Reglur Mosfellsbæjar um akstursþjónustu fatlaðs fólks.
Eftirfarandi reglur grundvallast á 29. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 og samkomulagi sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, dags. 5. mars 2020, um sameiginlega akstursþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu.
Reglur þessar taka ekki til aksturs leik- grunnskólabarna til og frá skóla. Um skólaakstur fatlaðra grunnskólabarna fer samkvæmt samkomulagi sveitarfélaganna þar um.
I. kafli – Markmið, hlutverk og réttur til þjónustu
1. gr. Markmið og hlutverk
Markmið akstursþjónustu fatlaðs fólks er að gera þeim sem ekki geta nýtt sér þjónustu almenningsfarartækja kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda.
Hlutverk akstursþjónustunnar er að sjá fötluðu fólki fyrir ferðum til að stunda vinnu, nám og njóta tómstunda. Heildarfjöldi samþykktra ferða tekur mið af þörfum hvers og eins.
Ferð er skilgreind sem akstur milli tveggja staða, en ekki akstur fram og til baka.
2. gr. Réttur til þjónustu
Rétt til þjónustunnar eiga þeir íbúar Mosfellsbæjar sem eru:
a) Varanlega hreyfihamlaðir og þurfa að nota hjólastól
b) Ófærir um að nota almenningssamgöngur vegna annarrar langvarandi fötlunar
Skilyrði er að fötlun umsækjanda falli að skilgreiningu laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018 og að hann eigi ekki rétt á niðurgreiddri akstursþjónustu frá öðrum aðilum eða rétt á akstri samkvæmt öðrum lögum, reglugerðum eða reglum.
Hafi fatlaður einstaklingur átt rétt á að nota akstursþjónustu fatlaðs fólks fyrir 67 ára aldur á hann rétt á þeirri þjónustu eftir að 67 ára aldri er náð að uppfylltum skilyrðum í reglum þessum.
II. kafli – Framkvæmd
3. gr. Umsóknir
Umsókn um akstursþjónustu má nálgast á þjónustugátt bæjarins eða í þjónustuveri Mosfellsbæjar.
Þegar sótt er um akstursþjónustu í fyrsta sinn skal leggja fram staðfestingu sérfræðings um þörf fyrir akstursþjónustu.
Umsókn er metin á grundvelli möguleika umsækjanda til að nýta sér þjónustu almenningsfarartækja eða aðra ferðamöguleika.
Heimilt er að samþykkja umsókn hluta úr ári sé þörf á tímabundinni akstursþjónustu, að uppfylltum skilyrðum í reglum þessum.
4. gr. Akstursþjónusta fyrir börn
Almennt er akstur til og frá leikskóla á ábyrgð foreldra.
Forsjáraðilar fatlaðra barna sækja um akstur samkvæmt reglum þessum fyrir börn, t.d. vegna tómstunda, læknisferða, sjúkraþjálfunar eða til að rjúfa félagslega einangrun. Barn yngra en 6 ára skal ávallt vera í fylgd með fullorðnum einstaklingi þegar ferðast er með akstursþjónustu fatlaðs fólks. Þurfi barn bílstól er það á ábyrgð forsjáraðila að útvega hann.
5. gr. Pantanir, afpantanir og þjónustutími
Hægt er að panta ferðir í gegnum pöntunarsíðu þjónustuaðila en einnig í gegnum þjónustuver. Á pöntunarsíðunni er hægt að panta með tveggja klukkustunda fyrirvara á opnunartíma þjónustuvers en utan opnunartíma er fyrirvarinn fjórar klukkustundir.
Notendur skulu veita upplýsingar um fastar ferðir, t.d. vegna atvinnu, skólagöngu eða hæfingar, til að þjónustuaðili geti leitað hagræðis við skipulagningu ferða.
Ekki er unnt að tryggja þjónustu vegna hópferða nema ferð sé pöntuð með að minnsta kosti 12 klukkustunda fyrirvara. Hópur telst vera sex einstaklingar eða fleiri og greiðir hver og einn notandi fyrir sig.
Afpöntun reglubundinna ferða skal fara fram með sem mestum fyrirvara, helst deginum áður, en í undantekningartilvikum með allt að tveggja klukkustunda fyrirvara. Að öðrum kosti telst ferðin með í uppgjöri.
Hærra gjald er tekið fyrir ferðapantanir sem eru samdægurs eða utan opnunartíma þjónustuvers.
Þjónustutími akstursþjónustu fer eftir ákvörðun þjónustuaðila sem finna má á heimasíðu fyrirtækisins. Miðað er við að ferðir hefjist innan þjónustutíma.
6. gr. Tilhögun ferða
Miðað er við akstur frá og að anddyri. Notendur skulu vera tilbúnir til brottfarar á umsömdum tíma. Ekki er tryggt að bíll bíði sé notandi ekki tilbúinn. Biðtími notenda er að jafnaði 5 mínútum fyrir og 10 mínútum eftir pantaðan brottfarartíma.
Aðstoð við notanda skal vera fyrir hendi á vegum hans eða fyrir hönd hans, gerist þess þörf. Bílstjóri veitir þó notanda aðstoð við að komast til og frá anddyri ef á þarf að halda. Bílstjóra er ekki heimilt að skilja bíl sinn úr augsýn.
Ekki er beðið á meðan notandi sinnir erindi sínu og bílstjórum er ekki heimilt að sinna sendiferðum fyrir notendur.
Notanda sem ekið er til læknis er heimilt að hringja eftir akstri til baka að viðtali loknu enda hafi ekki verið vitað fyrirfram hve langan tíma það tæki.
