Stefnan er mótuð í kjölfar íbúafundar sem haldinn var þann 22. september 2020. Þátttakendur voru um 40 auk starfsmanna. Vegna COVID-19 takmarkana var fundurinn haldinn sem fjarfundur.
Íbúafundurinn hófst með ávarpi bæjarstjóra, Haraldar Sverrissonar. Í kjölfar þess var birt viðtal við Einar Scheving sem Elva Hjálmarsdóttir tók. Því næst var komið að vinnustofu með málefnahópum sem Sævar Kristinsson frá KPMG stýrði. Að lokum fjallaði Rúnar Bragi Guðlaugsson, formaður fjölskyldunefndar um vegferðina framundan.
Á íbúafundinum var velt upp hvernig megináherslum Mosfellsbæjar í málefnum fatlaðs fólks ætti að vera háttað á komandi árum. Var þar unnið með fjórar megináherslur:
- Atvinna fatlaðs fólks
- Þjónusta sveitarfélagsins til fatlaðs fólks
- Sjálfstætt líf og búseta
- Þjónusta við fötluð börn og ungmenni
Auk þess var opið fyrir önnur málefni sem þátttakendur vildu koma á framfæri.
Fjölskyldunefnd fer með málaflokk fatlaðs fólks samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og lögum um þjónustu við fatlað fólk. Fjölskyldunefnd vann með stefnuna í drögum ásamt ráðgjafa, notendaráði fatlaðs fólks í Mosfellsbæ og Kjósarhreppi auk starfsfólks fjölskyldusviðs.
Stefna í málefnum fatlaðs fólks er gerð með tilvísun til stefnumótunar Mosfellsbæjar sem unnin var árið 2017 og gildir til ársins 2027.
Framtíðarsýn
Mosfellsbær er fjölskylduvænt, heilsueflandi og framsækið bæjarfélag sem setur umhverfið í öndvegi og hefur þarfir og velferð íbúa að leiðarljósi.
Meginhluti starfsemi sveitarfélagsins hverfist um þarfir og velferð íbúa og á það við um öll svið mannlífsins í Mosfellsbæ.
Áhersluflokkar
Áhersluflokkar í stefnu Mosfellsbæjar eru rétt þjónusta, flott fólk og stolt samfélag. Undir hverjum áhersluflokki eru þrjár áherslur.
Þannig vill Mosfellsbær vera persónulegur, skilvirkur og snjall þegar kemur að því að veita rétta þjónustu. Í áhersluflokknum flott fólk vill Mosfellsbær vera samstarfsfús, framsækinn og meðvitaður. Þegar kemur að stoltu samfélagi vill Mosfellsbær vera eftirsóttur, heilbrigður og sjálfbær.
Á sviði málefna fatlaðs fólks er mikilvægt að Mosfellsbær sjái fyrir og mæti þörfum íbúa fyrir þjónustu og styðji íbúa þegar við á auk þess að eiga skilvirkt samtal við íbúa um þróun starfseminnar. Mosfellsbær státar af góðu starfsfólki sem leitar eftir samstarfi við íbúa og er meðvitaður um mikilvægi þess að íbúar nái að blómstra hver í sínu. Þá leitast bærinn við að vera eftirsóttur til búsetu, stuðla að heilbrigði íbúa og gæta að umhverfinu.
Loks tekur stefna í málefnum fatlaðs fólks mið af gildum bæjarins: Virðing, jákvæðni, framsækni og umhyggja. Þannig er virðing borin fyrir fjölbreytileika samfélagsins, ólíkum þörfum íbúa og jákvæðni einkennir viðhorf til þróunar og umbreytingar á þjónustu í málaflokknum.
Rétt þjónusta
- Persónulegur
- Skilvirkur
- Snjall
Flott fólk
- Samstarfsfús
- Framsækinn
- Meðvitaður
Stolt samfélag
- Eftirsóttur
- Heilbrigður
- Sjálfbær
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna
Við mótun stefnu í málefnum fatlaðs fólks voru heimsmarkmið
Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun höfð til hliðsjónar og þau verkefni sem falla undir þau.
Heimsmarkmiðin eru 17 talsins með 169 undirmarkmið. Aðildarríki Sameinuðu þjóðanna hafa skuldbundið sig við að vinna skipulega að innleiðingu markmiðanna. Aðalinntak heimsmarkmiðanna er að engir einstaklingar eða hópar verði skildir eftir. Í því felst að markmiðin ná til allra samfélagshópa, á öllum aldri.
