum sínum eða tilteknum tegundum þeirra.
Útreikningur skal miðast við þann tíma þegar útboðsauglýsing er send til opinberrar birtingar eða þegar sveitarfélagið hefst handa við innkaupaferli við þær aðstæður að ekki er skylt að tilkynna opinberlega um innkaup.
Óheimilt er að gera ótímabundna samninga.
14. gr. Verðfyrirspurn
Verðfyrirspurnir felast í könnun á verði og öðrum skilmálum hjá mögulegum söluaðilum verks, vöru eða þjónustu. Heimilt er að framkvæma verðfyrirspurn með rafrænum aðferðum, svo sem með tölvupósti, skoðun á heimasíðu eða símtali. Leitast skal við að kanna verð og aðra skilmála hjá að lágmarki hjá þremur aðilum.
Við verðkönnun skal skrá með formlegum hætti lýsingu á því sem kaupa skal og þær kröfur sem umrædd verk, vara eða þjónusta skal uppfylla. Jafnframt skal skrá hjá hverjum verð er kannað og það verð og aðra skilmála sem í boði eru. Þá skal skrá niðurstöður verðkönnunarinnar, m.a. þann aðila sem varð fyrir valinu og ástæður þess sem og aðrar þær upplýsingar sem skiptu máli við innkaupin.
IV. kafli – Framkvæmd og eftirfylgni
15. gr. Kröfur um hæfi
Við framkvæmd útboða skal þess ávallt gætt að settar séu kröfur um hæfi þannig að tryggt verði eftir því sem unnt er að sá bjóðandi sem verði fyrir valinu geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart bænum. Kröfur þessar skulu einkum snúa að persónulegu-, fjárhagslegu og tæknilegu hæfi bjóðenda.
Við mat á því hvaða kröfur um hæfi skal gera hverju sinni skal hafa til hliðsjónar eðli, flækjustig og fjárhæð þess samnings sem um ræðir hverju sinni.
Hæfiskröfur skulu tilgreindar skýrlega í útboðsgögnum og tilgreint nákvæmlega hvaða gögnum bjóðendur skulu skila til þess að sýna fram á hæfi sitt. Mosfellsbæ er heimilt að áskilja sér rétt til að kalla einungis eftir gögnum frá þeim bjóðanda sem kemur til greina að semja við.
16. gr. Kröfur um persónulegt hæfi
Útiloka skal fyrirtæki frá þátttöku í útboði á vegum Mosfellsbæjar ef einhverjar af eftirfarandi aðstæðum eiga við um fyrirtæki:
- Fyrirtæki er í vanskilum með greiðslu opinberra gjalda, lífeyrissjóðsiðgjalda eða annarra lögákveðinna gjalda. Hafi bjóðandi uppfyllt skyldur sínar með því að greiða upp vanskil fyrir opnunardag tilboða á framangreindum gjöldum, eða gert samning um greiðslu þeirra, þ.m.t. vexti eða sektir, skal hann þó ekki útilokaður.
- Fyrirtæki er í eða óskað hefur verið eftir gjaldþrotaskiptum eða slitum á fyrirtæki, það hefur leitað heimildar til nauðasamninga eða greiðslustöðvunar eða er í annarri sambærilegri stöðu.
- Verulegir eða viðvarandi annmarkar hafa verið á framkvæmd fyrirtækis á efnislegum kröfum samkvæmt fyrri opinberum samningi við Mosfellsbæ eða aðra aðila sem hafa leitt til riftunar á samningi, kröfu um skaðabætur eða annarra svipaðra viðurlaga.
Áður en ráðist er í útboð skal einnig meta hvort rétt sé að útiloka fyrirtæki frá þátttöku í útboði ef önnur þau atriði sem tilgreind eru í 6. mgr. 68. gr. laganna eiga við.
Í útboðsgögnum skal tilgreina nákvæmlega þau gögn sem bjóðendur skulu skila til staðfestu á að þeir fullnægi kröfum um persónulegt hæfi. Í þessu skyni skal m.a. kalla eftir:
- Staðfestingu yfirvalda og lífeyrissjóða um að bjóðandi sé ekki í vanskilum.
