Reglur Mosfellsbæjar um fjarvistir og starfsendurhæfingu vegna veikinda eða slysa.
1. gr.
Starfsmaður skal tilkynna um fjarvistir vegna veikinda eða slyss til forstöðumanns eða þess aðila á vinnustaðnum sem tekur á móti slíkum tilkynningum, áður en vinnudagur hefst. Hver og einn vinnustaður setur sér eigin reglur um hvernig þessum tilkynningum skuli háttað.
2. gr.
Tilkynningar í gegnum þriðja aðila eða tilkynningar með sms skilaboðum eru ekki teknar gildar nema aðstæður geri það að verkum að starfsmaður sé ekki sjálfur fær um að annast tilkynninguna vegna veikinda eða slysfara.
3. gr.
Til að meta fjarvistir vegna skammtímaveikinda starfsfólks er notaður Bradford kvarði þar sem ýmist er miðað við 52 vikna tímabil eða 13 vikna tímabil. Ef um er að ræða tíð skammtímaveikindi ber forstöðumanni að bregðast við í samræmi við eftirfarandi:
Miðað við 52 vikna tímabil:
- 100-499 stig: Viðtal hjá forstöðumanni.
- 500-999 stig: Viðtal hjá mannauðsstjóra og aðgerðaáætlun.
- + 1000 stig: Viðtal hjá trúnaðarlækni í samráði við mannauðsstjóra og aðgerðaáætlun.
Miðað við síðustu 13 vikur:
- 25-124 stig: Viðtal hjá forstöðumanni.
- 125-249 stig: Viðtal hjá mannauðsstjóra og aðgerðaáætlun.
- + 250 stig: Viðtal hjá trúnaðarlækni í samráði við mannauðsstjóra og aðgerðaáætlun.
4. gr.
Ef um síendurtekin veikindi er að ræða eða ef forstöðumaður telur ástæðu til að ganga úr skugga um hvort forföll starfsmanns séu réttmæt getur hann farið fram á að starfsmaður fari til trúnaðarlæknis til viðtals og ráðgjafar. Kostnaður í þeim tilfellum er greiddur af vinnuveitanda.
5. gr.
Starfsmaður getur óskað eftir því að fara til trúnaðarlæknis til viðtals og ráðgjafar. Slík beiðni er borin upp við forstöðumann.
6. gr.
Hafi starfsmaður verið frá vegna veikinda lengur en 5 vinnudaga samfleytt skal hann skila læknisvottorði til forstöðumanns. Ef starfsmaður er óvinnufær í lengri tíma vegna veikinda eða slyss skal hann skila nýju læknisvottorði til forstöðumanns á fjögurra vikna fresti. Forstöðumaður getur krafist læknisvottorðs hvenær sem þörf þykir.
7. gr.
Það er mikilvægt að starfsmaður sem er lengi fjarverandi vegna veikinda eða slyss fái stuðning frá vinnustaðnum. Lagt er upp með að forstöðumenn og eftir atvikum mannauðsstjóri séu í reglulegu sambandi við starfsmanninn og sýni honum þannig bæði umhyggju og jákvæðan stuðning.
8. gr.
Hafi starfsmaður verið frá vinnu vegna veikinda eða slyss í fleiri en 28 daga samfleytt og hyggur á endurkomu til starfa að nýju, mun forstöðumaður boða starfsmann á sinn fund þar sem farið er yfir hvernig endurkomu til vinnu skuli háttað.
9. gr.
Starfsmaður sem hefur verið frá vinnu vegna veikinda í meira en 28 daga samfleytt má ekki hefja störf að nýju nema hafa skilað inn starfshæfnivottorði þar sem læknir vottar að starfsmaður hafi heilsu til að mæta til vinnu. Forstöðumaður getur einnig óskað eftir að starfsmaður gangist undir starfshæfnimat hjá trúnaðarlækni áður en hann kemur til starfa. Vottorði um starfshæfni skal skilað til forstöðumanns áður en starfsmaður mætir aftur til vinnu.
10. gr.
Hafi starfsmaður verið frá vinnu vegna veikinda eða slyss í meira en 28 daga samfleytt og fyrirséð er að um langvarandi veikindi sé að ræða, eða ef forstöðumaður telur ástæðu til, hefur forstöðumaður milligöngu um að starfsmaður sé boðaður í Endurkomu til vinnu (ETV) samtal hjá mannauðsstjóra. Í samtalinu er meðal annars farið yfir réttindi starfsmanns og möguleika á samstarfi við VIRK starfsendurhæfingarsjóð.
11. gr.
Hafi starfsmaður skerta starfsorku í kjölfar veikinda eða slyss og nýtir sér úrræði á vegum VIRK starfsendurhæfingarsjóðs (eða önnur úrræði sem trúnaðarlæknir metur sambærileg) er útbúið skriflegt samkomulag um starfsendurhæfingu milli vinnuveitanda og viðkomandi starfsmanns. Slíkt samkomulag felur í sér samstarf milli vinnuveitanda, starfsmanns og ráðgjafa Virk þar sem gerð er áætlun til fjögurra vikna í senn og stöðumat tekið að þeim tíma liðnum.
12. gr.
Veikist starfsmaður í orlofi skal hann tilkynna forstöðumanni um veikindin um leið og þau hefjast. Einnig þarf að tilkynna forstöðumanni hvenær veikindum lýkur. Náist ekki í forstöðumann skal tilkynna veikindin til Þjónustuvers Mosfellsbæjar í síma 525 6700. Sá tími sem veikindin vara telst ekki til orlofs, enda sanni starfsmaður með læknisvottorði að hann hafi ekki getað notið orlofs. Vottorði skal skilað til forstöðumanns strax að orlofi loknu.
13. gr.
Mosfellsbær endurgreiðir kostnað vegna læknisvottorðs og starfshæfnivottorðs.
14. gr.
Læknisheimsóknir á vinnutíma: Í samræmi við 69. gr. vinnuverndarlaganna nr. 46/1980 verður starfsmaður ekki fyrir tekjutapi vegna heilsuverndareftirlits, læknisskoðana, mælinga eða rannsókna. Í slíkum tilfellum fá starfsmenn samþykki forstöðumanns fyrir því að fara frá og þurfa ekki að stimpla sig út á meðan.