Heimsmarkmiðin nálgast málefni fatlaðs fólks með margvíslegum hætti en þar ber hæst heimsmarkmið nr. 10 – aukinn jöfnuður, sem snertir alla meginþætti stefnunnar. Má sjá tilvísun í heimsmarkmiðin við sérhvern málaflokk stefnunnar.
Leiðarljós
Leiðarljós Mosfellsbæjar í málaflokki fatlaðs fólks eru þau réttindi sem samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks kveður á um. Í 3. grein samningsins er fjallað um þær meginreglur sem Mosfellsbær leitast við að fylgja. Hugtök greinarinnar eins og virðing, virk þátttaka í samfélaginu, jöfn tækifæri og jafnrétti, aðgengi og bann við mismunun, falla vel að áhersluþáttum stefnunnar.
Mosfellsbær tekur einnig mið af Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þegar kemur að þjónustu við fötluð börn. Þar fjallar grein 23 um réttindi fatlaðra barna til þess að lifa í samfélagi til jafns við önnur ófötluð börn og að þau geti tekið þátt í samfélaginu á virkan hátt. Grein 2 í barnasáttmálanum leggur einnig áherslu á að öll börn eru jöfn og eiga jafnan rétt til að njóta þeirra réttinda sem sáttmálinn fjallar um.
Mosfellsbær leggur einnig áherslu á að sú grunnþjónusta sem öllum íbúum sveitarfélagsins er tryggð í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga standi fötluðu fólki til boða til jafns við aðra íbúa sveitarfélagsins enda er veiting grunnþjónustu til jafns við aðra til þess gerð að auka jöfnuð í samfélaginu. Til viðbótar við grunnþjónustu stýra lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir einnig starfi Mosfellsbæjar gagnvart þjónustu við fatlað fólk.
Fimm megin þjónustuþættir
Í stefnu Mosfellsbæjar í málefnum fatlaðs fólks er fjallað um fimm megin þjónustuþætti.
1. Þjónusta við fötluð börn og ungmenni
Markmið
- Mosfellsbær vill standa vörð um rétt fatlaðra barna og ungmenna til að njóta þjónustu til jafns við önnur börn og ungmenni.
- Mikilvægt er að tryggja upplýsingastreymi til aðstandenda fatlaðra barna og ungmenna um réttindi þeirra og þjónustu bæjarins.
Aðgerðir
- Sveitarfélagið leggur áherslu á að meta þarfir fatlaðra barna til stuðnings út frá einstaklingsbundnu þjónustumati hvers og eins.
- Sveitarfélagið bjóði upp á samþætta frístund fyrir öll börn út frá þörfum hvers og eins.
- Boðið verði upp á lengda viðveru fyrir fatlaða nemendur þar til framhaldsskóla lýkur.
- Á tímabilinu skoði Mosfellsbær hvort grundvöllur sé fyrir að opna skammtímadvöl í sveitarfélaginu fyrir fötluð börn og ungmenni.
- Gætt verði sérstaklega að samfellu í þjónustu þegar barn nær 18 ára aldri.
- Stutt verði við fötluð börn og ungmenni til að sækja almennt íþrótta- og tómstundastarf innan sveitarfélagsins.
2. Þjónusta sveitarfélagsins við fatlað fólk
Markmið
- Þjónusta Mosfellsbæjar við fatlað fólk miðast að því að tryggja og efla sjálfstæði þeirra sem einstaklinga.
- Áhersla verður lögð á félagslegan þátt þjónustunnar og að gera fötluðu fólki kleift að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Þannig fái þeir notið lífsgæða og upplifunar á eigin forsendum.
- Þjónusta Mosfellsbæjar við fatlað fólk verði áfram aðgengileg og fjölbreytt en sé jafnframt í stöðugri þróun og umbótum.
- Sveitarfélagið stuðli að virku notendasamráði.
Aðgerðir
- Þjónustan við fatlað fólk verði stöðug og samfelld, óháð aldri.
- Fatlað fólk verði hvatt til og gert kleift að stunda félagsstarf til að tryggja samveru við fólk með svipaðar þarfir og áhugamál.
- Stuðlað verði að auknu framboði félags-, íþrótta- og tómstundastarfs.
