10. desember 2013 kl. 07:00,
2. hæð Helgafell
Fundinn sátu
- Bryndís Haraldsdóttir (BH) formaður
- Ólafur Gunnarsson (ÓG) varaformaður
- Erlendur Örn Fjeldsted aðalmaður
- Hilmar Stefánsson (HS) aðalmaður
- Jóhannes Bjarni Eðvarðsson (JBE) aðalmaður
- Hanna Bjartmars Arnardóttir áheyrnarfulltrúi
- Jóhanna Björg Hansen framkvæmdastjóri umhverfissviðs
- Ásbjörn Þorvarðsson byggingarfulltrúi
- Finnur Birgisson skipulagsfulltrúi
Fundargerð ritaði
Ásbjörn Þorvarðarson byggingafulltrúi
Dagskrá fundar
Almenn erindi
1. Kvíslartunga 108-112 og 120-124, fyrirspurn um breytingar á deiliskipulagi.201311078
Ístak hf. leitar með bréfi dags. 4.11.2013 eftir afstöðu nefndarinnar til hugmynda um öðruvísi húsgerð á lóðunum en deiliskipulag gerir ráð fyrir, sbr. meðf. teikningar Konsepts ehf. Frestað á 355. fundi.
Nefndin felur formanni að ræða við umsækjendur um erindið.
2. Erindi Jónasar Sigurðssonar bæjarráðsmanns varðandi rétt sveitarstjórnarmanna til að fá mál tekin á dagskrá201310253
Bæjarráð samþykkti 7.11.2013 að senda meðfylgjandi umsögn framkvæmdastjóra stjórnsýslusviðs, varðandi rétt kjörinna fulltrúa til að fá mál sett á dagskrá, til upplýsingar til allra nefnda Mosfellsbæjar og starfsmanna þeirra.
Lagt fram.
3. Hraðahindrun við Leirutanga, erindi íbúa201305199
Lagðar fram umsagnir framkvæmdastjóra umhverfissviðs og Eflu verkfræðistofu um erindi íbúa í Leirutanga um uppsetningu hraðahindrana í götunni.
Skipulagsnefnd samþykkir tillögu umhverfissviðs um að settar verði upp hraðahindranir neðst og í miðju stofngötunnar, ásamt því að í efri hluta skeifunnar verði sett gönguþverun til að auðvelda gangandi að komast yfir götuna.
4. Deiliskipulag Helgafellshverfis, tillaga Hönnu Bjartmars, S-lista, um endurskoðun.201312045
Lögð fram tillaga Hönnu Bjartmars fulltrúa S-lista í skipulagsnefnd um heildarendurskoðun deiliskipulags í Helgafellshverfi ásamt meðfylgjandi greinargerð.
Greidd voru atkvæði um tillöguna og var hún felld með fjórum atkvæðum gegn einu.
Áheyrnarfulltrúi Samfylkingarinnar óskaði eftir að eftirfarandi yrði bókað:
Á árunum fyrir hrun var skipulagt íbúðahverfi í landi Helgafells, svokallað Helgafellshverfi. Hverfið var skipulagt miðað við þær þarfir fyrir magn og tegundir íbúðarhúsnæðis sem eftirspurn var eftir á þeim tíma og miðað við spár um íbúaþróun á komandi árum. Í október 2008 voru byggingarhæfar lóðir fyrir um 640 íbúðir á svæðinu. Framkvæmdir voru þá einungis hafnar á örfáum lóðum og segja má að þær hafi nær alveg stöðvast og að uppbygging hverfisins hafi verið í kyrrstöðu frá þeim tíma.