- Búsforræðisvottorðum héraðsdómstóla.
- Öðrum gögnum eftir því sem við á og heimilt er samkvæmt 68. og 74. gr. laganna.
17. gr. Kröfur um fjárhagslega stöðu bjóðenda
Í útboðum á vegum Mosfellsbæjar skal gera kröfur um að fjárhagsstaða bjóðenda sé það trygg að þeir geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart Mosfellsbæ verði tilboð þeirra fyrir valinu.
Áður en ráðist er í útboð skal ávallt meta þörf á því hvaða kröfur til fjárhagslegrar stöðu bjóðenda skal gera og gætt skal að því að ekki séu settar strangari kröfur en nauðsynlegt er með hliðsjón af eðli og umfangi verks og að kröfurnar raski ekki jafnræði bjóðenda með ómálefnalegum hætti.
Í framangreindu skyni er meðal annars heimilt að gera eftirfarandi kröfur til bjóðenda eftir því sem við á hverju sinni:
- Að bjóðendur hafi tiltekna lágmarksveltu á ári. Þó skal ekki setja skilyrði um hærri lágmarksársveltu en nemur tvöföldu áætluð verðmæti samnings nema sérstök áhætta felist í innkaupum.
- Að bjóðendur hafi að lágmarki tiltekið hlutfall milli eigna og skulda, t.d. að lágmarki jákvætt eigið fé.
- Að bjóðendur hafi starfsábyrgðartryggingu eða setji aðra tryggingu eða ábyrgð til tryggingar efndum samnings.
- Aðrar málefnalegar kröfur eftir eðli og umfangi innkaupa.
Í útboðsgögnum skal tilgreina nákvæmlega þau gögn sem bjóðendur skulu skila til staðfestu á að þeir fullnægi kröfum um fjárhagslegt hæfi. Í þessu skyni skal m.a. kalla eftir:
- Ársreikningi, árshlutareikningi eða yfirlýsingu um veltu bjóðenda, að hámarki fyrir þrjú síðastliðin ár.
- Staðfestingu fjármálafyrirtækis um starfsábyrgðartryggingu eða aðra tryggingu eða ábyrgð sem gerð hefur verið krafa um.
- Vottorð vanskilaskrár.
- Önnur þau gögn sem nauðsynleg eru til að staðreyna kröfur um fjárhagslega stöðu bjóðenda.
Geti fyrirtæki, af gildri ástæðu, ekki lagt fram þau gögn sem kaupandi krefst getur það sýnt fram á efnahagslega og fjárhagslega stöðu sína með öðrum gögnum sem Mosfellsbær telur fullnægjandi.
18. gr. Kröfur um tæknilega og faglega getu
Í útboðum á vegum Mosfellsbæjar skal gera kröfur um að tæknileg og fagleg geta bjóðenda sé það trygg að þeir geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart Mosfellsbæ verði tilboð þeirra fyrir valinu.
Áður en ráðist er í útboð skal ávallt meta þörf á því hvaða kröfur til tæknilegrar og faglegrar getu bjóðenda skal gera og gætt skal að því að ekki séu settar strangari kröfur en nauðsynlegt er með hliðsjón af eðli og umfangi verks og að kröfurnar raski ekki jafnræði bjóðenda með ómálefnalegum hætti.
Í framangreindu skyni er meðal annars heimilt að gera eftirfarandi kröfur til bjóðenda, undirverktaka og starfsmanna þeirra, eftir því sem við á hverju sinni:
- Kröfur um tiltekna lágmarks reynslu af sambærilegum verkum, vörum eða þjónustu.
- Kröfur um tiltekna menntun og faglegt hæfi að því tilskildu að það sé ekki metið sem valforsenda.
- Kröfu um tiltekin lágmarks tæki, vélakost og tæknibúnað.
- Kröfur um gæðakerfi eða sambærileg ferli til að tryggja gæði.