- Sveitarfélagið leggur sig fram um að eiga í góðu samstarfi við þær stofnanir sem bjóða upp á nám fyrir fatlað fólk og sé upplýst um þær
námsleiðir sem standi til boða hverju sinni. - Tryggja gæði þjónustunnar ekki hvað síst með ráðgjöf og handleiðslu fyrir starfsfólk.
- Tryggt verði gott samstarf við stuðnings- og ráðgjafateymi fyrir fatlað fólk í samstarfi við heilsugæsluna.
- Sveitarfélagið nýti samráðsvettvang notendaráðs fatlaðs fólks til að vinna að stöðugum umbótum á þjónustunni.
- Sveitarfélagið nýti sér niðurstöður þjónustukannana varðandi málaflokkinn.
3. Aðgengi
Markmið
Mosfellsbær leggur áherslu á að bæta aðgengi fatlaðs fólks, hvort sem um er að ræða rafrænt aðgengi eða aðgengi að stígum og mannvirkjum sem lið í að auka jafnræði milli allra bæjarbúa.
Aðgerðir
- Upplýsingar um þjónustu sveitarfélagsins við fatlað fólk verði aðgengilegar á heimasíðu bæjarins og áhersla lögð á að þær séu einnig settar fram á auðlesnu máli.
- Lögð verði áhersla á að veita ráðgjöf til forráðamanna fatlaðra barna, fatlaðs fólks eða aðstandenda um þau réttindi og þjónustu sem viðkomandi á möguleika á að njóta, hvort sem er innan eða utan sveitarfélagsins.
- Við þróun stígakerfis bæjarins og innviða verði tekið mið af þörfum fatlaðs fólks.
- Komið verði á fót ábendingarhnappi þar sem fatlað fólk getur sett fram ábendingar um það sem betur má fara í sveitarfélaginu.
4. Atvinnumál
Markmið
- Með fjölbreyttari atvinnumöguleikum sem henta fötluðu fólki eykst sjálfstæði þeirra og félagsleg þátttaka í bæjarlífinu.
- Fyrirtæki og stofnanir bæjarins séu upplýst um ávinning þess að bjóða störf til fatlaðs fólks.
Aðgerðir
- Stofnanir bæjarins leitist við að fjölga störfum fyrir fatlað fólk innan þeirra vinnustaða, sem hluti af samfélagslegri ábyrgð sveitarfélagsins.
- Sveitarfélagið leitist við að vera í samstarfi við Vinnumálastofnun um að stofnunin fræði atvinnurekendur í Mosfellsbæ um jákvæða þætti þess að hafa fatlað fólk í vinnu og þannig sé stuðlað að fjölgun atvinnutækifæra fyrir fatlað fólk.
- Sveitarfélagið leitist við að fjölga störfum í vinnu, virkni og hæfingu fyrir þá sem það þurfa og kjósa.
5. Sjálfstætt líf og búseta
Markmið
- Fjölgun búsetukosta fatlaðs fólks ásamt þjónustu á heimili þess í takt við þarfir, geri fötluðum einstaklingum fært að lifa sjálfstæðu lífi og njóta þess.
- Sveitarfélagið leggi áherslu á fjölbreytta, einstaklingsmiðaða þjónustu sem tekur mið af þörfum og óskum hvers og eins sem miðar út frá því að einstaklingurinn geti lifað sjálfstæðu og innihaldsríku lífi.
Aðgerðir
- Aukið verði framboð búsetuúrræða á hverjum tíma í takt við óskir og þarfir
þeirra sem það kjósa. - Þjónusta í sjálfstæðri búsetu verði efld með aukinni þjónustu utan kjarna og samhliða lögð áhersla á fjölgun leiguhúsnæðis í eigu sveitarfélagsins.
- Unnið verði í því að bjóða þeim íbúum í sveitarfélaginu sem búa á herbergjasambýlum nýtt búsetuform, í takt við þarfir og óskir hvers og eins.
- Þjónusta skal veitt út frá forsendum hvers og eins og byggð á hans óskum, eins og frekast er unnt.
- Stutt verði við þá starfsemi í búsetukjörnum sem efli fólk til félagslegra samskipta við aðra og sporni þannig við einangrun.
- Settar verði kröfulýsingar í allri sértækri búsetu sem og öðrum þjónustutilboðum sem sveitarfélagið rekur í málaflokki fatlaðs fólks sem hluti af gæðaeftirliti.