Á síðustu mánuðum hafa komið fram vísbendingar um að örlítil hreyfing sé að komast á framkvæmdir í hverfinu. Samfara því hafa skipulagsnefnd borist fyrirspurnir (óskir) frá byggingaraðilum um að gerðar verði breytingar á deiliskipulagi hverfisins. Óskirnar snúa að skipulagi einstakra lóða og ganga út á að leyfilegt byggingarmagn á lóðunum verði aukið og að leyfi verði veitt fyrir annars konar byggingum á lóðunum en fyrirhugað var skv. samþykktu deiliskipulagi. Óskirnar eru eðlilegar og í samræmi við eftirspurn á íbúðamarkaði í dag, þar sem skortur er á minni og ódýrari íbúðum. Það kann hins vegar ekki góðri lukku að stýra að ákvarðanir um breytingar á einstaka lóðum innan hverfisins séu teknar án þess að skoðað sé hvaða afleiðingar það kann að hafa fyrir heildarskipulag Helgafellshverfis.
Deiliskipulag hverfisins var á sínum tíma unnið á grundvelli rammaskipulags sem bæjarstjórn Mosfellsbæjar samþykkti 14. júlí 2005. Gert var ráð fyrir fjölbreyttri, lágreistri íbúðabyggð í hverfinu með nokkuð þéttari miðkjarna með íbúðum og þjónustustarfsemi. Með ákvörðunum um breytingar á skipulagi einstakra lóða kunna bæjaryfirvöld að skapa fordæmi sem erfitt verður að ganga gegn komi sambærilegar óskir frá mjög mörgum lóðarhöfum í hverfinu. Hætta er á að endanleg ásýnd hverfisins verði ekki í samræmi við þau markmið sem lögð voru til grundvallar skipulagi þess í upphafi.
Í ljósi nýrra aðstæðna í þjóðfélaginu, sem kalla á þörf fyrir öðruvísi íbúðarhúsnæði en áður, er ekki óeðlilegt að forsendur skipulags Helgafellshverfis breytist. Þróun og uppbygging hverfisins má þó ekki verða með þeim hætti að teknar verði ákvarðanir um breytingar sem eingöngu snerta einstaka lóðir á svæðinu og tengjast hagsmunum einstakra lóðareigenda. Undirrituð (Samfylkingin) leggur því til að grundvöllur skipulags Helgafellshverfis verði tekinn til endurskoðunar og skipulag hverfisins í heild aðlagað breyttum aðstæðum.Hanna Bjartmars.
Fulltrúar V og D lista óska bókað:
Helgafellshverfi í Mosfellsbæ er eitt af fallegustu hverfum höfuðborgarsvæðisins. Þar er gert ráð fyrir lágreistri íbúðabyggð með þéttari miðkjarna sem nefndur hefur verið Augað. Rammaskipulag hverfisins var samþykkt 2005 og deiliskipulag mismunandi áfanga hverfisins á árunum 2006-2007.
Snemma árs 2008 bárust fyrst óskir um breytingar á svokölluðu Auga, þar sem umsækjendur óskuðu eftir að byggja fleiri íbúðir og fjölga bílastæðum ofanjarðar. Allt frá þeim tíma hefur ríkt þverpólitísk sátt í skipulagsnefnd um að halda sig við gildandi skipulag, í það minnsta að sinni. Ekki hafa ýkja margar beiðnir borist á síðustu árum enda hefur byggingamarkaðurinn verið í mikilli lægð.
Reglulega hefur það komið til tals hvort ástæða sé til að taka skipulagið upp í heild sinni í ljósi breytinga á markaði fyrir íbúðarhúsnæði. Niðurstaðan hefur verið að það sé illmögulegt, þar sem eignarhald lóða var á tímum óljóst og erfitt að nálgast upplýsingar um hver færi með raunverulegt forræði lóða. Þrátt fyrir að sveitarfélagið hafi skipulagsvald er mjög flókið að ætla sér að breyta þegar samþykktu skipulagi. Lóðarhöfum er alltaf frjálst að óska eftir breytingum á skipulagi og ekki er talið eðlilegt af nefndinni að taka fram fyrir hendur lóðarhafa með því að gera tillögu að breytingum á skipulagi sem ekki eru í samræmi við þeirra óskir, slíkar breytingatillögur myndi seint nást sátt um.
