Mál númer 202401557
- 8. maí 2024
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar #850
Síðari umræða um ársreikning Mosfellsbæjar 2023.
Forseti bar upp ársreikning bæjarins og stofnana hans í einu lagi.
Helstu niðurstöður eru:
Rekstrarreikningur A og B hluta:
Rekstrartekjur: 20.305 m.kr.
Laun og launatengd gjöld 9.466 m.kr.
Hækkun lífeyrisskuldbindingar 433 m.kr.
Annar rekstrarkostnaður 7.721 m.kr.
Afskriftir 590 m.kr.
Fjármagnsgjöld 1.733 m.kr.
Tekjuskattur 20 m.kr.
Rekstrarniðurstaða jákvæð um 341 m.kr.
Veltufé frá rekstri 1.935 m.kr.Efnahagsreikningur A og B hluta:
Eignir alls: 31.983 m.kr.
Skuldir og skuldbindingar: 24.226 m.kr.
Eigið fé: 7.757m.kr.***
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða á 850. fundi við síðari umræðu ársreikning Mosfellsbæjar fyrir árið 2023 samkvæmt 61. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 73. gr. samþykktar um stjórn Mosfellsbæjar, sbr. og 2. tölul. 1. mgr. 18. gr. laganna og 2. tölul. 15. gr. samþykktarinnar.Samþykktinni til staðfestingar er ársreikningurinn undirritaður af viðstöddum bæjarfulltrúum.
***
Fundarhlé hófst kl. 17:30. Fundur hófst aftur kl. 17:49.***
Bókun B lista Framsóknarflokks, C lista Viðreisnar og S lista Samfylkingar:
Ársreikningur Mosfellsbæjar 2023 liggur nú fyrir en um er að ræða ársreikning fyrsta heila árs meirihluta B, S og C lista. Það er verulega ánægjulegt að fyrsta heila ársreikningsári okkar sé skilað með rekstrarafgangi, það er ekki sjálfsagt í því rekstrarumhverfi sem sveitarfélög búa við um þessar mundir. Niðurstaðan sýnir sterkan rekstur og vandaða áætlanagerð þar sem sjálfbærni, aðhald og metnaðarfull þjónusta eru höfð að leiðarljósi.Rekstrarniðurstaða ársins er jákvæð um 341 milljón króna sem er ánægjulegur viðsnúningur frá fyrra ári. Allar helstu lykiltölur eru vel ásættanlegar. Veltufé frá rekstri er 1,9 milljarðar eða um 9,5% af tekjum. Skuldaviðmið er nú 94,5% en var 104% árið 2022.
Verðbólgan hefur gríðarleg áhrif á rekstur bæjarins sem sést í fjármagnsgjöldum sem urðu ríflega 1,7 milljarður eða um 400 milljónum hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Verðbólguspáin sem sveitarfélögin miðuðu við var 5,6% en verðbólgan varð 7,7%.
Launakostnaður jókst talsvert sem og fjöldi stöðugilda en hvort tveggja skýrist að stærstum hluta af yfirtöku bæjarins á rekstri Skálatúns um mitt ár 2023 og af hækkun launavísitölu og kjarasamningum.
Umsvif bæjarfélagsins voru talsverð, m.a. var unnið að viðgerðum og endurbótum Kvíslarskóla, leikskólabyggingu í Helgafellshverfi, gervigrasvelli, endurbótum leikskólalóða og kostnaðarsamri gatnagerð.
Mosfellingum fjölgaði um 2,4% frá fyrra ári og voru ríflega 13.400 í árslok 2023. Stækkandi sveitarfélag kallar á uppbyggingu innviða og mikilvægt er að sinna þeirri uppbyggingu jafnt og þétt í takti við íbúaþróun. Í verðbólguumhverfi þarf að vanda hvert skref svo samfélag okkar þróist áfram með hagkvæmni og sjálfbærni að leiðarljósi.Bæjarfulltrúar B, S og C lista þakka starfsfólki Mosfellsbæjar, bæjarfulltrúum og nefndarfólki fyrir góð störf í þágu bæjarins og starfsfólki fjármála- og áhættustýringarsviðs og endurskoðendum mikla og góða vinnu við gerð ársreiknings.
