1. gr. um vistun og skyldur dagforeldra og foreldra/forráðamenn barna í daggæslu
I. Umsókn um vistun barns hjá dagforeldri
- Við upphaf vistunar barns skulu dagforeldri og foreldrar/forráðamenn undirrita sérstakan vistunarsamning á þar til gerðu eyðublaði. Uppsögn á vistunarsamningi skal vera skrifleg og með minnst eins mánaðar fyrirvara.
- Í þeim tilfellum þar sem foreldrar/forráðamenn vista barn sitt hjá dagforeldri sem er með þjónustusamning við Mosfellsbæ, skal gera þríhliða samning, milli dagforeldris, foreldra/forráðamanna og Mosfellsbæjar um gjaldskrá vistunarinnar.
- Þegar umsókn um byrjendaleyfi er lögð fram, þarf umsækjandi að afla umsagnar barnaverndaryfirvalda í Mosfellsbæ á því að þau geri ekki athugasemd við að umsækjandi eða aðrir heimilisfastir hafi börn í sinni umsjá.
- Tímarammi daggæslu er frá kl. 7.00 til 19.00 á virkum dögum, en samfelldur vistunartími barns verði þó aldrei lengri en 9 tímar dag hvern.
II. Um réttindi og skyldur dagforeldris
- Dagforeldri ber ábyrgð á andlegri og líkamlegri velferð barnsins meðan á dvöl hjá því stendur og skal hlúa að heilsu þess í sem víðtækustum skilningi. Þetta á jafnt við um fæðuval, leiki, leikföng, hreyfingu, útiveru, tilfinningalíf og félagslega líðan barns. Óheimilt er að beita barn andlegri eða líkamlegri hirtingu.
- Dagforeldri skal eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti endurnýja þekkingu sína í samræmi við 21. gr VII. kafla reglugerðar 907/2005 um daggæslu barna í heimahúsum, sérstaklega varðandi þekkingu á fyrstu hjálp og slys í heimahúsum.
- Á hverju gæsluheimili skulu vera til leikföng er hæfa aldri og þroska þeirra barna sem þar dvelja.
- Daglegt fæði barnanna skal vera í samræmi við ráðleggingar Lýðheilsustöðvar um mataræði ungra barna.
- Dagforeldri skal hafa matseðil dagsins skriflegan svo að foreldrar/forrámenn geti fylgst með mataræði barna sinna.
- Börn skulu að öllu jöfnu njóta daglegrar útivistar.
- Æskilegt er að dagforeldri hafi frumkvæði að viðræðum við foreldra/forráðamenn barnanna og skýri daglega frá því hvernig dagurinn hefur gengið fyrir sig hjá viðkomandi barni.
- Ef barn er vanhirt og/eða á við andlega eða líkamlega örðugleika að stríða, ber dagforeldri þegar í stað að ræða um það við foreldra/forráðamann. Verði dagforeldri þess áskynja að barn sé vanrækt, uppeldi þess, atlæti eða aðbúnaður ábótavant ber því jafnframt að tilkynna slíkt til barnaverndarnefndar sbr. lög um vernd barna og ungmenna.
- Dagforeldri er ekki skylt að taka barn í gæslu sem er með hita eða greinileg vanlíðunareinkenni vegna sjúkleika.
- Dagforeldri er ekki heimilt að aka daggæslubörnum í bíl sínum nema með skriflegu samþykki foreldra/forráðamanna.
III. Um réttindi og skyldur foreldra/forráðamanna barna
- Foreldrar/forráðmenn skulu í samráði við dagforeldri gefa barninu möguleika á minnst viku aðlögunartíma á vist á gæsluheimili. Fyrstu dagana skal foreldri(ar)/forráðmaður (menn) dvelja með barni sínu.
- Foreldrar/forráðamenn skulu hafa barnið hrein og hlýlega klædd, með viðeigandi skjólfatnað og fatnað til skiptanna eftir þörfum.
- Foreldrum/forrámönnum ber að tilkynna forföll eða breyttan komutíma barnsins eins fljótt og auðið er.
- Foreldrar/forráðmenn skulu láta dagforeldri í té upplýsingar um hvar er hægt að ná til þeirra, ef nauðsyn krefur. Einnig að láta dagforeldri strax vita um breytt símanúmer og/eða heimilisfang.
- Við komu og brottför barnsins, skulu foreldrar/forráðamaður/menn klæða barn sitt í og úr yfirhöfnum.
- Æskilegt er, að foreldrar/forráðmenn spyrjist fyrir um hvernig dagur barnsins hefur gengið fyrir sig þegar barnið er sótt, auk þess er æskilegt að foreldrar/forráðamenn geti rætt við dagforeldrið á öðrum tíma um líðan og þroskaframvindu barnsins þegar barnið er ekki viðstatt.
- Telji foreldri/forráðamenn barns eða annar aðili að barn njóti ekki þess aðbúnaðar og atlætis hjá dagforeldri sem því ber, skal hann tilkynna málið þegar í stað til leikskólafulltrúa, sem kannar málið.
2. gr. um ábyrgð, eftirlit o.fl.
Fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar í hlutverki félagsmálanefndar skv. lögum ber almenna ábyrgð á velferð barna í bæjarfélaginu og skal sjá til þess að aðbúnaði barna sé ekki áfátt. Bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur með reglum þessum falið fræðslunefnd að veita leyfi til daggæslu barna í heimahúsum og ber fræðslunefnd ábyrgð á því að höfð sé umsjón og eftirlit með starfsemi dagforeldra á grundvelli neðangreindrar reglugerðar og þessara reglna og felur leikskólafulltrúa framkvæmd þess eftirlits og útgáfu daggæsluleyfa.
Þeir aðilar, sem hafa leyfi fræðslunefndar til að taka börn í gæslu í heimahúsi, eru þeir einu sem hafa heimild til að taka greiðslu fyrir slíka gæslu í Mosfellsbæ.
Með útgáfu þessara reglna vill fræðslunefnd Mosfellsbæjar stuðla að góðri líðan barnanna á heimilunum dagforeldra og jákvæðum samskiptum foreldra/forráðamanna þeirra og dagforeldra.
Allar persónulegar upplýsingar sem dagforeldri og foreldrar/forráðamenn barnsins kunna að fá af högum hvors annars, vegna samskipta sinna, ber að líta á sem trúnaðarmál.
3. gr. um heimild til setningu reglna þessara
Ofangreindar reglur Mosfellsbæjar varðandi daggæslu barna í heimahúsum eru settar með heimild í reglugerð nr. 907/2005 um daggæslu barna í heimahúsum, en reglugerðin er sett af félagsmálaráðuneytinu með stoð í lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Reglurnar taka gildi strax og eldri reglur um sama efni frá 2001 falla úr gildi.
Skilyrði fyrir leyfisveitingu skv. þessum reglum eru talin upp í 13. gr. ofangreindrar reglugerðar. Sérstök athygli umsækjenda er vakin á 16. og 17. grein ofangreindrar reglugerðar um samþykki annarra eigenda í fjöleignarhúsi1 og samþykki leigusala fyrir því að daggæslan fari fram. Umsóknum um leyfi til daggæslu skal skilað inn í gegnum íbúagátt Mosfellsbæjar.
Samþykkt á 515. fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar þann 24. júní 2009.
1Umsækjandi leiti eftir skriflegu samþykki húsfélagsfundar.