Eignarhald í Helgafellshverfi hefur nú skýrst og mikil hreyfing er komin á fasteignamarkaðinn. Fyrir fundinum liggja þrjár beiðnir um breytingar á skipulagi Helgafells, tvær af þeim beiðnum taka yfir nokkrar lóðir. Það að landeigendur leggi sjálfir fram slíkar beiðnir auðveldar nefndinni mjög að taka afstöðu. Þeir sem hyggjast selja lóðir og íbúðir hafa góða sýn á ástand markaðarins og okkar er svo að taka afstöðu til þess hvort þessar breytingar séu til bóta fyrir hverfið til lengri tíma litið.
Meirihluti D og V lista telur því að eðlilegra sé að líta til þeirra óska sem fram eru komnar og taka þannig afstöðu til þess hvaða breytingar geti orðið á hverfinu.Fulltrúi Íbúahreyfingarinnar óskar bókað:
Íbúahreyfingin telur ekki ráðlegt að auka við það magn íbúða sem áður hefur verið ákveðið, með fjölgun íbúða í Helgafellshverfinu miðað við gildandi deiliskipulag svæðisins. Ljóst er að aukning íbúða mun hafa áhrif á umferð, hljóðvist, mengun og ásýnd hverfisins með aukinni bílaumferð.
Miklar líkur eru á að bæjaryfirvöldum berist fleiri slíkar beiðnir um breytingar á deiliskipulagi um fjölgun íbúða á næstunni, þar sem fasteignamarkaðurinn vill hallast í þá átt að minni eignir séu nú seljanlegri.
Ef bæjaryfirvöld ætla að opna fyrir breytingar og fjölgun íbúða og gefa þar með fordæmi, er nauðsynlegt að skoða hverfið heildstætt út frá því hvað það þolir af byggingarmagni, svo að lífskjör og lífshættir þeirra sem í hverfinu munu búa rýrni ekki. Einnig er nauðsynlegt að huga að þolmörkum hverfisins og gatnakerfis þess. Hætta er á að hagsmunir einstakra lóðarhafa verði á kostnað annarra lóðarhafa og bæjarfélagsins.5. 3 lóðir í Auga, ósk um breytingar á deiliskipulagi.201310334
Ingimundur Sveinsson leggur fram f.h. Arnar Kjærnested endurskoðaða tillögu að breytingum á deiliskipulagi á lóðunum Gerplustræti 16-22, Gerplustræti 24-26 og Vefarastræti 15-19. Fyrri tillaga var til umræðu á 352. fundi. Einnig lögð fram umsögn skipulagshöfundar, Gylfa Guðjónssonar.
Frestað.
6. Gerplustræti 7-11, fyrirspurn um fjölgun íbúða o.fl.201310158
Hannes Örn Jónsson hjá Verkís ehf f.h. lóðarhafans, Glímis ehf, óskar 29.9.2013 eftir afstöðu nefndarinnar til þess að íbúðum í húsinu verði fjölgað, með samsvarandi fjölgun bílastæða á baklóð. Frestað á 352. fundi.
Frestað.
7. 1. - 3. áfangi Helgafellshverfis, tillögur Hamla 1 ehf. um breytingar á deiliskipulagi201312044
Á fundinn mættu Hannes F. Sigurðsson fulltrúi Hamla 1 ehf. og Steinþór Kári Kárason arkitekt, og kynntu hugmyndir að breytingum á deiliskipulagi lóða í eigu Hamla 1 ehf.
Lagt fram.
8. Þingvallavegur í Mosfellsdal, deiliskipulag201312043
Greint verður frá viðræðum við Vegagerðina um Þingvallaveg og skipulagsmál sem varða hann.
Frestað.
9. Laxatunga 62-68, fyrirspurn um breytingu á húsgerð201309225
Lögð fram tillaga Teiknistofu arkitekta að breytingu á deiliskipulagi. Samkvæmt tillögunni verða raðhús á lóðunum einnar hæðar og lóðirnar stækka til suðurs og austurs.
Frestað.