1. gr.
Með vísan til ákvæða í þriðju málsgrein 5. greinar laga um grunnskóla nr. 91/2008 eiga allir nemendur með lögheimili í Mosfellsbæ rétt á skólavist í grunnskólum bæjarins.
2. gr.
Foreldrar/forráðamenn geta sótt um námvist fyrir grunnskólanemendur í grunnskóla utan síns lögheimilissveitarfélags. Sækja þarf um það til fræðslu- og frístundasviðs Mosfellsbæjar á þjónustugátt Mosfellsbæjar.
Sótt skal sérstaklega um fyrir hvert skólaár og skal það gert fyrir 1. apríl ár hvert fyrir komandi skólaár. Ef lögheimili nemanda flyst eftir að hann hefur byrjað skólagöngu í því sveitarfélagi, sem hann átti lögheimili í fyrir flutning, heimilar Mosfellsbær fyrir sitt leiti, enda komi ekki til greiðslu Mosfellsbæjar, að hann ljúka námi í þeim skóla sem hann stundaði nám í við flutninginn til loka skólaársins.
Umsóknir sem berst utan áður nefnds tíma án þess að tilkomi lögheimilisbreyting verða teknar fyrir sérstaklega sbr. 4. grein hér að neðan.
3. gr.
Fræðslunefnd felur fræðslu- og frístundasviði Mosfellsbæjar að afgreiða umsókn um skólavist í öðru sveitarfélagi og staðfesta greiðsluskyldu bæjarins vegna skólavistar nemandans, að því gefnu að afgreiðsla rúmist innan fjárhagsramma málaflokksins og að umsókn falli undir forsendur sem tilgreindar eru í 4. grein.
Greiðslur miðast við viðmiðunargjaldskrá Sambands íslenskra sveitarfélaga sem gefin er út í upphafi hvers skólaárs. Greiðslur til sjálfstætt starfandi grunnskóla eru 75% af útgefinni hagstofutölu.
Ef um viðbótarkostnað er að ræða skal um það semja sérstaklega.
Greiðslubyrði vegna skólavistar nemanda fellur ekki á sveitarfélagið án samþykkis þess.
Foreldrar/forráðamenn bera ábyrgð á að innrita nemandann í viðtökuskóla og Mosfellsbær sendir staðfestingu til viðtökusveitarfélags og viðtökuskóla um greiðslur hafi umsókn verið samþykkt.
Afgreiðsla fræðslu- og frístundasviðs á umsókn um skólavist nemenda er stjórnsýsluákvörðun og skal ágreiningi um afgreiðslu vísað til Fræðslunefndar.
4. gr.
Mosfellsbær samþykkir greiðslur vegna skólavistar í öðru sveitarfélagi á einum af eftirfarandi forsendum:
- að nemandi eigi við náms- og/eða félagslega örðugleika að stríða í skólavist sinni sbr. 17. gr. grunnskólalaga nr. 91/2008.
- að nemandi þurfi að fylgja foreldri/foreldrum sem stunda háskólanám sem krefst tímabundinnar búsetu á landsbyggðinni, enda teljist námið lánshæft að mati Lánasjóðs íslenskra námsmanna.
- að nemandi af félagslegum ástæðum þurfi að stunda nám annars staðar en í heimahéraði sbr. 75. gr. barnaverndarlaga.
- að nemandinn býr utan almenningssamgöngukerfis sveitarfélagsins.
- að nemandi með lögheimili í Mosfellsbæ sem býr í jafnri búsetu hjá sitt hvoru forsjárforeldri þar sem annað forsjárforeldri hefur lögheimili í öðru sveitarfélagi en Mosfellsbæ geti sótt skóla í því sveitarfélagi sem vilji er fyrir hjá báðum forsjáraðilum.
- svo umsókn geti hlotið afgreiðslu á grundvelli ofangreindra forsendna þarf hún að hafa borist á tilsettum tíma, sbr. 2. gr.
5. gr.
Skólastjórnendur grunnskóla Mosfellsbæjar geta í samráði við fræðslu- og frístundasvið Mosfellsbæjar heimilað nemendum úr öðrum sveitarfélögum námsvist í grunnskólum Mosfellsbæjar sé þess óskað, enda liggi fyrir samningur við hlutaðeigandi lögheimilissveitarfélag um greiðslu námskostnaðar.
6. gr
Ofangreindar reglur taka að öðru leyti mið af viðmiðunarreglum Sambands íslenskra sveitarfélaga um námsvist nemenda í grunnskólum utan lögheimilissveitarfélags.
Samþykkt á 678. fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar þann 14. september 2016.