Haustið 2018 var haldinn opinn íbúafundur í Hlégarði um endurskoðun menningarstefnu Mosfellsbæjar og hafa hugmyndir frá þeim fundi mótað endurskoðun stefnunnar. Fengnir voru utanaðkomandi ráðgjafar til að halda utan um fundinn og vinna úr niðurstöðum hans.
Jafnframt var haldinn fundur með ungmennaráði og nemendaráði framhaldsskóla Mosfellsbæjar eftir að í ljós kom að yngra fólk sótti opna íbúafundinn í minna mæli en eldri aldurshópar.
Að því loknu vann menningar- og nýsköpunarnefnd að stefnunni og í kjölfarið var forstöðumanni bókasafns og menningarmála falið að vinna úr fyrirliggjandi gögnum og sjónarmiðum nefndarmanna.
Endurskoðun á menningarstefnu Mosfellsbæjar hefur einnig skírskotun til þeirrar stefnumótunar sem fram fór hjá Mosfellsbæ árið 2017 og gildir til ársins 2027. Að þeirri vinnu komu starfsmenn Mosfellsbæjar og kjörnir fulltrúar. Loks tekur stefnan mið af eldri stefnu í málaflokknum frá árinu 2012 eftir því sem við á.
Framtíðarsýn
Framtíðarsýn Mosfellsbæjar til ársins 2027 er þessi:
Mosfellsbær er fjölskylduvænt, heilsueflandi og framsækið bæjarfélag sem setur umhverfið í öndvegi og hefur þarfir og velferð íbúa að leiðarljósi.
Meginhluti starfsemi sveitarfélagsins hverfist um þarfir og velferð íbúa og á það við um öll svið mannlífsins í Mosfellsbæ.
Í menningarstefnu Mosfellsbæjar er því leitast við að skapa umgjörð fyrir sköpun og menningarstarfsemi sem er til þess fallin að efla samfélagið og byggja undir þann félagsauð sem Mosfellsbær býr yfir sem samfélag. Allt eru þetta viðfangsefni og eiginleikar sem þarf að vakta og viðhalda í góðri samvinnu við íbúa á hverjum tíma.
Áhersluflokkar
Áhersluflokkar í stefnu Mosfellsbæjar eru rétt þjónusta, flott fólk og stolt samfélag og undir hverjum áhersluflokki eru svo þrjár áherslur.
- Rétt þjónusta: Persónulegur, skilvirkur, snjall
- Flott fólk: Samstarfsfús, framsækinn, meðvitaður
- Stolt samfélag: Eftirsóttur, heilbrigður, sjálfbær
Þannig vill Mosfellsbær vera persónulegur, skilvirkur og snjall þegar kemur að því að veita rétta þjónustu. Í áhersluflokknum flott fólk vill Mosfellsbær vera samstarfsfús, framsækinn og meðvitaður. Og þegar kemur að stoltu samfélagi vill Mosfellsbær vera eftirsóttur, heilbrigður og sjálfbær.
Á sviði menningarmála er mikilvægt að Mosfellsbær sjái fyrir og mæti þörfum íbúa, listamanna og gesta fyrir vettvang menningarmiðlunar og styðji við skapandi störf. Slíkt getur verið þáttur í að auka lífsgæði íbúa, gesta Mosfellinga og starfandi listamanna á hverjum tíma og byggja þannig upp og viðhalda þeim félagsauði sem einkennir samfélagið og birtist meðal annars í öflugu menningarlífi.
Loks tekur menningarstefnan mið af gildum bæjarins: Virðing, jákvæðni, framsækni og umhyggja. Þannig er virðing borin fyrir fjölbreytileika samfélagsins og fyrir sögu bæjarins, jákvæðni einkennir viðhorf til menningarsköpunar og menningarstarfsemi bæjarins er framsækin.
Meginmarkmið
Meginmarkmið menningarstefnu Mosfellsbæjar eru að móta áherslur í menningarmálum, efla og styðja við fjölbreytta menningu í bænum, auka aðgengi íbúa að menningu og stuðla að virkri þátttöku þeirra. Leiðir að því markmiði eru til að mynda að bærinn viðhaldi og þrói aðstöðu fyrir menningarstarfsemi, veiti fjármunum til menningarstarfsemi og komi með virkum hætti að kynningu og markaðssetningu á þeim menningarviðburðum eða því menningarstarfi sem í boði er á hverjum tíma.
Stefnan skiptist í fjóra áhersluflokka sem eru að skapa rými, fanga fjölbreytileikann, efla tengslin og segja sögur.
1. Sköpum rými
Aðstaða
Mosfellsbær leitast við að greiða götu listamanna og listunnenda og leggur sig fram við að skapa vettvang fyrir fjölbreytta menningarstarfsemi. Hlúð er að frumkvæði íbúa og hvatt til þátttöku þeirra í menningarstarfsemi.
Aðgerðir
- Hlégarður verði miðstöð menningarlífs í Mosfellsbæ.
- Lokið verði við að útfæra áætlun um breytingar á Hlégarði, hanna þær og skipta þeim upp í áfanga til næstu fjögurra ára.
- Vinna með Leikfélagi Mosfellssveitar að því að kanna hvort og þá hvernig væri unnt að koma framtíðar aðstöðu
leiklistarstarfs félagsins og skóla í Mosfellsbæ fyrir í Hlégarði. Tekið verði mið af tillögum arkitekta um hagnýtingu efri hæðar Hlégarðs við könnunina. - Nýta enn betur í þágu lista og menningar þær stofnanir og húsnæði sem bærinn hefur yfir að ráða.
- Lokið verði við endurmat á rekstrarfyrirkomulagi Hlégarðs og endurmótun verkaskiptingar milli rekstraraðila Hlégarðs og Mosfellsbæjar.
