Mál númer 201603415
- 17. ágúst 2016
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar #676
Á 670. fundi bæjarstjórnar 27. apríl sl. var tillögu S-lista um að ábendingar endurskoðenda er varða gerð ársreiknings vísað til bæjarráðs til umfjöllunar.
Afgreiðsla 1267. bæjarráðs lögð fram til kynningar á 676. fundi bæjarstjórnar.
- 14. júlí 2016
Bæjarráð Mosfellsbæjar #1267
Á 670. fundi bæjarstjórnar 27. apríl sl. var tillögu S-lista um að ábendingar endurskoðenda er varða gerð ársreiknings vísað til bæjarráðs til umfjöllunar.
Pétur J. Lockton (PJL), fjármálastjóri, mætti á fundinn undir þessum lið og fór yfir ábendingar endurskoðenda varðandi gerð ársreiknings 2015.
- 27. apríl 2016
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar #670
Ársreikningur Mosfellsbæjar 2015 lagður fyrir bæjarstjórn til seinni umræðu.
Pétur J. Lockton (PJL) fjármálastjóri, Jóhanna B. Hansen (JBH) framkvæmdastjóri umhverfissviðs, Gunnhildur Sæmundsdóttir (GS), staðgengill framkvæmdastjóra fræðslusviðs og Unnur V. Ingólfsdóttir (UVI) framkvæmdastjóri fjölskyldusviðs sátu fundinn undir þessum lið.
Tillaga S-lista:
Gerum tillögu um að ábendingar endurskoðenda er varða innra eftirlit, fjárhagskerfi, stjórnsýslu sveitarfélagsins og önnur atriði sem tengjast vinnu þeirra verði lagðar fyrir bæjarráð.
Anna Sigríður Guðnadóttir og Ólafur Ingi ÓskarssonMálsmeðferðartillaga forseta:
Lögð er fram sú málsmeðferðartillaga að tillögu fulltrúa S-lista verði vísað til bæjarráðs til umfjöllunar.Tillagan er samþykkt með níu atkvæðum.
Tillaga S-lista:
Gerum að tillögu okkar að tekin verði upp árshlutauppgjör er sett verði upp með sama hætti og ársreikningur, til að sjá þróun tekna og gjalda. Á grundvelli þess yrði ákveðið hverju sinni hvernig mæta skyldi lækkun tekna, hvernig auknum tekjum yrði ráðstafað eða brugðist við breytingum á skuldbindingum.
Anna Sigríður Guðnadóttir og Ólafur Ingi ÓskarssonMálsmeðferðartillaga forseta:
Lögð er fram sú málsmeðferðartillaga að tillögu fulltrúa S-lista verði vísað til fjármálastjóra til umsagnar sem verði skilað til bæjarráðs.Tillagan er samþykkt með níu atkvæðum.
Bókun S-lista Samfylkingar
Niðurstaða ársreiknings Mosfellsbæjar fyrir árið 2014 er vissulega betri en leit út fyrir um tíma á síðastliðnu ári. Rekstrarniðurstaða A hluta fyrir árið 2015 er neikvæð um 76 milljónir samanborið við 178 miljóna neikvæða stöðu 2014. Rekstrarniðurstaða A og B hluta samanlagt er jákvæð um 27 milljónir en var neikvæð um 72 miljónir árið 2014. Samanlagt er því rekstrarniðurstaða þessara tveggja ára enn neikvæð. Ljóst er því aðí þessari stöðu er mikilvægt að gaumgæfilega sé fylgst með rekstri bæjarins á yfirstandandi ári sem fyrr. Rétt er að hrósa starfsfólki Mosfellsbæjar fyrir þeirra framlag í vandasömum rekstri ársins 2014.
Eins og fulltrúar Samfylkingarinnar hafa áður bent á telja þeir að skoða ætti alvarlega að taka upp árshlutauppgjör sem væru sett upp með sama hætti og ársreikningur, til að sjá þróun tekna og gjalda. Á grundvelli þess yrði hverju sinni ákveðið hvernig mæta skuli lækkun tekna, hvernig auknum tekjum verði ráðstafað eða brugðist við breytingum á skuldbindingum.
