Dagdvöl aldraðra í Mosfellsbæ.
I. kafli – Markmið, hlutverk og skipulag
1. gr. Markmið
Dagdvöl aldraðra er félagslegt stuðningsúrræði sem hefur það að markmiði að gera þeim sem að staðaldri þurfa eftirlit og umsjá kleift að búa sem lengst í heimahúsi við eins eðlilegar aðstæður og auðið er. Jafnframt er leitast við að efla dvalargesti til sjálfshjálpar.
2. gr. Hlutverk
Hlutverk dagdvalar er að bjóða einstaklingum upp á mat á heilsufari, þjálfun, tómstundaiðju, félagslegan stuðning, fræðslu, ráðgjöf og aðstoð við athafnir daglegs lífs .
Fylgst er með andlegri og líkamlegri líðan dagdvalargesta, næringu og félagslegri þátttöku, sem og komum í dagdvölina.
Í boði skal vera akstursþjónusta milli dagdvalar og heimilis, sbr. 3. tl. 13. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra.
3. gr. Réttur til dagdvalar og tilhögun
Rétt til dagdvalar eiga þeir einstaklingar sem þurfa eftirlit og umsjá til að geta búið áfram heima. Við mat á þjónustuþörf er ávallt höfð að leiðarljósi geta og færni umsækjanda.
Dvalið er að jafnaði hluta úr degi, ýmist daglega eða tiltekna daga vikunnar. Dagdvölin er starfrækt frá kl. 9:00 til kl. 17:00 virka daga.
Þörf fyrir dvöl skal endurmetin eftir þörfum.
Dagdvölin er samtvinnuð þeirri starfsemi sem fer að öðru leyti fram í þjónustumiðstöð aldraðra á Eirhömrum.
4. gr. Stjórn og yfirumsjón
Fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar fer með málefni dagdvalar aldraðra. Framkvæmdastjóri fjölskyldusviðs hefur yfirumsjón með starfseminni.
Eir, hjúkrunarheimili annast daglega stjórnun dagdvalarinnar og þjónustu við þá sem sækja hana. Þar skal starfa félagsliði eða annar starfsmaður með reynslu og þekkingu á umönnun aldraðra, sem og hjúkrunarfræðingur að minnsta kosti í hlutastarfi samkvæmt samningi Mosfellsbæjar við Eir, hjúkrunarheimili.
II. kafli – Framkvæmd þjónustunnar
5. gr. Umsókn
Umsókn um dagdvöl skal berast Mosfellsbæ skriflega eða á rafrænu formi sem nálgast má í Íbúagátt bæjarins. Í umsókn skulu koma fram upplýsingar um umsækjanda, svo sem heilsufar, færni og ástæðu umsóknar. Umsókn skal fylgja vottorð sérfræðings sem staðfestir þörf umsækjanda fyrir þjónustuna. Í umsókn skal einnig tilgreint hve marga daga og hvaða daga vikunnar óskað er eftir dvöl.
Umsækjandi getur veitt öðrum skriflegt umboð til að sækja um fyrir sína hönd.
Að jafnaði er mat á þjónustuþörf umsækjanda í höndum félagsráðgjafa og hjúkrunarfræðings. Í sérstökum tilfellum og við endurmat er heimilt að afla nauðsynlegra gagna skriflega eða með símtali við sérfræðing með samþykki þess er í hlut á.
6. gr. Mat á færni og þörf fyrir dagdvöl
Mat á því hvort dagdvöl henti einstaklingi er bæði háð færni hans og þeirri þjónustu sem í boði er. Hér á eftir eru tilgreind helstu atriði í því sambandi:
- Gert er ráð fyrir að dvalargestur hafi andlega færni til að nýta sér þá þjónustu sem í boði er og þurfi ekki stöðugt eftirlit.
- Gert er ráð fyrir að dvalargestur komist að mestu hjálparlaust milli staða innanhúss.
- Gert er ráð fyrir að dvalargestur geti að mestu séð um salernisferðir sjálfur.
- Veitt er aðstoð við máltíðir eftir þörfum.
- Veitt er aðstoð við lyfjatöku, t.d. minnt á lyfjatíma og séð til þess að lyf séu tekin.
- Í boði eru t.d. blóðsykurs-, blóðþrýstings- og púlsmælingar.
- Veitt er aðstoð við einfaldar sáraskiptingar.
- Dvalargestum sem eru að mestu sjálfbjarga er veitt aðstoð við að fara í bað.
Sé það mat starfsfólks dagdvalar að einstaklingur sé of veikur til að nýta sér þjónustuna er fjölskyldusviði tilkynnt um það. Starfsmaður sviðsins leitast þá við að finna viðeigandi úrræði fyrir þann sem í hlut á.
7. gr. Samstarf um þjónustu
Leitast skal við að skipuleggja og samhæfa þjónustu dagdvalar annarri þjónustu sem viðkomandi nýtur, svo sem frá heilsugæslu eða öðrum sjúkra- og heilbrigðisstofnunum. Í slíkum tilvikum skal ætíð liggja fyrir samþykki dvalargests.
8. gr. Gjald dagvistar
Samkvæmt samningi Mosfellsbæjar og Eirar, hjúkrunarheimilis annast Eir innheimtu daggjalda frá Tryggingastofnun ríkisins skv. reglugerð um daggjöld fyrir hjúkrunar-, dvalar- og dagdvalarrými sem ekki eru á föstum fjárlögum, sem og hlut dvalargesta skv. sömu reglugerð og 19. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra.
Í samræmi við ákvæði reglugerðar velferðarráðherra hverju sinni er nauðsynlegur flutningskostnaður heimilismanna innifalinn í dagdvalargjaldi. Þeir sem njóta þjónustu dagdvalar skulu greiða 1.020 kr. á dag, sbr. 19. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum.1
9. gr. Forföll
Dvalargesti ber að tilkynna starfsmanni dagdvalar um öll forföll sem valda því að hann komi ekki til dvalar.
III kafli – Málsmeðferð, málskotsréttur og gildistími
10. gr. Mat á þjónustuþörf
Starfsmaður fjölskyldusviðs og hjúkrunarfræðingur dagdvalar meta í sameiningu umsóknir um dagdvöl til samþykktar eða synjunar.
Umsækjandi skal fá skriflegt svar innan fjögurra vikna frá því að umsókn berst. Sé umsókn samþykkt skal tilgreint hvort viðkomandi sé boðin dagvist þá þegar eða hann sé kominn á biðlista og verði boðin þjónusta þegar rými losnar.
11. gr. Rökstuðningur synjunar
Ef umsókn er synjað skal umsækjandi fá skriflegar skýringar á forsendum synjunar. Jafnframt skal honum bent á áfrýjunarrétt sinn.
12. gr. Áfrýjunarákvæði
Umsækjandi um dagdvöl getur áfrýjað ákvörðun um synjun til fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar og óskað endurskoðunar. Skal það gert skriflega innan fjögurra vikna.
13. gr. Gildistími
Reglur þessar eru settar samkvæmt lögum nr. 125/1999 um málefni aldraðra og öðlast þegar gildi.
Samþykkt í bæjarstjórn Mosfellsbæjar 28. janúar 2015.
1Reglugerð nr. 1185/2014 um daggjöld fyrir dvalarrými, dagdvalarrými og hjúkrunarrými sem eru ekki á föstum fjárlögum árið 2015.