Akstursþjónustan byggist á samnýtingu ökutækja þannig að fleiri en einn notandi ferðast að jafnaði saman. Miðað er við að ferðatími hvers farþega fari ekki yfir 60 mínútur.
Notendur þurfa að vera viðbúnir töfum eða breytingum á áætlun, svo sem vegna færðar eða umferðartafa á annatímum.
Ábendingum og kvörtunum notenda vegna þjónustunnar skal beina til þjónustuaðila.
7. gr. Aðrir farþegar og aðstoðarmenn
Notanda er heimilt að hafa með sér einn farþega og greiðir notandinn þá sama gjald fyrir hann. Börn undir 12 ára aldri í fylgd með fötluðu foreldri greiða ekkert gjald.
Geti notandi ekki ferðast einn að mati fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar skal aðstoðarmaður fylgja honum. Fyrir slíka aðstoðarmenn er ekki greitt fargjald.
8. gr. Gjald og þjónustusvæði
Um gjald fyrir akstursþjónustuna vísast til gjaldskrár Mosfellsbæjar þar að lútandi.
Þjónustusvæði akstursþjónustunnar er Hafnarfjörður, Garðabær, Kópavogur, Reykjavík (þar með talið Kjalarnes), Seltjarnarnes og Mosfellsbær.
9. gr. Öryggi
Ökutæki, ökumenn og aðrir starfsmenn sem vinna við akstursþjónustu fatlaðs fólks skulu uppfylla öll ákvæði laga og reglugerða sem eiga við um akstursþjónustu sem og þjónustu við fatlað fólk.
Ökumaður sem sinnir akstursþjónustu skal hafa til þess aukin ökuréttindi, hafa sótt skyndihjálparnámskeið og önnur þau námskeið sem sérstaklega eru ætluð ökumönnum fólksflutningabíla. Hann skal einnig leggja fram sérstakt sakavottorð við umsókn sína um starf.
Ökumaður þarf einnig að sitja námskeið um þjónustu við fatlað fólk þannig að hann sé vel undirbúinn fyrir það verkefni að sinna ólíkum notendum og til að auka skilning hans og hæfni við þjónustuna. Óheimilt er að ráða starfsmann til þjónustunnar sem hlotið hefur refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. eða XXIII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
III. kafli – Málsmeðferð, málskotsréttur og gildistími
10. gr. Ákvörðun
Fjölskyldusvið metur þjónustuþörf umsækjanda eins fljótt og unnt er eftir að umsókn hefur borist út frá þeim gögnum sem liggja fyrir. Öflun gagna og upplýsinga skal fara fram í samvinnu við umsækjanda eftir því sem unnt er. Að öðrum kosti skal hafa samvinnu og samráð við persónulegan talsmann hans, sbr. ákvæði 1. mgr. 7. gr. laga nr. 88/2011 um réttindagæslu fyrir fatlað fólk.
11. gr. Tímabil samþykktar
Umsóknir um akstursþjónustu eru almennt samþykktar til tveggja ára í senn. Þó er heimilt að samþykkja akstursþjónustu til lengri tíma sé ljóst að ekki sé að vænta breytinga á þörf umsækjanda fyrir þjónustu.
12. gr. Varðveisla gagna, trúnaður og aðgangur að gögnum
Málsgögn er varða persónulega hagi einstaklinga skulu varðveitt með tryggilegum hætti. Hafi starfsmenn kynnst einkahögum notenda eða annarra í starfi sínu er þeim óheimilt að fjalla um þau mál við óviðkomandi nema að fengnu skriflegu samþykki þess er í hlut á.
Notandi á rétt á að kynna sér upplýsingar úr skráðum gögnum sem varða mál hans að því marki að ekki stangist á við trúnað gagnvart öðrum.
Ökumenn og aðrir starfsmenn akstursþjónustu fatlaðs fólks skulu skrifa undir yfirlýsingu um trúnað. Trúnaðarskylda helst þó að látið sé af starfi.
13. gr. Niðurstaða, rökstuðningur synjunar og málskot til fjölskyldunefndar
Kynna skal umsækjanda niðurstöðu fjölskyldusviðs skriflega svo fljótt sem unnt er. Synjun skal alltaf fylgja rökstuðningur. Sé umsókn synjað í heild eða að hluta skal umsækjanda kynntur réttur hans til að skjóta ákvörðuninni til fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar til endurskoðunar. Beiðni um endurskoðun skal koma fram innan fjögurra vikna frá því að umsækjanda barst vitneskja um ákvörðunina.
14. gr. Málskot til úrskurðarnefndar velferðarmála
Um málsmeðferð fer skv. XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 og stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Það felur meðal annars í sér að umsækjandi getur skotið ákvörðun fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar til úrskurðarnefndar velferðarmála. Kærufrestur er þrír mánuðir frá því að tilkynning barst um ákvörðunina. Kæra telst fram komin innan kærufrests ef bréf sem hefur hana að geyma hefur borist úrskurðarnefndinni eða verið afhent póstþjónustu áður en fresturinn er liðinn.
15. gr. Gildistaka
Reglur þessar, sem samþykktar voru í fjölskyldunefnd 23.11.2021 og bæjarstjórn 8.12.2021, öðlast gildi við birtingu í Stjórnartíðindum. Jafnframt falla úr gildi reglur Mosfellsbæjar um ferðaþjónustu fatlaðs fólks frá 16. janúar 2019, sem birtar voru á vef Mosfellsbæjar.