Samþykkt um búfjárhald í Mosfellsbæ.
1. gr.
Markmið bæjarstjórnar Mosfellsbæjar með samþykkt þessari er að tryggja sem best skipulag, stjórn og eftirlit með búfjárhaldi í Mosfellsbæ, með ákvæðum um vörsluskyldu og ábyrgð allra búfjáreigenda.
Með búfjárhaldi samkvæmt samþykkt þessari er átt við alifugla-, geita-, hrossa-, kanínu-, loðdýra-, nautgripa-, sauðfjár- og svínahald, sbr. nánar 2. gr. laga nr. 46/1991 um búfjárhald, forðagæslu o.fl., með síðari breytingum. Samþykktin gildir um allt búfjárhald í Mosfellsbæ, bæði á lögbýlum og utan lögbýla.
Umhverfisnefnd og búfjáreftirlitsmaður fara með eftirlit með framkvæmd samþykktarinnar fyrir hönd bæjarstjórnar.
2. gr.
Til búfjárhalds í Mosfellsbæ þarf leyfi bæjarstjórnar, nema eigandi búfjárins sé ábúandi lögbýlis í bænum og með fasta búsetu á lögbýlinu.
Umsókn um leyfi skal fylgja yfirlýsing umsækjanda um að búfjárhald sé að öllu leyti á ábyrgð hans og hann skuldbindi sig til að hlíta ákvæðum samþykktar þessarar. Í umsókn skal m.a. gera grein fyrir tegund og fjölda búfjár, sem óskað er leyfis fyrir og hvernig vörslu og aðbúnaði þess verður háttað. Ekki er heimilt að halda fleiri en 10 vetrarfóðraðar kindur, nema á lögbýlum þar sem ábúandi er með fasta búsetu. Umsókn, ásamt umsögn búfjáreftirlitsmanns, skal lögð fyrir umhverfisnefnd til umsagnar áður en leyfi er veitt.
Leyfi er veitt með því skilyrði að húsakostur og aðstaða sé fullnægjandi fyrir góða meðferð og aðbúnað búfjárins og fullnægi skilyrðum viðkomandi laga og reglugerða. Það er skilyrði leyfis að farið sé vel með búféð og aðbúnaður þess sé ávallt í samræmi við þarfir þess.
Leyfi er veitt til allt að fimm ára í senn og er afturkallanlegt með ákveðnum fyrirvara. Óheimilt er að framselja slíkt leyfi.
3. gr.
Lausaganga búfjár er bönnuð í Mosfellsbæ neðan hinnar samfelldu vörslugirðingar sveitafélaganna á höfuðborgarsvæðinu og er búfjáreigendum skylt að halda búfénaði sínum á afgirtum svæðum þegar hann er neðan hennar.
Heimilt er að sleppa sauðfé til sumarbeitar inn á sameiginlegt sumarbeitiland ofan vörslugirðingar sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Vörslugirðingin nær frá Laxá í Kjós um Stóra-Sauðafell, niður með Rjúpnagili, með Þingvallavegi að Leirvogsá, vestan Leirvogsvatns að Vatnsrétt, að Bringnalandi, milli Grímmannsfells og Háamels, að Hulduhóli, yfir Miðdalsheiði og Elliðakotsheiði að Suðurlandsvegi ofan Fossvalla. Þaðan um Fóelluvötn og Öldur, um Hellisheiði norðan Svínahrauns, að Kolviðarhóli, upp Hellisskarð, um Orrustuhólshraun, að Hengladalaá og í Hveragerðisgirðingu í Kömbum. Um beitarnýtingu á þessu sameiginlega sumarbeitilandi fer eftir fjallaskilasamþykkt nr. 401/1996 fyrir Landnám Ingólfs Arnarsonar.
Upprekstur hrossa á afréttinn er bannaður. Lausaganga sauðfjár, sbr. 2. mgr., er heimil á afrétti fyrir ofan vörslugirðingu svo skjótt sem gróður og aðstæður leyfa, þó aldrei fyrr en 1. júní ár hvert og til fyrstu rétta. Að öðru leyti skal fylgja ákvæðum reglugerðar nr. 59/2000 um vörslu búfjár.
4. gr.
Beit búfjár er bönnuð í Mosfellsbæ frá 1. janúar til 1. júní, þó með þeim frávikum sem kveðið er á um í 5. gr. Beit er heimil á afgirtum svæðum á öðrum tímum, enda sé þess gætt að land sé ekki ofbeitt að mati búfjáreftirlitsmanns.
Hver sá jarðar- eða landeigandi, sem tekur búfé í hagagöngu eða á fóður, skal standa búfjáreftirlitsmanni skil á fullnægjandi upplýsingum um fjölda og eigendur gripa. Ef gripir, eru eingöngu í hagagöngu í bænum og því ekki fyrir hendi leyfi til búfjárhalds skv. 2. gr., skal eigandi tilkynna búfjáreftirlitsmanni um ábyrgðaraðila sem búfjáreftirlitsmaður samþykkir, og skal hann vera ábyrgur fyrir vörslu og aðbúnaði gripanna, sbr. 2. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 86/2000 um forðagæslu, eftirlit og talningu búfjár.
