Í Mosfellsbæ er að finna ýmis friðlýst svæði, náttúruverndarsvæði og viðkvæm svæði þar sem gæta þarf sérstakrar varúðar við framkvæmdir vegna viðkvæmrar náttúru og forðast rask eins og kostur er.
Áður en framkvæmdir hefjast skal tryggja að öll tilskilin leyfi séu til staðar fyrir framkvæmdum.
Upplýsingar um leyfisveitingar gefa skipulagsfulltrúi, byggingafulltrúi og umhverfisstjóri Mosfellsbæjar.
Upplýsingar um leyfisveitingar á vatnsverndarsvæðum veitir Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis.
Reglur um framkvæmdir
Framkvæmdaaðilar skulu uppfylla neðangreind atriði við framkvæmdir á viðkvæmum svæðum í Mosfellsbæ.
- Framkvæmdaaðilar skulu haga vinnu sinni þannig að öryggi verði sem best tryggt.
- Framkvæmdaaðilar skulu haga öllum merkingum þannig að öryggi verði sem best tryggt í samræmi við gildandi reglugerðir og leiðbeiningar Vegagerðarinnar um vinnusvæðamerkingar.
- Ef vélknúin tæki eða vinnuvélar eru notaðar til framkvæmda skal tryggja að mengunarvarnir séu í lagi og ekki sé hætta á mengun t.d. af völdum olíuleka eða leka á glussa.
- Verði mengunaróhapp, svo sem vegna olíuleka úr tæki, skal tafarlaust gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir frekari mengun, hreinsa upp þá mengun sem orðið hefur og tilkynna hana til umhverfissviðs Mosfellsbæjar og Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis.
- Óheimilt að trufla dýralíf, eins og fugla og fiska, meira en brýn þörf ber til
Engar framkvæmdir eru leyfðar á aðal varptíma fugla innan fuglafriðlanda eða við viðkvæm varpsvæði, eins og móa og fjörur, frá 10. maí til 20. júní. - Huga skal að því að mannvirki falli vel inn í landslagið.
- Halda skal öllu raski í lágmarki.
- Óheimilt er að losa efni frá framkvæmdasvæðum í ár og vötn.
- Óheimilt er að moka upp úr árfarvegum, rjúfa bakka eða þrengja árfarvegi án nauðsynlegra leyfa.
- Sérstaka aðgæslu skal sýna við framkvæmdir á mýrlendum svæðum og vatnasvæðum og huga að frágangi á fráveituvatni.
- Ef farið er í uppgræðslu til að bæta rask skal tryggja að notaðar séu tegundir af svæðinu, en ekki framandi tegundir, svo sem alaskalúpína.
- Framkvæmdaaðilar skulu ganga frá því landi sem raskað verður vegna framkvæmdanna sem fyrst eftir að framkvæmdum er lokið og skila í sama eða sambærilegu ásigkomulagi og var fyrir rask.
Leyfisveitingar
Ár og vötn
Framkvæmdir í og við ár og vötn eru háðar leyfi Fiskistofu.
Ár og vötn í Mosfellsbæ eru t.d.:
- Bjarnarvatn
- Borgarvatn
- Geldingatjörn
- Hafravatn
- Hólmsá
- Kaldakvísl
- Krókatjörn
- Langavatn
- Leirtjörn
- Leirvogsá
- Leirvogsvatn
- Selvatn
- Silungatjörn
- Suðurá
- Úlfarsá
- Varmá
Hverfisverndarsvæði
Framkvæmdir eða breytingar á hverfisverndarsvæðum eru háðar umfjöllun í umhverfisnefnd, skipulagsnefnd sem og staðfestingu bæjarstjórnar.
Svæði með hverfisvernd í Mosfellsbæ eru:
- Varmá – 50 metra belti beggja vegna ár
- Kaldakvísl – 50 metra belti beggja vegna ár
- Suðurá – 50 metra belti beggja vegna ár
- Leirvogsá – 100 metra belti beggja vegna ár
- Hólmsá – 100 metra belti beggja vegna ár
- Úlfarsá – 100 metra belti beggja vegna ár
- Urðir í miðbæ
- Leiruvogur – óshólmar Leirvogsár og strandlengja og fjara að Blikastaðakró
- Tröllafoss og nánasta umhverfi
Sérstök vernd – jarðmyndanir og vistkerfi
Framkvæmdir sem krefjst framkvæmda- eða byggingaleyfis á svæðum sem falla undir sérstaka vernd eru háðar umsögn Umhverfisstofnunar.
