Bæjarstjórn Mosfellsbæjar samþykkti á fundi sínum þann 04.12.2024, í kjölfar umfjöllunar skipulagsnefndar þann 29.11.2024, að kynna og auglýsa deiliskipulagstillögu 1. áfanga Blikastaðalands á vinnslustigi, ásamt drögum að umhverfismati, í samræmi við 4. mgr. 40 gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Deiliskipulagstillaga á vinnslustigi er ekki fullmótað deiliskipulag heldur er tillögunni ætlað að kynna helstu hugmyndir, forsendur og umhverfismat fyrir íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum. Í kjölfarið verður unnið með innsendar ábendingar og endanleg skipulagstillaga auglýst síðar til umsagnar.
Meginmarkmið skipulagsins er að leggja grunn að öflugu og eftirsóknarverðu hverfi sem styrkir nærumhverfið og bætir lífsgæði þeirra sem sækja svæðið, þar starfa eða búa. Rísa á blönduð þétt byggð sem styður við samfélagsheild, með áherslu á samspil náttúru og byggðar, virkt umhverfi, gæði almenningsrýma, stíga, dvalar- og íverusvæða. Nýtt hverfi skal hýsa lifandi starfsemi og fjölbreyttar íbúðir á samgöngu- og þróunarás með gott aðgengi að ólíkum ferðamátum. Áhersla er á vistvænar samgöngur, stíga og góðar tengingar. Blikastaðabær mun öðlast nýtt hlutverk sem lifandi miðsvæði, verslun- og þjónusta.
Vinnslutillaga sýnir meðal annars útfærslur grænna svæða, Skálatúnslækjar, samgangna, kennisnið gatna, húsagerðir og hverfaskiptingu auk skuggavarps og vindþæginda miðsvæðis við Blikastaðabæ og borgarlínustöð. Gögnin sýna skiptingu íbúða milli fjöl- og sérbýla; rað-, par- og einbýlishúsa. Alls sýnir tillagan um 1.270 íbúðir, hátt í 7.800 fermetra af verslun- og þjónustu, einn leikskóla ásamt sambyggðum leik- og grunnskóla.
Meðfylgjandi er umhverfismatsskýrsla í vinnslu til forkynningar, þar sem lagt er mat á samfélag, samgöngur, heilsu og öryggi, aðlindir, landslag og ásýnd, náttúrufar, minjar og loftslag. Einnig er hjálagt minnisblað og drög að samantekt samgöngu- og umferðarmála í vinnslu. Samhliða skipulagsferlinu og fullmótun tillögu á deiliskipulagi munu gögn taka breytingum í samræmi við þróun og fullmótun skipulagstillögu. Stefnt er að því að skipulagsáætlunin hljóti vistvottun BREEAM Communities.
Gögn eru unnin af Nordic arkitektum, SLA landslagsarkitektum og Eflu þekkingarfyrirtæki í samstarfi við Mosfellsbæ.
Athugasemdir, ábendingar og umsagnir skulu berast skriflega í Skipulagsgáttina.
Umsagnafrestur er til og með 10. febrúar 2025.