Mál númer 201502159
- 20. maí 2015
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar #650
Á 649. fundi bæjarstjórnar kom fram tillaga frá S-lista, þess efnis að allar ábendingar endurskoðanda bæjarins, sem berast bæjarstjóra og fjalla um málefni tengd innra eftirliti, fjárhagskerfi og stjórnsýslu sveitarfélagsins, verði lagðar fyrir bæjarráð. Jafnframt kom fram tillaga frá M-lista um að þess yrði gætt við endurskoðun á fjárhagsáætlun 2015-2018 að niðurskurður kæmi sem minnst niður á skólunum. Var tillögum þessum vísað til bæjarráðs til umfjöllunar.
Tillaga M-lista Íbúahreyfingarinnar:$line$Bæjarfulltrúi M-lista gerir að tillögu sinni að reynt verði með öllum tiltækum ráðum að verja lögbundna grunnþjónustu Mosfellsbæjar fyrir niðurskurði, þá sérstaklega skóla og félagsþjónustu. Einnig verði verkefni sett í forgang sem lúta að umhirðu og viðhaldi á göngustígum á útisvæðum í byggð, í stað þess að leggja fé í framkvæmdir sem þjóna sérhagsmunum eða teljast ekki til þeirra verkefna sveitafélagsins sem þjóna skýrum almannahagsmunum.$line$Íbúahreyfingin óskar eftir að tillögunni verði vísað til nefndar um endurskoðun fjárhagsáætlunar 2015.$line$$line$Tillaga M-lista Íbúahreyfingarinnar:$line$Forsenda fjárhagsáætlunargerðar er að fyrir liggi langtímaáætlanir í fjárfrekum málaflokkum. Slík áætlun hefur ekki verið gerð um uppbyggingu íþrótta- og tómstundamannvirkja og það þrátt fyrir ört vaxandi bæjarfélag og áætlaða fjölgun íbúa um meira en 10% á næstu 4 árum. Íbúahreyfingin óskaði eftir slíkri áætlun í nóvember sl. og var tjáð að hún væri í undirbúningi. Síðan er liðið meira en hálft ár og fjárhagsáætlun næsta árs að fara á skrið. Það er því löngu tímabært að langtímaáætlun um uppbyggingu íþrótta- og tómstundamannvirkja líti dagsins ljós.$line$Íbúahreyfingin óskar eftir að tillögunni verði vísað til íþrótta- og tómstundanefndar og fræðslusviðs.$line$$line$Dagsskrártillaga Haraldar Sverrissonar, fulltrúa D-lista:$line$Lagt er til að báðum tillögum fulltrúa M-lista verði vísað frá. $line$$line$Tillagan er samþykkt með sex atkvæðum gegn einu atkvæði fulltrúa M-lista. Fulltrúar S-lista sitja hjá. $line$$line$Afgreiðsla 1212. fundar bæjarráðs samþykkt á 650. fundi bæjarstjórnar með átta atkvæðum gegn einu atkvæði fulltrúa M-lista.
- 13. maí 2015
Bæjarráð Mosfellsbæjar #1212
Á 649. fundi bæjarstjórnar kom fram tillaga frá S-lista, þess efnis að allar ábendingar endurskoðanda bæjarins, sem berast bæjarstjóra og fjalla um málefni tengd innra eftirliti, fjárhagskerfi og stjórnsýslu sveitarfélagsins, verði lagðar fyrir bæjarráð. Jafnframt kom fram tillaga frá M-lista um að þess yrði gætt við endurskoðun á fjárhagsáætlun 2015-2018 að niðurskurður kæmi sem minnst niður á skólunum. Var tillögum þessum vísað til bæjarráðs til umfjöllunar.
Pétur J. Lockton (PJL), fjármálastjóri, mætir á fundinn undir þessum lið.
Bæjarstjóri og fjármálastjóri ræddu ábendingar frá endurskoðendum bæjarins í tengslum við endurskoðun ársreiknings 2014.
Samþykkt með þremur atkvæðum að vísa tillögu M-lista til vinnu við yfirferð fjárhagsáætlunar 2015.
- 6. maí 2015
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar #649
Ársreikningur Mosfellsbæjar lagður fyrir bæjarstjórn til seinni umræðu.
Á fundinn undir þessum dagskrárlið eru mætt Haraldur Örn Reynisson (HÖR), endurskoðandi Mosfellsbæjar, Pétur J. Lockton (PJL) fjármálastjóri, Jóhanna B. Hansen (JBH) framkvæmdastjóri umhverfissviðs, Gunnhildur Sæmundsdóttir (GS), framkvæmdastjóri fræðslusviðs, Unnur V. Ingólfsdóttir (UVI) framkvæmdastjóri fjölskyldusviðs og Aldís Stefánsdóttir (AS), forstöðumaður þjónustu- og samskiptadeildar.
