Samþykkt um hænsnahald utan skipulagðra landbúnaðarsvæða.
1. gr. Gildissvið og markmið
Samþykkt þessi gildir um hænsnahald í Mosfellsbæ á svæðum öðrum en skipulögðum landbúnaðarsvæðum og skráðum lögbýlum. Samþykktin er sett til að tryggja öryggi, hollustuhætti, góða umgengni og fullnægjandi mengunarvarnir vegna hænsnahalds í þéttbýli Mosfellsbæjar.
2. gr. Leyfisveitingar
Sækja skal um leyfi fyrir hænur á bæjarskrifstofu Mosfellsbæjar á þar til gerðum eyðublöðum áður en hænsnahald hefst. Telji bæjarstjórn að skilyrði til hænsnahalds séu fyrir hendi þá getur hún veitt lögráða einstaklingi eða lögaðila leyfi til tiltekins tíma, að jafnaði til 5 ára.
Skilyrði leyfisveitinga eru:
- Að tilskilin leyfi byggingar- og skipulagsyfirvalda liggi fyrir nema að skilyrði í g-lið í 2.3.5. gr. í byggingareglugerð nr. 112/2012 sé uppfyllt.
- Að fyrir liggi samþykki sameigenda ef um fjöleignarhús er að ræða. Sama á við ef um er að ræða jörð eða fasteign í óskiptri sameign. Sé umsækjandi leigjandi skal fylgja samþykki leigusala.
- Ganga skal úr skugga um að hænsnahald hafi ekki verið sérstaklega bannað eða þinglýstar kvaðir séu á húseignum sem koma í veg fyrir að þar séu haldin hænsni.
Leyfilegt er að halda allt að sex hænsni á hverri lóð. Óheimilt með öllu er að halda hana.
Ekki er veitt leyfi hafi umsækjandi gerst brotlegur við lög um velferð dýra.
3. gr. Lausaganga
Lausaganga hænsna er með öllu óheimil og ber hænsnaeigandi fulla vörsluskyldu. Hænsnaeigandi er að öllu leyti ábyrgur fyrir hænsnum sínum og ber að koma í veg fyrir að hænsnahaldið valdi ónæði í umhverfinu, svo sem vegna hávaða, ólyktar og hvers konar óþrifnaðar.
Hænsnaeiganda ber að sjá til þess að hænsnahaldið laði ekki að meindýr.
4. gr. Handsömun
Sleppi hæna frá eiganda eða umráðamanni, skal viðkomandi tafarlaust gera ráðstafanir til að handsama hana. Hænsni í lausagöngu skal færa í geymslu á vegum Mosfellsbæjar. Ef hænsna er ekki vitjað innan einnar viku frá handsömun er heimilt að ráðstafa þeim til nýs eiganda eða selja fyrir áföllnum kostnaði. Að öðrum kosti skulu hænsni aflífuð.
5. gr. Skil á handsömuðum fugli
Hafi hænsnfugl verið handsamaður er óheimilt að afhenda hann fyrr en að lokinni greiðslu áfallins kostnaðar. Sé eigandi ekki með leyfi fyrir hænsnahaldi skal afla leyfis og greiða fyrir það áður en hænsni fæst afhent. Kostnaður við handsömun, geymslu eða aflífun hænsnfugls skal að fullu greiddur af eiganda.
6. gr. Ónæði
Til að koma í veg fyrir ónæði vegna hávaða ber að hafa myrkur hjá hænsnum frá kl. 21:00 til kl. 7:00 alla daga.
Þrífa þarf kofa að lágmarki vikulega. Skít skal fjarlægja við daglega umhirðu og hann má ekki safnast upp. Hænsnaskít skal farga eða nýta á löglegan hátt. Þegar mokað er úr húsum skal koma hæsnaskít fyrir í lokuðum umbúðum þannig að hann valdi ekki lyktarmengun. Þegar hæsnaskítur er nýttur sem áburður skal plægja hann niður þannig að hann liggi ekki á yfirborðinu. Ef ekki er unnt að nýta skít skal flytja hann í lokuðum umbúðum á móttökustöð fyrir lífrænan úrgang.
Leyfishafa ber að gera ráðstafanir til að tryggja að meindýr komist ekki í fóður.
7. gr. Kofar fyrir hænsni
Á lóðum þar sem veitt er leyfi til hænsnahalds þarf að vera hæfilega stór kofi sem rúmar þann fjölda af hænum sem leyfi er veitt fyrir. Kofi fyrir sex hænur þarf að vera að lágmarki 3 m² að stærð. Í kringum hænsnakofa skal vera hænsnahelt gerði, hæfilega stórt fyrir útiveru hænsnanna. Hænsnakofi og gerði skulu vera vel innan lóðarmarka viðkomandi lóðar að lágmarki 3 m. Kofi skal vera meindýraheldur og fóður skal geyma í meindýraheldum ílátum. Til að fyrirbyggja að rottur komist í fóður skulu ílát vera í a.m.k. 35 sm hæð frá jörðu og vera u.þ.b. 60 sm djúp.
8. gr. Afturköllun leyfis
Bæjarstjórn getur afturkallað leyfi til hænsnahalds samkvæmt samþykkt þessari ef hænsnahaldið veldur ónæði í umhverfinu, ofnæmi, leyfishafi hefur gerst brotlegur við lög um velferð dýra eða brotið er gegn samþykkt þessari.
9. gr. Sjúkdómar
Komi upp sjúkdómar eða smithætta sem að mati sóttvarnarlæknis og yfirdýralæknis geta skapað hættu fyrir heilbrigði manna, ber að hætta hænsnahaldi tafarlaust og farga fuglum í samráði við heilbrigðisnefnd.
10. gr. Eftirlit
Eftirlit með því að ákvæðum samþykktar þessarar sé framfylgt er í höndum heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis.
11. gr. Þvingunarúrræði
Um þvingunarúrræði og viðurlög við brotum gegn ákvæðum samþykktar þessarar fer samkvæmt VI. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.
12. gr. Gjaldtaka
Bæjarstjórn er heimilt að setja gjaldskrá í samræmi við 25. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, til að standa straum af kostnaði vegna framfylgdar á samþykkt þessari. Í gjaldskrá eru upplýsingar um leyfis- og eftirlitsgjöld og þann kostnað sem leyfishafi skal bera og kann að hljótast af handsömun, fóðrun og hýsingu hænsnanna.
Gjöld vegna aðkomu heilbrigðisnefndar greiðast samkvæmt gjaldskrá Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis.
13. gr. Úrskurðarnefnd
Heimilt er að kæra stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt samþykkt þessari.
14. gr. Staðfesting og gildistaka
Samþykkt þessi staðfestist hér með samkvæmt 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og öðlast þegar gildi.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 14. október 2015.
F. h. r.
Sigurbjörg Sæmundsdóttir
Laufey Helga Guðmundsdóttir
B-deild – Útgáfud.: 29. október 2015
Nr. 971
14. október 2015