Reglur Mosfellsbæjar um frístundaþjónustu fyrir fötluð börn og ungmenni, frístundaklúbburinn Úlfurinn.
1. gr. Lagagrundvöllur
Í reglum þessum er kveðið á um útfærslu á þjónustu sem sveitarfélögum er skylt að veita sbr. 16. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og tekur við þegar almenn frístundaþjónusta skv. 33. gr. grunnskólalaga nr. 91/2008 hættir.
Sveitarfélög skulu bjóða fötluðum börnum og ungmennum upp á frístundaþjónustu eftir að reglubundnum skóladegi þeirra lýkur.
2. gr. Markmið
Úlfurinn er frístundaklúbbur fyrir fötluð börn í 5. – 10. bekk grunnskóla og fatlaða framhaldsskólanema með víðtækar stuðningsþarfir. Þjónustan er ætluð þeim sem ekki hafa aðgengi í önnur frístundaúrræði sem hæfa hag eða þörfum þeirra. Frístundaþjónusta tekur við þegar reglubundnum skóladegi lýkur, og eftir atvikum áður en dagleg kennsla hefst og á þeim dögum, öðrum en lögbundnum frídögum, þegar skólar starfa ekki.
Í frístundaklúbbnum gefst tækifæri til að njóta félagslegra samskipta, í gegnum leik og skapandi starf. Markmið frístundaklúbbsins er að veita þeim sem þar dvelja öruggt athvarf og bjóða þeim upp á skipulagt frístundastarf við hæfi hvers og eins.
3. gr. Skilyrði fyrir samþykkt
Úlfurinn er ætlaður börnum og ungmennum með staðfesta fötlunargreiningu sem skerðinga sinna vegna geta ekki verið ein heima eftir að skóladegi lýkur.
Til þess að eiga rétt á frístundaþjónustu Úlfsins þurfa notendur að uppfylla öll eftirfarandi skilyrði og leggja fram gögn því til stuðnings eftir því sem við á:
a. Eiga lögheimili í Mosfellsbæ eða Kjósarhreppi.
b. Vera barn í 5. -10. bekk grunnskóla eða ungmenni í framhaldsskóla.
c. Að fötlun hafi verið greind hjá viðurkenndum greiningaraðilum sem eru Ráðgjafar- og greiningarstöð, Barna og unglingageðdeild eða Þroska- og hegðunarstöð.
d. Mat á stuðningsþörf (SIS) frá Ráðgjafar- og greiningarstöð, flokk V eða hærri.
e. Að mat á heildrænni þjónustuþörf sýni þörf barnsins fyrir þjónustuna.
4. gr. Umsókn
Foreldrar eða ungmenni geta sótt um í Úlfinn að uppfylltum inntökuskilyrðum. Umsókn skal berast rafrænt til fjölskyldusviðs í gegnum þjónustugátt Mosfellsbæjar.
Almennur umsóknarfrestur fyrir komandi skólaár er 20. maí ár hvert.
Gjald fyrir þjónustuna er tekið samkvæmt gildandi gjaldskrá hverju sinni.
5. gr. Forgangsröðun umsókna
Samþykktar umsóknir raðast eftir forgangsröðun hverju sinni. Sé ekki unnt að hefja stuðning strax og umsókn er samþykkt skal tilkynna umsækjanda um ástæður þess og hvenær áætlað er að þjónustan geti hafist.
Heimilt er að horfa til þess við samþykkt umsóknar hvort umsækjandi hafi tryggan aðgang að frístundaþjónustu í gegnum sinn sérskóla.
6. gr. Niðurstaða og rökstuðningur synjunar
Kynna skal niðurstöðu á afgreiðslu umsóknar með skriflegum hætti svo fljótt sem unnt er. Sé umsókn synjað skal umsækjandi fá skriflegt svar þar sem vísað er með skýrum hætti til viðeigandi ákvæða reglna þessara.
Upplýsa skal umsækjanda um rétt hans til að fara fram á endurskoðun synjunar. Umsækjandi getur áfrýjað synjun fjölskyldusviðs til fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar innan fjögurra vikna frá því honum barst vitneskja um ákvörðun.
7. gr. Málskot til úrskurðarnefndar velferðarmála
Ákvörðun fjölskyldunefndar skal kynnt umsækjanda skriflega og um leið skal honum kynntur réttur hans til að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar velferðarmála, sé um synjun að ræða. Skal það gert innan þriggja mánaða frá því að umsækjanda var kunngerð ákvörðun fjölskyldunefndar.
8. gr. Gildistaka
Samþykkt á 318. fundi fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar þann 19.4.2022. Staðfest á 804. fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar þann 4.5.2022. Reglur þessar öðlast gildi við birtingu í Stjórnartíðindum.