Almennar reglur um birtingu gagna með fundargerðum í ráðum og nefndum Mosfellsbæjar.
1. gr. Tilgangur
Reglum þessum er ætlað að tryggja að íbúar Mosfellsbæjar hafi greiðan aðgang að öllum gögnum sveitarfélagsins, fyrirtækja þess og samtaka sem það á aðild að, sem lögð eru fram í ráðum og nefndum á vegum sveitarfélagsins, eftir því sem lög og reglugerðir heimila í samræmi við lýðræðisstefnu Mosfellsbæjar.
2. gr. Gildissvið
Reglur þessar skulu gilda þegar tekin er ákvörðun um hvort birta skuli gögn sem lögð eru fyrir ráð og nefndir Mosfellsbæjar á vef sveitarfélagsins.
3. gr. Meginreglan um birtingu gagna
Birta skal öll gögn með opinberum hætti á vef Mosfellsbæjar, www.mos.is, sem lögð eru fyrir ráð og nefndir sveitarfélagsins, nema undantekningareglur 4. og 5. gr. reglna þessa eða lög hindri slíka birtingu.
4. gr. Gögn sem óheimilt er að birta
Eftirfarandi gögn er óheimilt að birta:
- Gögn um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga, fyrirtækja og lögaðila sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari.
- Bréfaskipti við sérfróða aðila til afnota í dómsmáli eða við athugun á því hvort slíkt máli skuli höfðað.
- Vinnuskjöl og innri minnisblöð til eigin nota.
- Gögn er tengjast málefnum einstakra starfsmanna.
- Gögn sem þagnarskylda skal gilda um.
- Gögn sem málsaðili óskar sérstaklega eftir að verði ekki birt.
Ef réttmætur vafi er á því hvort lög heimili birtingu gagna skulu gögn að jafnaði ekki birt.
5. gr. Gögn sem ekki er skylt að birta
Ekki er skylt að birta eftirfarandi gögn ef sérstakar ástæður mæla gegn slíkri birtingu:
- Gögn er varðar tillögur eða viðræður við ríkið um fjárhagsmálefni sveitarfélaga.
- Gögn er varða fjárhags- eða viðskiptahagsmuni sveitarfélagsins.
- Önnur gögn sem falla undir undanþáguákvæði upplýsingalaga.
6. gr. Upplýsingaréttur
Að öðru leyti en hér er kveðið á um fer um upplýsingarétt almennings eftir ákvæðum upplýsingalaga nr. 140/2012, stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og eftir atvikum laga um persónuvernd nr. 77/2000.
Samþykkt á fundi 1209. fundi bæjarráðs 22. apríl 2015.
Staðfest á 649. fundi bæjarstjórnar 6. maí 2015.