Tónlistarkonan Elín Hall kemur fram í stofunni á Gljúfrasteini sunnudaginn 6. júlí kl. 16 og flytur lög úr eigin smiðju. Elín er sérstaklega þekkt fyrir metnaðarfulla textasmíðar og hrífandi myndmál. Í sögulegu umhverfi Gljúfrasteins sameinast því arfleifð Halldórs Laxness með því besta í íslenskri samtímatónlist.
Á efnisskránni má meðal annars finna nýja lagið Heaven To A Heathen, sem Elín samdi með Grammy-verðlaunahafanum Martin Terefe. Elín kemur fram ásamt gítarleikaranum Reyni Snæ Magnússyni.
Elín Hall er margverðlaunuð tónlistarkona og leikkona sem hefur skapað sér einstakan sess í íslenskri menningu. Hún sló í gegn með plötunni heyrist í mér?, sem hlaut verðlaun sem Plata ársins hjá Reykjavík Grapevine. Tónlist hennar einkennast af ljóðrænum textum, framúrskarandi lagasmíðum, draumkenndum hljóðheimi og persónulegum frásögnum.
Elín hefur komið fram á fjölmörgum tónlistarhátíðum eins og Iceland Airwaves og BludFest í Bretlandi, og mun í sumar hita upp fyrir Smashing Pumpkins í Reykjavík. Hún starfar einnig sem leikkona og vakti heimsathygli fyrir kvikmyndina When the Light Breaks sem sýnd var á Cannes og færði henni Edduna og verðlaun sem besta leikkona í aðalhlutverki á kvikmyndahátíðinni í Chicago.
Verið hjartanlega velkomin í stofuna á Gljúfrasteini!
Aðgangseyrir er 3.900 kr. og eru miðar seldir í afgreiðslu Gljúfrasteins á tónleikadegi.
Næg bílastæði við Jónstótt.