Tillaga fulltrúa S-lista Samfylkingar:
Gerum það að tillögu okkar að allar ábendingar endurskoðanda bæjarins sem berast bæjarstjóra og fjalla um málefni tengd innra eftirliti, fjárhagskerfi og stjórnsýslu sveitarfélagsins séu lagðar fyrir bæjarráð.Anna Sigríður Guðnadóttir
Ólafur Ingi ÓskarssonMálsmeðferðartillaga forseta:
Lögð er fram sú málsmeðferðartillaga að tillögu fulltrúa S-lista verði vísað til bæjarráðs til umfjöllunar.Tillagan er samþykkt með níu atkvæðum.
Bókun fulltrúa D- og V-lista:
Rekstrarumhverfi sveitarfélaga var að mörgu leyti erfitt á árinu 2014 og ber niðurstaða ársreiknings Mosfellsbæjar keim af því. Halli var á rekstrinum sem nemur um 72 mkr. og var niðurstaðan um 100 mkr verri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir, þar var gert ráð fyrir um 28 mkr. afgangi. Þessi halli nemur innan við 1% af tekjum sveitarfélagsins og er niðurstaðan ákveðin vonbrigði. Nokkrar ástæður skýra verri afkomu en ætlað var og má þar nefna hærri launakostnað vegna bættra kjara starfsmanna sveitarfélaga, lægri tekjur m.a. frá jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna málefna fatlaðs fólks og hærri fjárhagsaðstoðar. Þegar hefur hafist vinna við að fara yfir fjárhagsáætlun ársins í ár með það fyrir augum að þau frávik sem yrðu í rekstrinum á árinu 2014 endurtaki sig ekki. Í því sambandi hefur bæjarstjóra verið falið að mynda teymi úr hópi stjórnenda til að yfirfara fjárhagsáætlunina og skila niðurstöðum þeirrar vinnu til bæjarráðs. Fjárhagur sveitarfélagsins er eftir sem áður traustur og skuldahlufall 128% sem er vel undir lögbundnum lágmörkum.Tillaga M-lista Íbúahreyfingarinnar:
Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar gerir að tillögu sinni að við endurskoðun á fjárhagsáætlun 2015-2018 verði þess gætt að niðurskurður komi sem minnst niður á skólunum. Þá þarf með öllum tiltækum ráðum að verja því fyrirkomulag skólamála hefur mikil og víðtæk áhrif, snertir líðan barnanna okkar, starfsánægju kennara og annars starfsfólks og ræður oft úrslitum um það hvort fjölskyldur velja að flytjast í Mosfellsbæ. Það er mikil þörf á fjárfestingu í varanlegu skólahúsnæði og brýnt að setja þá uppbyggingu í algjöran forgang.Málsmeðferðartillaga forseta:
Lögð er fram sú málsmeðferðartillaga að tillögu fulltrúa M-lista verði vísað til bæjarráðs til umfjöllunar.Tillagan er samþykkt með níu atkvæðum.
Forseti bar upp ársreikning bæjarins og stofnana hans í einu lagi og var ársreikningur ársins 2014 staðfestur með níu atkvæðum, en helstu niðurstöðutölur eru þessar:
Rekstrarreikningur A og B hluta:
Rekstrartekjur: 7.447 mkr.
Laun og launatengd gjöld 3.536 mkr.
Annar rekstrarkostnaður 3.261 mkr.
Afskriftir 338 mkr.
Fjármagnsgjöld 358 mkr.
Tekjuskattur 26 mkr.
Rekstrarniðurstaða neikvæð um 72 mkr.Efnahagsreikningur A og B hluta:
Eignir alls: 14.847 mkr.
Skuldir og skuldbindingar: 10.728 mkr.
Eigið fé: 4.119 mkr.Bókun fulltrúa S-lista við ársreikning Mosfellsbæjar 2014:
Niðurstaða ársreiknings árið 2014 er vonbrigði enda kemur í ljós að fjárhagsáætlun ársins stóðst illa. Þannig er rekstrarniðurstaða ársins um 100 milljónum lakari en áætlun gerði ráð fyrir og er neikvæð sem nemur rúmum 70 milljónum króna. Handbært fé frá rekstri er um 150 milljónum lægra en áætlun gerði ráð fyrir. Þessar niðurstöður sýna að áætlunargerðin var ekki nægilega markviss og aðhald meirihlutans með rekstri bæjarins hefur ekki verið nægjanlegt og mjög brýnt að taka þar verulega á. Fram kemur að skuldahlutfall og skuldaviðmið eru hærri en ætlað var í fjárhagsáætlun og framlegðarhlutfall lækkar talsvert eða úr 12,4% árið 2013 í 8.7% 2014.Þriggja ára áætlun, til og með 2018, gerir ráð fyrir mun hagstæðari niðurstöðu en niðurstaða síðastliðins árs sýnir. Minnt er á að sú 3ja ára áætlun er byggð á sama grunni og sú fjárhagsáætlun sem brást svo illa á síðastliðnu ári svo mikilvægt er að skoða hana vel í tengslum við áætlunargerð ársins 2016. Sérstaklega þar sem vitað er að sveitarfélagið þarf á næstu árum að mæta mikilli uppbyggingarþörf í skólamannvirkjum.