- Kröfur um umhverfisstjórnunaraðgerðir sem bjóðandi getur beitt við framkvæmd samnings.
- Kröfur um árlegan meðalfjölda starfsmanna og fjölda manna í stjórnunarstöðum.
- Kröfur um hlutfall samnings sem bjóðandi mun hugsanlega fela undirverktaka.
- Kröfu um gæði vara og um afhendingu sýnishorna, lýsinga eða ljósmynda af vörum.
- Aðrar málefnalega kröfur sem heimilt er að gera lögum samkvæmt.
Í útboðsgögnum skal tilgreina nákvæmlega þau gögn sem bjóðendur skulu skila til staðfestu á að þeir fullnægi kröfum um tæknilega og faglega getu. Í þessu skyni skal m.a. kalla eftir:
- Að því er varðar verk, skrá yfir sambærileg verk sem hafa verið unnin á undanförnum fimm árum, ásamt vottorðum um fullnægjandi efndir og niðurstöðu, ef við á.
- Að því er varðar vöru og þjónstu, skrá yfir helstu vörusendingar eða þjónustu sem veitt hefur verið á þremur síðustu árum.
- Skrá yfir helstu starfsmenn og undirverktaka, og upplýsingar um menntun þeirra, fjölda og reynslu ef við á.
- Lista yfir tæki, vélakost og tækjabúnað og helstu eiginleika boðins búnaðar.
- Gögnum um gæðakerfi eða sambærileg ferli sem bjóðendur starfa eftir.
- Önnur þau gögn sem nauðsynleg eru til að staðreyna kröfur um tæknilega og faglega getu og heimilt er að kalla eftir skv. 72. gr. laganna og 2. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 955/2016.
Ekki skal gera aðrar kröfu um tæknilega og faglega getu en þær sem unnt er að staðreyna með þeim gögnum sem heimilt er að kalla eftir skv. 2. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 955/2016.
19. gr. Byggt á getu annarra
Hyggist bjóðandi í útboði á vegum Mosfellsbæjar byggja á fjárhagslegri, tæknilegri og faglegri getu annars fyrirtækis skal einnig kalla eftir gögnum um það fyrirtæki og sannreyna að það fullnægi öllum hæfiskröfum útboðsins. Jafnframt skal krefja bjóðanda um sönnun þess að það hafi tryggt sér tilgreinda aðstoð fyrirtækisins, t.d. með því að leggja fram skuldbindandi yfirlýsingu þess um að það muni annast verkið eða þjónustuna.
20. gr. Valforsendur
Ávallt skal tilgreina í útboðsgögnum þær forsendur sem ráða skulu vali tilboðs, þannig að skýrt komi fram hvort velja eigi tilboð á grundvelli lægsta verðs, minnsta kostnaðar eða besta hlutfalls milli verðs og gæða.
Ávallt skal velja hagkvæmasta tilboðið í samræmi við þær valforsendur sem fram koma í útboðsgögnum.
Mosfellsbær áskilur sér ávallt rétt til þess að hafna tilboðum sem eru verulega umfram kostnaðaráætlun eða veittar fjárheimildir. Í útboðsgöngum skal skilgreina nánar hvenær tilboð telst verulega umfram kostnaðaráætlun eða veittar fjárheimildir.
21. gr. Meðferð reikninga vegna innkaupa
Allir samningar um innkaup á verkum, vöru og þjónustu skulu vera skriflegir og skal skýrt kveðið á um reikningsgerð og greiðslutilhögun.
Greiðslufrestir á reikningum vegna innkaupa er 21 dagur frá móttöku reikninga samkvæmt móttökustimpli í afgreiðslu eða bókhaldsdeild Mosfellsbæjar.
22. gr. Fræðsla og þjálfun innkaupafólks
Til að efla færni starfsfólks sveitarfélagsins og þjálfun á sviði innkaupa fær starfsfólkið fræðslu og þjálfun í samræmi við fræðsluáætlun í innkaupamálum, sem lögmaður Mosfellsbæjar setur fram. Lögmaður ber jafnframt ábyrgð á því að innkaupareglur þessar verði uppfærðar þegar þörf krefur.
