Marta Guðrún Jóhannesdóttir safnafræðingur flytur erindi á Gljúfrasteini laugardaginn 10. maí kl. 15:00.
Í erindinu rifjar Marta upp vinnuna að baki sýningunni „Auður á Gljúfrasteini – Fín frú, sendill og allt þar á milli“ sem fór fram í Listasal Mosfellsbæjar haustið 2014.
Á sýningunni voru textílverk og ýmsir aðrir gripir tengdir ævi og verkum Auðar Sveinsdóttur dregnir fram en eftir hana liggja bæði fjöldi textílverka og greinaskrifa um hannyrðir og textíl. Mörg af verkum Auðar eru varðveitt á Gljúfrasteini og gefa innsýn í listsköpun hennar auk þess að endurspegla sögu textíls á 20. öld og ljá heimili þeirra Halldórs þann einstaka blæ sem það er þekkt fyrir.
Aðgangur er ókeypis og öll eru velkomin.
Að erindinu loknu býðst gestum að ganga um safnið og skoða sérstaklega verk Auðar sem þar eru varðveitt.