Kjarni, Þverholti 2
270 Mosfellsbæ
Hlutverk
Héraðsskjalasafn Mosfellsbæjar er sjálfstæð skjalavörslustofnun. Safnið starfar samkvæmt Lögum um opinber skjalasöfn nr. 77/2014, Reglugerð um héraðsskjalasöfn nr. 283/1994 og Samþykkt fyrir héraðsskjalasafnið, undirritað af Ólafi Ásgeirssyni þáverandi þjóðskjalaverði. Umdæmi safnsins er Mosfellsbær.
Héraðsskjalasafnið annast söfnun, innheimtu og varðveislu skjala frá afhendingarskyldum aðilum, þ.e. stofnunum Mosfellsbæjar og félögum sem njóta verulegra opinberra styrkja, skrásetja þau og gera aðgengileg notendum og á allan hátt leitast við að efla þekkingu á sögu umdæmisins.
Héraðsskjalasafnið leitast einnig við að fá til varðveislu skjöl einstaklinga, félagasamtaka, fyrirtækja og annarra er gildi þykja hafa fyrir sögu umdæmis þess eða íbúa.
Héraðsskjalasafnið skal leitast við að eignast eftirtökur af öðrum skjölum sem varða héraðið og ekki fást í frumriti. Jafnframt safnar Héraðsskjalasafnið markverðum skjölum einstaklinga og félagasamtaka sem ekki eru skilaskyld til safnsins, auk ljósmynda, hljóð- og myndbanda sem varða sögu héraðsins eða íbúa þess á einhvern hátt.
Lestrarsalur
Lestrarsalur er staðsettur á héraðsskjalasafninu í kjallara Kjarnans í Þverholti 2. Aðstaða er fyrir 4-6 á lessal.
Handbókasafn
Handbókasafn er til nota á staðnum í boði fyrir gesti safnsins.
Að jafnaði gildir sú regla að hverjum þeim, sem þess óskar, er heimill aðgangur að skjölum í vörslu Héraðsskjalasafnsins. Á þessu eru nokkrar undantekningar sem flestar lúta að persónuvernd einstaklinga. Þannig eru þau skjöl, sem innihalda upplýsingar um persónulega hagi einstaklinga, ekki opin öðrum en þeim, sem málið varðar, fyrr en að 80 árum liðnum frá myndun þeirra.
Skjalavarsla
Varðveisla skjala opinberra aðila er lögbundin og eyðing þeirra óheimil nema með sérstakri heimild þar um. Í skjölum opinberra aðila eru upplýsingar um rekstur og stöðu viðkomandi embættis eða stofnunar, alla ákvarðanatöku og hvernig staðið er að henni, sem og um réttindi og skyldur einstaklinga og lögaðila.
Skjalavarsla felur í sér skipulögð vinnubrögð við daglega meðferð og varðveislu skjala, í hvaða formi sem þau eru, sem til verða hjá embættum og stofnunum.