Rétt er og skylt að geta þess að bæjarráð hefur þegar samþykkt að bæjarstjóri og aðrir embættismenn fari í saumana á áætlun ársins 2015 til að koma í veg fyrir að hallareksturinn haldi áfram á yfirstandandi ári. Í þeirri vinnu ætti einnig að skoða vandlega uppbyggingu 3ja ára áætlana en þegar þær eru skoðaðar aftur í tímann kemur í ljós að þar gætir fremur óskhyggju en mikils raunsæis.
Fulltrúar Samfylkingarinnar telja að skoða ætti alvarlega að taka upp árshlutauppgjör sem væru sett upp með sama hætti og ársreikningur, að því marki sem nauðsynlegt er, til að sjá þróun tekna og gjalda. Á grundvelli þess yrði hægt að bregðast við fyrr ef frávik koma fram og ákveða hverju sinni hvernig mæta skuli lækkun tekna, hvernig auknum tekjum verði ráðstafað eða brugðist við breytingum á skuldbindingum.
Þá er einnig mjög brýnt að koma samskiptum og fjárveitingum ríkisins vegna málefna fatlaðs fólks í betri og raunsærri farveg í samstarfi við önnur sveitarfélög á landinu.
Anna Sigríður Guðnadóttir
Ólafur Ingi Óskarsson - 22. apríl 2015
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar #648
Drög að ársreikningi Mosfellsbæjar fyrir árið 2014 lagður fram.
Afgreiðsla 1208. fundar bæjarráðs samþykkt á 648. fundi bæjarstjórnar með níu atkvæðum.
- 22. apríl 2015
Bæjarráð Mosfellsbæjar #1209
Drög að ársreikningi Mosfellsbæjar fyrir árið 2014 lögð fram.
Á fundinn undir þessum dagskrárlið var mættur Pétur J. Lockton (PJL) fjármálastjóri Mosfellsbæjar.
Bæjarráð samþykkir ársreikning Mosfellsbæjar vegna ársins 2014 með áritun sinni og telst hann tilbúinn til endurskoðunar og afgreiðslu í bæjarstjórn. Samþykkt með þremur atkvæðum að vísa ársreiknngi Mosfellsbæjar 2014 til fyrri umræðu á næsta fundi bæjarstjórnar.
Bæjarráð samþykkir jafnframt að fela bæjarstjóra að mynda teymi úr hópi framkvæmdastjórnar Mosfellsbæjar til að yfirfara fjárhagsáætlun ársins 2015. Í þeirri vinnu verði horft til þeirrar niðurstöðu sem varð af rekstri bæjarins árið 2014 og lagt mat á hvaða atriði þarf í því sambandi að endurskoða í fjárhagsáætlun ársins. Bæjarstjóri upplýsi bæjarráð reglulega um framvindu þessarar vinnu.
- 22. apríl 2015
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar #648
Bæjarráð sendir ársreikning Mosfellsbæjar fyrir árið 2014 til fyrri umræðu í bæjarstjórn.
Samþykkt með níu atkvæðum að taka á dagskrá fundarins fyrri umræðu um ársreikning Mosfellsbæjar fyrir árið 2014.
Á fundinn undir þessum dagskrárlið eru mætt Magnús Jónsson (MJ) endurskoðandi Mosfellsbæjar, Pétur J. Lockton (PJL) fjármálastjóri, Jóhanna B. Hansen (JBH) framkvæmdastjóri umhverfissviðs, Unnur V. Ingólfsdóttir (UVI) framkvæmdastjóri fjölskyldusviðs og Aldís Stefánsdóttir (AS), forstöðumaður þjónustu- og samskiptadeildar.
Bæjarstjóri hóf umræðuna á því að fara yfir niðurstöður ársreiknings 2014. Þá fór endurskoðandi yfir helstu efnisatriði í drögum að endurskoðunarskýrslu sinni vegna ársins 2014. Í kjölfarið fóru fram umræður.
Forseti þakkaði endurskoðanda fyrir framsögu hans og útskýringar og fyrir vel unnin störf, einnig færði hann starfsmönnum bæjarins þakkir fyrir þeirra framlag fyrir hönd bæjarstjórnar.
Samþykkt með níu atkvæðum að vísa ársreikningi Mosfellsbæjar 2014 til annarrar og síðari umræðu á næsta fundi bæjarstjórnar.
- 15. apríl 2015
Bæjarráð Mosfellsbæjar #1208
Drög að ársreikningi Mosfellsbæjar fyrir árið 2014 lagður fram.
Á fundinn undir þessum dagskrárlið var mættur endurskoðandi bæjarins Magnús Jónsson (MJ) og með honum Haraldur Reynisson (HR) frá KPMG. Auk þeirra sat fundinn undir þessum dagskrárlið Pétur J. Lockton (PJL) fjármálastjóri Mosfellsbæjar.
Rædd voru drög að ársreikningi.