**
Bókun L lista Vina Mosfellsbæjar:
Bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar þakkar fyrir góðan undirbúning og greinargóð svör við ársreikningi fyrir árið 2023. Í ársreikningnum koma fram jákvæð merki um auknar tekjur og meira jafnvægi í rekstri. Bærinn okkar er að stækka í erfiðu rekstrarumhverfi. Fram undan er enn meiri uppbygging í sveitarfélaginu sem knýr á um umtalsverða styrkingu á innviðum. Því er mikilvægt að stíga næstu skref af varkárni svo við getum staðið undir þeim fjárfestingum sem fram undan eru.**
Bókun D lista Sjálfstæðisflokks:
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka starfsfólki Mosfellsbæjar og endurskoðendum góða vinnu og greinargóðar útskýringar á ársreikningi 2023. Sjá má á ársreikningnum að rekstrarumhverfið hefur ekki verið hagstætt m.a. vegna þrálátrar verðbólgu og hárra vaxta. Jákvæð rekstrarniðurstaða er að mestu vegna hækkunar skatta, gjalda og álögum á íbúa og fyrirtæki í Mosfellsbæ, einskiptistekna af sölu byggingaréttar og hærri tekna frá Jöfnunarsjóði. Í ljósi núverandi efnahagsástands er mikilvægt að huga vel að rekstrinum og forgangsröðun framkvæmda og þjónustu. - 24. apríl 2024
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar #849
Ársreikningur Mosfellsbæjar vegna 2023 lagður fyrir bæjarráð til undirritunar og tilvísunar til endurskoðunar og staðfestingar bæjarstjórnar. Jafnframt er ársreikningur Hitaveitu Mosfellsbæjar 2023 lagður fram til staðfestingar.
Afgreiðsla 1621. fundar bæjarráðs samþykkt á 849. fundi bæjarstjórnar með 11 atkvæðum.
- 24. apríl 2024
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar #849
Ársreikningur Mosfellsbæjar 2023 lagður fram til fyrri umræðu.
Ársreikningur Mosfellsbæjar 2023 lagður fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn. Á fundinn undir þessum dagskrárlið mætti Lilja Dögg Karlsdóttir endurskoðandi.
Bæjarstjóri hóf umræðuna, ræddi niðurstöður ársreiknings og þakkaði endurskoðanda og starfsfólki fyrir vel unnin störf í tengslum við gerð ársreiknings. Þá fór Lilja Dögg endurskoðandi yfir helstu efnisatriði í drögum ársreiknings og endurskoðunarskýrslu vegna ársins 2023. Í kjölfarið fóru fram umræður og þökkuðu aðrir sem til máls tóku einnig endurskoðanda og starfsmönnum fyrir vel unnin störf í tengslum við gerð ársreiknings.
***
Bæjarstjórn samþykkti með 11 atkvæðum að vísa ársreikningi Mosfellsbæjar 2023 til síðari umræðu á næsta fundi bæjarstjórnar þann 8. maí 2024.- FylgiskjalÁrsreikningur 2023 Mosfellsbær - eftir bæjarráð 15.04.2024.pdfFylgiskjalSundurliðun ársreiknings 2023 Mosfellsbær.pdfFylgiskjalÁrsreikningur 2023 - kynning bæjarstjórn 24.04.2024.pdf
- 15. apríl 2024
Bæjarráð Mosfellsbæjar #1621
Ársreikningur Mosfellsbæjar vegna 2023 lagður fyrir bæjarráð til undirritunar og tilvísunar til endurskoðunar og staðfestingar bæjarstjórnar. Jafnframt er ársreikningur Hitaveitu Mosfellsbæjar 2023 lagður fram til staðfestingar.
Bæjarráð samþykkir með fimm atkvæðum framlagðan ársreikning Mosfellsbæjar vegna ársins 2023 með áritun sinni og vísar honum til endurskoðunar og afgreiðslu bæjarstjórnar, sbr. 3. mgr. 61. gr. laga sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.
Fyrri umræða bæjarstjórnar er fyrirhuguð þann 24. apríl 2024 og síðari umræða þann 8. maí 2024.
Bæjarráð samþykkir jafnframt með fimm atkvæðum ársreikning Hitaveitu Mosfellsbæjar vegna ársins 2023.
- 21. febrúar 2024
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar #845
Kynning KPMG á endurskoðun ársreiknings Mosfellsbæjar fyrir árið 2023.
Afgreiðsla 1612. fundar bæjarráðs samþykkt á 845. fundi bæjarstjórnar með 11 atkvæðum.
- 8. febrúar 2024
Bæjarráð Mosfellsbæjar #1612
Kynning KPMG á endurskoðun ársreiknings Mosfellsbæjar fyrir árið 2023.
Lagt fram.