Samskiptareglur Mosfellsbæjar vegna frístundaávísana
Öll frístundafélög og frístundastofnanir, hér eftir nefnt frístundafélag, sem hafa hlotið samþykki tómstundafulltrúa Mosfellsbæjar til að bjóða fram frístundastarf og móttaka frístundaávísun sem sótt er um á íbúagátt bæjarins, og forráðamenn barna og unglinga sem sækja um og ráðstafa frístundaávísunum, undirgangast þessar samskiptareglur.
1. gr. Skyldur Mosfellsbæjar
Mosfellsbær skuldbindur sig til þess að:
- Greiða til frístundafélagsins þá upphæð sem ávísað hefur verið til félagsins á íbúagátt Mosfellsbæjar.
- Greiðslan fari fram í samræmi við reglur bæjarins hverju sinni.
2. gr. Skyldur frístundafélagsins
Frístundafélagið skuldbindur sig til þess að:
- Veita þá þjónustu sem frístundaávísunin er til greiðslu á hverju sinni.
- Tilkynna tómstundafulltrúa strax um breytingar á starfssemi félags sem leiða kunna til þess að félagið uppfylli ekki lengur þær kröfur sem gerðar eru til þess um hæfi til að bjóða fram viðurkennt frístundastarf og móttaka frístundaávísun til greiðslu fyrir það.
- Endurgreiða Mosfellsbæ þá upphæð sem það hafði fengið greidda frá bænum í formi frístundaávísunar verði þjónustan sem greitt var fyrir felld niður eða fari ekki fram af einhverjum ástæðum.
- Endurgreiða aldrei í peningum, til þess einstaklings eða forráðamanns hans, ígildi þeirrar frístundaávísunar sem áður er móttekin og greidd af bænum.
- Tilkynna Mosfellsbæ þegar í stað ef félagið verður vart við misnotkun af einhverju tagi.
3. gr. Réttindi forráðamanna barna og unglinga
Ráðstafi forráðamaður (umsækjandi) frístundaávísun fyrir misgáning til rangs frístundafélags er hægt að leiðrétta mistökin, ef það er gert innan sama mánaðar og sótt var um (umsóknarmánuður). Leiðréttingin er gerð með því að senda ósk þess efnis á íbúagáttinni, smella á krækjuna undir “Samband við ábyrgðaraðila” og verður viðkomandi þá gert kleift að sækja um aftur.
Ef forráðamaður (umsækjandi) sem framselt hefur frístundaávísun, óskar af einhverjum ástæðum eftir því að breyta um móttakanda frístundaávísunar (hætta frístundastarfinu) eftir að frístundastarf er hafið eða umsóknarmánuður er liðinn sbr. a, skal hann snúa sér til viðkomandi frístundafélags og óska þess að það leysi hann undar frístundastarfinu. Frístundafélaginu er bæði rétt og skylt að reyna að koma til móts við þessar óskir, enda raski þær ekki starfsáætlun félagsins, og má félagið þá framselja umsamda upphæð til annars frístundafélags sem viðurkennt er af tómstundafulltrúa Mosfellsbæjar. Upplýsingar um hvaða frístundafélög eru viðurkennd af tómstundafulltrúa má sjá á íbúagáttinni auk þess sem hægt er að hafa samband við Þjónustuver Mosfellsbæjar.
4. gr. Viðurkenning á tilvist þessara samskiptareglna
Frístundafélagið sem fengið hefur samskiptareglur þessar sendar og forráðamaðurinn (umsækjandinn) sem hefur lesið þær á íbúagáttinni, hafa kynnt sér þær að fullu og heita að halda þær í öllum atriðum.
Reglur þessar eru samþykktar á 141. fundi íþrótta- og tómstundanefndar.
Samþykkt á 521. fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar þann 21. október 2009.
Stefán Ómar Jónsson bæjarritari.
Útgáfa 1, september 2009.