Samþykkt um fletti- og ljósaskilti innan Mosfellsbæjar.
1. gr. Markmið
Markmið með samþykkt þessari er að samræma reglur um fletti- og ljósskilti innan Mosfellsbæjar.
2. gr. Skilgreiningar
- Ljósaskilti: skilti þar sem hreyfimyndir, form eða texti eru mynduð með ljósum eða öðrum samsvarandi hætti.
- Flettiskilti: upplýst skilti sem á eru stórar og áberandi auglýsingar þar sem myndflötur breytist á nokkurra mínútna fresti.
3. gr. Forsendur leyfis til að setja upp fletti- og ljósaskilti
Forsendur þess að tekin verði til umfjöllunar ósk um uppsetningu fletti- og ljósaskiltis er að fyrir liggi leyfi lóðarhafa og að ákvæði deiliskipulags lóðar heimili að sett sé upp auglýsingaskilti.
Eingöngu félagasamtök sem vinna að samfélagslegum verkefnum innan Mosfellsbæjar geta fengið leyfi til þess setja upp ljósaskilti í landi bæjarins sem eftir atvikum getur gerst í samvinnu við fyrirtæki sem sérhæfa sig í að eiga og reka slík skilti í samstarfi við félagasamtök.
Sækja skal um byggingarleyfi fyrir fletti- og ljósaskilti hjá byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar með rafrænum hætti hjá Mosfellsbæ.
4. gr. Svæði þar sem óheimilt er að setja upp fletti- og ljósaskilti
Fletti- og ljósaskilti eru ekki leyfð á eftirfarandi svæðum:
- Íbúðarsvæðum.
- Í miðbæ Mosfellsbæjar.
- Á friðlýstum svæðum, vernduðum svæðum, almennum útivistarsvæðum og leiksvæðum.
Samkvæmt 90. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 er óheimilt að setja upp hvers konar skilti sem beint er að umferð nema með heimild veghaldara. Því þarf að leggja fram umsögn Vegagerðarinnar með umsókn um leyfi skv. samþykkt þessari ef skilti er við þjóðveg, skv. vegalögum nr. 80/2007.
Ljósaskilti með blikkandi ljósum eða hreyfimyndum sem snúa að stofn- eða tengibrautum eru ekki heimil í landi Mosfellsbæjar.
Auglýsingar á fletti- og ljósaskiltum mega ekki vera þannig útfærðar að þær líkist vegvísum og öðrum umferðarmerkjum á nokkurn hátt eða þannig staðsett að þau hindri útsýni við gangbrautir og innkeyrslur. Ef breytingar verða á umferðamannvirkjum eða nauðsynlegt reynist að breyta umferðarmerkingum skulu eigendur skilta færa þau þannig að þau uppfylli ákvæði þessarar samþykktar. Slíkar nauðsynlegar breytingar eru framkvæmdar á kostnað eigenda skilta.
5. gr. Viðmið um ljósmagn og staðsetningu fletti- og ljósaskilta
Fletti- og ljósaskilti í Mosfellsbæ skulu mæta viðmiðum Mosfellsbæjar um ljósmagn slíkra skilta.
Að degi til er heimilt ljósmagn frá felli- og ljósaskiltum í Mosfellsbæ að hámarki 5.000 lux og á kvöldin að hámarki 500 lux. Ljósmagn verði þannig skorðað við að það fari aldrei yfir ljósmagn dagsbirtu. Þessum viðmiðum er ætlað að draga úr ljósmengun og þar með hugsanlegri truflun gagnvart umferð og íbúum.
Jafnframt er áskilið að fletti- og ljósaskilti snúi aldrei að íbúabyggð.
6. gr. Verklag við veitingu leyfis til að setja upp fletti- og ljósaskilti
Umsókn um leyfi til að setja upp fletti- og ljósaskilti í Mosfellsbæ skal leggja fyrir bæjarráð til samþykktar. Að fengnu slíku samþykki skal byggingarfulltrúa heimilt að taka til meðferðar umsókn um byggingarleyfi fyrir skilti skv. byggingarreglugerð.
Leyfi til að setja upp fletti- og ljósaskilti fellur úr gildi hafi framkvæmdir ekki hafist innan 12 mánaða frá útgáfu þess.
7. gr. Útgáfa leyfis, samningar og staðfesting á að skilyrðum sé mætt
Í tengslum við útgáfu leyfis til uppsetningar á fletti- og ljósaskiltum skal gerður samningur sem gildir í tiltekin tíma þar sem m.a. er fjallað um ábyrgðir og skyldur samningsaðila.
Rekstraraðili fletti- og ljósaskilta skal standa straum af allri vinnu við að mæta skilyrðum leyfis og sýna fram á það með gögnum frá þriðja aðila að ljósmagn fletti- og ljósaskilta sé innan viðmiða skv. þessari samþykkt.
Samþykkt á 1588. fundi bæjarráðs Mosfellsbæjar 10. ágúst 2023.
Staðfest á 832. fundi bæjarstjórnar 16. ágúst 2023.
Regína Ásvaldsdóttir
bæjarstjóri