23. gr. Mælikvarðar og endurmat
Fjármálastjóri setur árlega markmið um árangur innkaupa í samræmi við stefnu sveitarfélagsins í innkaupamálum og skilgreinir mælikvarða til að meta árangurinn. Fjármálastjóri fylgir markmiðum eftir, metur hvernig til hefur tekist við að framfylgja stefnunni og sér um að nauðsynlegar úrbætur nái fram að ganga, sbr. 8. gr. reglna þessara.
V. kafli – Önnur ákvæði
24. gr. Hæfis- og siðareglur
Allir starfsmenn er koma að innkaupum og innkaupamálum, sem og aðrir fulltrúar sveitarfélagsins, skulu gæta að almennum hæfis- og siðareglum er gilda um starfsemi sveitarfélagsins.
Ákvæði 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og ákvæði samþykktar um stjórn sveitarfélagsins um hæfi gilda um ákvarðanir sem teknar eru samkvæmt innkaupareglum þessum.
25. gr. Tengdir aðilar
Almennt eru tengdir aðilar aðal- og varamenn í sveitarstjórn auk æðstu stjórnenda sveitarfélagsins. Makar þessara aðila, ófjárráða börn og aðrir fjárhagslega háðir einstaklingar falla einnig hér undir ásamt fyrirtækjum í eigu eða undir stjórn þessara aðila.
Sveitarfélagið heldur skrá yfir tengda aðila og ber fjármálastjóri ábyrgð á að uppfæra skrána.
Viðskipti sveitarfélagsins við tengda aðila skulu vera á sömu forsendum og þegar um óskylda aðila er að ræða, s.s. varðandi einingaverð. Að öðru leyti gilda ákvæði 24. gr. um hæfis- og siðareglur.
26. gr. Trúnaðarskylda
Allir starfsmenn er koma að innkaupum og innkaupamálum, sem og aðrir fulltrúar sveitarfélagsins, skulu gæta þagmælsku um það sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt á að fara vegna viðskiptahagsmuna sveitarfélagsins og stofnana þess, eða af öðrum ástæðum sem leiða af lögum eða eðli máls.
27. gr. Kærur og kvartanir
Sé um að ræða innkaup sem falla undir lög um opinber innkaup getur aðili borið fram kæru í samræmi við XI. kafla laga um opinber innkaup.
Telji bjóðendur eða seljendur þjónustu, verka eða vöru að á rétti sínum hafi verið brotið eða meðferð innkaupamála hjá Mosfellsbæ sé ábótavant, en málið heyrir ekki undir kærunefnd útboðsmála, er þeim ætíð heimilt að beina erindi þar um til bæjarráðs. Kvörtun skal berast bæjarráði skriflega innan fjögurra vikna frá því kvartandi vissi eða mátti vita um ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum.
28. gr. Takmörkun á bótaábyrgð
Bótaskylda Mosfellsbæjar vegna mistaka við framkvæmd útboða skal í öllum tilvikum takmarkast við kostnað bjóðanda við að undirbúa tilboð og taka þátt í útboði. Mosfellsbær mun þar af leiðandi ekki bæta annars konar tjón, svo sem tjón vegna missis hagnaðar. Fallist bjóðendur ekki á þessa tilhögun ættu þeir ekki að taka þátt í útboðum á vegum Mosfellsbæjar.
Takmörkun þessi á bótaábyrgð Mosfellsbæjar gildir þó ekki ef brotið er gegn lögum við framkvæmd útboðs af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi.
29. gr. Gildistaka
Reglur þessar eru samþykktar af 1470. fundi bæjarráðs 17. desember 2020 og bæjarstjórn Mosfellsbæjar á 774. fundi 13. janúar 2021 og öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur, samþykktar á 969. fundi bæjarráðs þann 25. febrúar 2010 og 531. fundi bæjarstjórnar 10. mars 2010, með síðari breytingum.
Mosfellsbær, 13. janúar 2021
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri