Vorið kemur, vertu viss!
Framundan er náttúrulegur tími framkvæmdagleði og fegrunar við húsnæði og lóðir í bænum. Þá er mikilvægt að athuga fyrirfram hvort fyrirhugaðar framkvæmdirnar séu háðar byggingarleyfi, samþykki sveitarfélagsins, aðkomu nágranna eða þarfnist frekara rýni skipulags. Það gæti þurft að skila inn hönnunargögnum, láta deiliskipuleggja lóð eða fara með áætlanir og framkvæmdir í grenndarkynningu. Þetta getur átt við um smáhýsi, viðbyggingar, skúra, bílastæði, sorpgeymslur, girðingar, skjólveggi, palla, gróður eða frágang á lóðum og lóðarmörkum við bæjarland eða nágrannalóðir.
Hafðu samband á bygg@mos.is.
Sækja þarf um byggingarleyfi fyrir:
- Skjólveggjum og girðingum sem eru hærri en 1,80 m yfir landhæð.
- Veggjum og girðingum við lóðarmörk að opnum svæðum, stígum eða götum (í bæjarlandi) sem eru hærri en sem nemur fjarðlægð veggs eða girðingar frá lóðarmörkum.
- Steyptum veggjum og stoðveggjum á lóðum og lóðamörkum.
Undanþegið byggingarleyfi:
- Skjólveggir og girðingar sem eru allt að 1,8 m að hæð og eru ekki nær lóðarmörkum en 1,8 m.
- Girðingar sem eru nær lóðarmörkum en 1,8 m og eru ekki hærri en sem nemur fjarlægðinni að lóðarmörkum þ.e. fjarlægðin frá lóðarmörkum endurspeglar hæðina.
- Skjólveggir sem eru allt að 2,0 m langir og 2,5 m háir og áfastir við hús í a.m.k. 1,8 m fjarlægð frá lóðarmörkum.
- Lóðarhöfum samliggjandi lóða er heimilt að reisa girðingar og skjólveggi allt að 1,8 m að hæð á lóðarmörkum án byggingarleyfis, en með skriflegu samþykki hlutaðeigandi aðila sem skila þarf til byggingafulltrúa.
- Smáhýsi sem er að hámarki 15m² og mesta hæð þaks er 2,5 m mælt frá yfirborði jarðvegs er undanþegið byggingarleyfi. Sé smáhýsið minna en 3,0 m frá aðliggjandi lóð þarf samþykki eigenda aðliggjandi lóðar. Athugið að slík smáhýsi eru ekki ætluð til gistingar eða búsetu. Enda sé framkvæmdin í samræmi við gildandi deiliskipulag.
Hafa í huga:
- Alltaf skal leita samþykkis aðliggjandi lóðarhafa, vegna framkvæmda á lóðamörkum, áður en framkvæmd hefst.
- Það er á ábyrgð lóðarhafa að veggir, grindverk og gróður, sem snúa út að götum og gangstéttum, hindri ekki sjónlínur akandi, hjólandi og gangandi vegfarenda.
- Gróður og frágangur girðinga skal valinn með sjónlínur í huga. Í
einhverjum tilfellum getur þurft að staðsetja girðingu og/eða gróður innar á lóðina til að sjónlínur séu í lagi. - Gróður á lóðarmörkum má ekki vaxa yfir gönguleiðir, umferðarskilti og ljósastaura.