- Móta á þeim grunni framtíðarsýn fyrir nýtingu og þróun á starfsemi í húsinu til eflingar menningarlífs bæjarins.
- Mosfellsbær sinni hluta af viðburðahaldi í Hlégarði í samvinnu við rekstraraðila á hverjum tíma og nýting og þróun á starfsemi í húsinu verði lyftistöng fyrir menningarlíf bæjarins.
- Vægi listar í opinberu rými verði aukið með því að fjölga umhverfislistaverkum á lykilsvæðum í bænum, jafnt grónum sem nýbyggðum.
- Efri hæð Hlégarðs verði nýtt sem aðstaða fyrir listamenn og félagasamtök og skapað verði rými sem styður við
menningarstarfsemi í bænum. - Vinna að verkefnum sem styðja við uppbyggingu Álafosskvosar og varðveita það yfirbragð og þel sem þar þekkist.
- Komið verði upp föstu sviði í Álafosskvos.
- Lista- og menningarsjóður Mosfellsbæjar verði efldur í áföngum og veiti aukna styrki til verkefna á sviði lista og menningar.
2. Fögnum fjölbreytileikanum
Fjölbreytileiki
Markvisst stuðlað að því að menningarlíf bæjarins sé fjölbreytt og aðgengilegt fyrir alla hópa samfélagsins. Lögð er áhersla á nýsköpun, frumkvæði og að nýjum hugmyndum sé tekið fagnandi og þeim fundinn farvegur.
Aðgerðir
- Halda á lofti og þróa áfram árlega viðburði sem hafa fest sig í sessi: Þrettándabrenna, Menningarvor, þjóðhátíðardagskrá, bæjarhátíðin Í túninu heima og Bókmenntahlaðborð Bókasafns Mosfellsbæjar.
- Vinna að að jöfnum tækifærum fyrir þá sem vilja skapa list og vinna að menningartengdum verkefnum innan Mosfellsbæjar.
- Hvetja nýja íbúa í Mosfellsbæ til að taka virkan þátt í menningarlífi bæjarins.
- Þróa og útfæra nýja viðburði á borð við Fjölmenningarhátíð þar sem íbúar geta kynnst menningu og siðum annarra landa.
- Koma á samvinnu milli ólíkra hópa á sviði menningar og milli fjölbreyttra listgreina.
3. Eflum tengslin
Samstarf
Sérstaklega hlúð að menningarstofnunum og gott flæði tryggt á milli þeirra og annarra hluta samfélagsins. Horft verði til þess að samtvinna menningu inn í daglegt líf barna og unglinga og byggja upp vettvang þar sem hægt er að leiða saman atvinnulíf og listsköpun.
Aðgerðir
- Bókasafn Mosfellsbæjar sé menningarmiðja bæjarins og gegni hlutverki þriðja staðarins; rými sem hvorki er heimili né vinna eða skóli. Áfram verði lögð áhersla á að bjóða alla bæjarbúa velkomna í bókasafnið og leitast við að bregðast við þörfum um fræðslu og þjónustu. Fjöldi viðburða verði aukinn í samvinnu við íbúa.
- Að Listasalur Mosfellsbæjar verði eftirsóttur vettvangur til að sýna myndlist jafnt helstu listamanna landsins sem og hæfileikaríks áhugafólks og að bæjarbúar leiti þangað til að njóta myndlistar og menningar.
- Koma á samvinnu milli skóla og menningarfélaga í bænum.
- Efla ungmennahúsið Mosann og auka samstarf ungs fólks á sviði lista og menningarmála.
- Leggja rækt við menningaruppeldi barna og stuðla að þátttöku barna og ungmenna í menningarstarfi með fjölbreyttu framboði af menningu.
- Vinna með öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu við að koma menningarstarfsemi í Mosfellsbæ á framfæri í markaðssamstarfi sveitarfélaganna.
- Efla og styðja við menningartengda ferðaþjónustu með þátttöku í samstarfsverkefnum innan bæjarins og utan hans.
- Leita leiða til að mynda tengsl og sækja fjármagn í opinbera sjóði erlendis frá.
4. Segjum sögur
Náttúran og sagan
Mosfellsbær er sveit í borg. Sál og sögu bæjarins er haldið á lofti með þeirri sérstöðu sem bærinn býr yfir og hefur skapað sér. Tengslin við náttúruna og söguna eru órjúfanlegur hluti af menningarlífi bæjarins í gegnum söfn og aðra menningartengda viðburði.
Aðgerðir
- Boðið verði upp á einfalda viðburði tengda sögu bæjarins með hugmyndir bæjarbúa að leiðarljósi. Um gæti verið að ræða þætti eins og fræðslugöngur, skáldagöngur, listaverkagöngur, fuglaskoðun og stjörnuskoðun.
- Hluti af appi Mosfellsbæjar verði tengt menningarviðburðum og menningarstarfsemi.
- Mosfellsbær haldi á lofti framlagi Halldórs Laxness til bókmennta og tengi það annarri menningarstarfsemi.
- Styðja við og kynna menningu og menningartengda ferðaþjónustu sem er í boði í Mosfellsdal.
- Sýnileiki safneignar Héraðsskjalasafns Mosfellsbæjar verði aukinn með því að flytja starfsemina nær Bókasafni Mosfellsbæjar. Sérstök áhersla verði lögð á myndasafn og stafræna miðlun þess.
- Kannað verði hvort fýsilegt sé að koma á laggirnar, í samvinnu við áhugasama aðila og safnara, vísi að söfnum sem gerðu skil sögu ullar og hernáms í því sem áður var Mosfellssveit.
Ítarefni
Þau undirmarkmið heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna sem horft er til í þeim markmiðum sem sett eru fram í menningarstefnu Mosfellsbæjar.