Frístunda- og tómstundastarf fyrir börn og ungmenni á aldrinum 10 til 25 ára.
Félagsmiðstöðin Ból
Boðið er upp á uppbyggilegt frístundastarf fyrir 10-16 ára börn og unglinga. Markmiðið er að stuðla að jákvæðum og þroskandi samskiptum meðal barna og unglinga og örva félagsþroska þeirra og lýðræðisvitund. Starfsemi Bólsins er skipulögð að miklu leyti í samráði við unglingana.
Boðið er upp á fjölbreytta dagskrá ásamt klúbbastarfsemi þar sem flestir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Öll eiga að finna að þau séu velkomin og talað sé við þau á jafnréttisgrundvelli. Bólið gegnir einnig mikilvægu forvarnarhlutverki.
Lögð er áhersla á góða samvinnu við grunnskóla Mosfellsbæjar og boðið er upp á valfög í þeim skólum sem eru með unglingastig.
Þau ungmenni sem hafa áhuga á tónlist eru hvött til að kynna sér aðstöðuna í Kjallaranum.
Kjallarinn
Kjallarinn er ókeypis tónlistaraðstaða fyrir ungmenni í Mosfellsbæ 25 ára og yngri. Í Kjallaranum er bæði stúdíórými og hljómsveitarrými. Þessi aðstaða opnaði á haustönn 2019 með nýjum og endurbættum græjum. Lionsklúbbur Mosfellsbæjar styrkti félagsmiðstöðina til tækjakaupa. Kjallarinn er staðsettur á neðri hæð Bólsins við Skólabraut.
Í hljómsveitarrýminu eru helstu hljóðfæri, magnarar og hljóðnemar sem þarf ásamt hljóðkerfi sem geta nýst hvort sem er við æfingar eða upptökur.
Í stúdíórýminu er tölva með helstu hljóðvinnsluforritum ásamt búnaði svo að rýmið hentar vel bæði til sköpunar og úrvinnslu tónlistar.
Ungmennahúsið Mosinn
Ungmennahúsið Mosinn opnaði formlega haustið 2017 og er vettvangur fyrir ungt fólk á aldrinum 16-25. Mosinn er til húsa í Félagsmiðstöðinni Ból við Skólabraut.
Þátttaka í skipulögðu tómstundastarfi í öruggu umhverfi í umsjá fagfólks hefur mikið forvarnargildi. Lagt er upp með að bjóða upp á heilbrigðan og vímuefnalausan valkost til afþreyingar, leiðbeina og opna á tækifæri fyrir ungt fólk í Mosfellsbæ. Sköpun, félagsleg virkni og frjáls leikur hefur afþreyingargildi en hefur að sama skapi bæði forvarnar- og menntunargildi.
Markmið með starfinu er að gefa ungu fólki tækifæri á að koma sínum hugmyndum á framfæri og spreyta sig á að koma þeim í framkvæmd. Þetta hefur tekist ótrúlega vel. Mikilvægt er fyrir ungt fólk að geta átt stundir með jafnöldrum og fá tækifæri, tíma og aðstöðu til að geta sinnt áhugamálum sínum . Annað markmið er að ungt fólk geti fengist við fjölbreytt og skapandi verkefni þar sem áhersla er lögð á virkni, frumkvæði og sköpun. Hér er ekki um formlegt nám að ræða en lögð er áhersla á reynslunám og óformlega menntun.