Svæði með sérstaka vernd eru:
- Eldvörp, gervigígar og eldhraun
- Stöðuvötn og tjarnir 1.000 m2 að stærð eða stærri
- Mýrar og flóar 3 ha að stærð eða stærri
- Fossar
- Hverir og aðrar heitar uppsprettur, svo og hrúður og hrúðurbreiður 100 m2 að stærð eða stærri
- Sjávarfitjar og leirur
Svæði á náttúruminjaskrá
Framkvæmdir á náttúruverndarsvæðum skal tilkynna til Umhverfisstofnunar og eru háðar umsögn stofnunarinnar.
Svæði á náttúruminjaskrá í Mosfellsbæ eru:
- Úlfarsá og Blikastaðakró – 200 metra belti beggja vegna ár, 50 metra breið strandlengja
- Leiruvogur – óshólmar Leirvogsár og strandlengja, fjara og grunnsævi að Blikastaðakró
- Tröllafoss og nánasta umhverfi
- Varmá
Þessi svæði eru einnig skilgreind sem hverfisverndarsvæði.
Friðlýst svæði
Framkvæmdir á friðlýstum svæðum eru háðar sérstöku leyfi Umhverfisstofnunar.
Friðlýst svæði í Mosfellsbæ eru:
- Friðland við Varmárósa
- Álafoss og nánasta umhverfi
- Tungufoss og nánasta umhverfi
- Fólkvangur í Bringum í Mosfellsdal
Vatnsverndarsvæði
Framkvæmdir á vatnsverndarsvæðum eru háðar leyfi heilbrigðisnefndar auk þess sem leita þarf umsagnar framkvæmdastjórnar um vatnsverndarsvæði.
Umgengni á vatnsverndarsvæðum og nýting þeirra skal vera í samræmi við gildandi samþykkt um verndarsvæði vatnsbóla nr. 555/2015.
Vatnsverndarsvæðum er skipt í þrjá flokka:
- Brunnsvæði vatnsból og næsta nágrenni þess er algjörlega friðað nema fyrir nauðsynlegum framkvæmdum vatnsveitunnar.
- Grannsvæði er utan við brunnsvæði. Allar framkvæmdir á grannsvæði eru háðar ströngu eftirliti til að fyrirbyggja breytingu á hripi regns og yfirborðsvatns niður í grunnvatn.
- Fjarsvæði er aðalákomusvæði fyrir grunnvatnsstrauma. Allar framkvæmdir á fjarsvæðum skulu vera í samræmi við skipulagsáætlanir og með leyfi frá heilbrigðiseftirliti.
Vatnsverndarsvæði í Mosfellsbæ eru eftirfarandi:
- Fossvallaklif
- Guddulaug
- Laxnesdý
Framkvæmdir á opnum svæðum/takmarkanir á umferð
Framkvæmdir á opnum svæðum í landi Mosfellsbæjar eða framkvæmdir sem takmarka umferð um götur eða stíga bæjarins ber framkvæmdaaðila að sækja um framkvæmdaheimild frá Mosfellsbæ. Umhverfissvið Mosfellsbæjar gefur út framkvæmdaheimildir.
Þetta gildir t.d. um:
- Lagnaframkvæmdir
- Gatnaframkvæmdir
Stærri framkvæmdir sem hafa áhrif á umhverfið
Ef um er að ræða stærri framkvæmdir sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess skal sækja um framkvæmdaleyfi frá skipulagsnefnd Mosfellsbæjar. Umsóknum um framkvæmdaleyfi má skila til skipulagsfulltrúa Mosfellsbæjar. Framkvæmdaleyfi er gefið út á grundvelli skipulagsáætlana, deiliskipulags ef slíkt er til staðar, en annars aðalskipulags. Skipulagsnefnd veitir framkvæmdaleyfi. Einnig gæti verið krafist umhverfismats vegna slíkra framkvæmda og leiðbeinir skipulagsfulltrúi um slíkt.
Þetta gildir t.d. um:
- Landmótun, breytingu lands með jarðvinnu
- Stórar jarðvegsmanir
- Efnistöku
- Stígagerð, vegagerð og brúagerð