5. gr.
Beit hrossa er bönnuð í Mosfellsbæ frá 1. janúar til 1. júní ár hvert, nema á lögbýlum þar sem eigandi hrossanna hefur fasta búsetu eða þar sem eigandi hrossanna hefur leyfi bæjarstjórnar til hrossahalds, sbr. 2. gr.
6. gr.
Bæjarstjórn úthlutar beitarlandi bæjarins til einstaklinga og félagasamtaka að fenginni umsögn umhverfisnefndar og búfjáreftirlitsmanns.
Umhverfisnefnd skal setja sérstakar reglur um beitarlönd í eigu bæjarfélagsins.
Við úthlutun beitarland skal beitarþol þess kannað í byrjun og síðan árlega eftir það. Kostnað við beitarþolsrannsóknir skal leigutaki greiða. Eftirlit með beitarþoli og fjölda gripa í hverju beitarhólfi skal vera í höndum búfjáreftirlitsmanns.
7. gr.
Bæjarstjórn getur ákveðið að búfjáreigendur, sem þurfa leyfi til búfjárhalds, skuli árlega greiða leyfisgjald fyrir búfé sitt. Við ákvörðun gjaldsins skal leita staðfestingar landbúnaðarráðuneytisins, sbr. 12. Gr. laga nr. 46/1991 um búfjárhald, forðagæslu o.fl., með síðari breytingum.
8. gr.
Fylgi búfjáreigandi ekki settum reglum um aðbúnað og meðferð búfjár má svipta hann leyfi til búfjárhalds að undangenginni aðvörun, sbr. Nánar 15-16. gr. reglugerðar nr. 86/2000 um forðagæslu, eftirlit og talningu búfjár.
Hvern þann búfénað sem sleppur úr vörslu skal taka hvar sem til hans næst og færa í örugga vörslu, sem búfjáreftirlitsmaður sér um. Eiganda eða ábyrgðaraðili skal tilkynna um gripi sína, eftir því sem unnt er og gert að sækja þá og greiða áfallinn kostnað, s.s. vegna tjóns sem gripirnir hafa valdið og kostnað við handsömun þeirra. Ef eigandi eða ábyrgðaraðili hefur ekki hirt um að sækja gripi eða greiða áfallinn kostnað innan 10 daga frá því að honum hefur verið tilkynnt um það, er heimilt að svipta viðkomandi rétti til búfjárhalds í Mosfellsbæ. Um meðferð þess búfjár fer þá eftir 15. gr. fjallskilasamþykktar nr. 401/1996 fyrir Landnám Ingólfs Arnarsonar.
9. gr.
Til að framfylgja þessari samþykkt, lögum nr. 46/1991 um búfjárhald, forðagæslu o.fl., með síðari breytingum og reglugerð nr. 86/2000 um forðagæslu, eftirlit og talningu búfjár, skal ráða búfjáreftirlitsmann sem annast eftirlit með ásetningi búfjár, fóðrun, hirðu og vörslu bæjarlandsins. Hann skal handsama og skrá lausagöngufénað. Auk forðagæslu og vörslu lands skal búfjáreftirlitsmaður halda skrá um búfjáreigendur og fjölda búfjár af einstökum tegundum.
Allt búfé skal einstaklingsmerkt eigendum sínum samkvæmt lögum og reglum.
10. gr.
Brot gegn samþykkt þessari varða sektum eða fangelsi, ef miklar sakir eru. Með mál vegna brota á reglugerð þessari skal farið að hætti opinberra mála, sbr. 13. gr. laga nr. 46/1991 um búfjárhald, forðagæslu o.fl., með síðari breytingum.
11. gr.
Samþykkt þessi sem bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur samþykkt eftir tvær umræður á 329. fundi sínum, 20. júní 2001, með heimild í lögum nr. 46 frá 25. mars um búfjárhald, forðagæslu o.fl., með síðari breytingum, staðfestist hér með. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um búfjárhald í Mosfellsbæ, nr. 276, frá 16. maí 1988.
Ákvæði til bráðabirgða.
Allir þeir sem við gildistöku samþykktar þessarar eiga eða hafa í umsjá sinni búfé, sem leyfi þarf fyrir samkvæmt samþykkt þessari, skulu innan fjögurra mánaða frá gildistöku hennar hafa tilkynnt um búfjárhald sitt og sótt um leyfir fyrir því. Að öðrum kosti fellur niður heimild þeirra til búfjárhalds.
Landbúnaðarráðuneytinu, 10. júlí 2001.
Guðni Ágústsson.
Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir.