Ævintýragarðurinn er staðsettur í Ullarnesbrekkum, á milli Varmár og Leirvogstungu. Næg bílastæði eru við íþróttamiðstöðina að Varmá en innkoma er að garðinum sunnanverðum frá íþróttasvæðinu.
Í Ævintýragarðinum er að finna spennandi klifur- og þrautatæki ásamt veglegum hlaupaketti sem hægt er að sveifla sér í. Einnig er klifurnet í miðjum garðinum, nálægt íþróttavellinum, sem er vinsælt meðal yngri kynslóðarinnar.
Haustið 2013 voru sett upp handsmíðuð leiktæki sem Ásgarður handverkstæði gaf Mosfellsbæ í tilefni 20 ára afmælis bæjarins.
Mikil uppbygging stíga og gróðurs hefur átt sér stað og liggur malbikaður og upplýstur aðalstígur í gegnum allan garðinn, frá íþróttasvæðinu við Varmá að Leirvogstungu, með rósatorgi í miðjunni og göngubrúm við hvorn enda.
Út frá aðalstígnum liggur minni malarstígur, svonefndur ætistígur, sem liggur meðfram hinum ýmsu ætiplöntum sem plantað hefur verið meðfram honum, m.a. fjölmörgum tegundum berjarunna.
Fræðsluskilti um Ævintýragarðinn stendur við innkomuna að garðinum að sunnanverðu frá íþróttasvæðinu við Varmá. Fræðsluskiltið sýnir verðlaunatillögu Landmótunar um skipulag Ævintýragarðsins og hvernig uppbygging er fyrirhuguð í garðinum á næstu misserum.
Frisbígolfvöllur
Í Ævintýragarðinum er níu holu frisbígolfvöllur. Völlurinn er fjölbreyttur og býður upp á mishæðir og gróður. Tveir teigar eru á vellinum, rauðir og hvítir.
Frisbígolf er leikið á svipaðan hátt og venjulegt golf en í stað golfkylfa og golfbolta nota leikmenn frisbídiska. Reynt er að klára hverja holu í sem fæstum köstum.
Hundagerði
Í fallegu umhverfi Ævintýragarðsins er 1500m2 hundagerði þar sem hundaeigendur geta sleppt sínum hundum lausum undir eftirliti. Aðgengi að svæðinu er gott með göngustíg milli íþróttasvæðis við Varmá og Leirvogstungu.
Hundaeigendur eru hvattir til að ganga vel um svæðið og hreinsa ávallt upp eftir hundinn. Á staðnum er bekkur, ruslatunna og sérstök ruslatunna fyrir hundaskít.
Hundagerðið er skemmtileg viðbót við útivistarmöguleika Ævintýragarðsins.