Skuldahlutfall og skuldaviðmið hafa lækkað frá fyrra ári og samkvæmt áætlunum 2016- 2019 er gert ráð fyrir lækkun á hverju ári. Vissulega stefnir í rétta átt samkvæmt áætlunum og gera þær m.a. ráð fyrir því að veltufé frá rekstri standi undir samningsbundnum afborgunum langtímalána og leiguskulda. Það hefur ekki verið reyndin undanfarin ár. Í skýrslu endurskoðenda bæjarins er á það bent að til að fjárhagsáætlanir 2016-2019 gangi eftir þurfi verulegan viðsnúning í rekstri bæjarins og að almennt gangi ekki að fjármagna greiðsluhalla frá ári til árs með lántöku til lengri tíma.
Því teljum við viðbúið að þeim niðurskurði eða hagræðingu sem farið hefur verið í hjá stofnunum bæjarins undanfarið verði ekki snúið við svo glatt. Ýmis verkefni banka upp á svo sem yngri barna leikskóli og uppbygging íþróttamannvirkja bæjarins sem gefinn hefur verið ádráttur um undanfarin ár, svo eitthvað sé nefnt. Það má því vissulega velta þeirri spurningu fyrir sér hversu vel bærinn er í stakk búinn að veita þá þjónustu sem kallað er eftir.
Þá vilja fulltrúar Samfylkingarinnar ítreka mikilvægi þess að viðræður sveitarfélaga og ríkis varðandi tekjuskiptingu aðila verði leiddar til lykta sem fyrst svo sveitarfélögunum verði gert kleift að sinna þeim verkefnum sem þeim hafa verið falin með fullnægjandi hætti.
Anna Sigríður Guðnadóttir
Ólafur Ingi ÓskarssonBókun D og V lista
Rekstrarniðurstaða bæjarins á árinu 2015 er í samræmi við það sem lagt var upp með í fjárhagsáætlun. Að teknu tilliti til fjármagnsliða er rekstrarafgangur 28 milljónir. Þetta telst góður árangur, sérstaklega miðað við þær aðstæður sem uppi voru á árinu 2015.Veltufé frá rekstri er 689 milljónir eða rúmlega 8,4% af tekjum sem er töluverð hækkun frá árinu 2014. Áætlanir bæjarins gera ráð fyrir að þetta hlutfall hækki enn frekar á næstu árum sem er mikilvægt til að veltufé frá rekstri standi að fullu undir afborgunum langtímalána og leiguskuldbindinga og standi einnig að hluta til undir fjárfestingum sveitarfélagins. Skuldaviðmið er 122% sem er vel innan þess 150% hámarks sem kveðið er á um í lögum. Skuldastaða sveitarfélagsins er vel viðunandi miðað við þá uppbyggingu sem átt hefur sér stað á undanförnum árum. Sú uppbygging er í samræmi við markmið sveitarfélagsins um góða heildstæða þjónustu við alla aldurshópa og fjölgun íbúa.
Fjárhagsstaða Mosfellsbæjar er traust og reksturinn ábyrgur. Fræðslumál eru langstærsti málaflokkurinn en samtals er um 84% skatttekna Mosfellsbæjar varið til fræðslu-, félagsþjónustu- og íþróttamála.
Það er ánægjulegt hversu vel tókst að standa við upphaflegu fjárhagsáætlun ársins 2015. Launakostnaður hefur aukist mikið síðustu misseri og sést það glöggt á ársreikningnum sem nú er lagður fram. Sveitarfélög hafa í sameiningu kallað ákaft eftir viðræðum við ríkið um endurskoðun tekjuskiptingar ríkis og sveitarfélaga sem ekki hefur enn skilað niðurstöðu. Það er mikilvægt að því ákalli verði svarað.
Við viljum þakka starfsmönnum Mosfellsbæjar öllum fyrir að hafa staðið vel að verki við rekstur sveitarfélagsins á árinu 2015 við krefjandi aðstæður.
Forseti bar upp ársreikning bæjarins og stofnana hans í einu lagi og var ársreikningur ársins 2015 staðfestur með níu atkvæðum, en helstu niðurstöðutölur eru þessar:Rekstrarreikningur A og B hluta:
Rekstrartekjur: 8.227 mkr.
Laun og launatengd gjöld 3.925 mkr.
Annar rekstrarkostnaður 3.401 mkr.
Afskriftir 347 mkr.
Fjármagnsgjöld 497 mkr.
Tekjuskattur 29 mkr.
Rekstrarniðurstaða jákvæð um 28 mkr.Efnahagsreikningur A og B hluta:
Eignir alls: 15.373 mkr.
Skuldir og skuldbindingar: 11.225 mkr.
Eigið fé: 4.147 mkr. - 13. apríl 2016
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar #669
Drög að ársreikningi Mosfellsbæjar 2015 lögð fram.
Afgreiðsla 1254. fundar bæjarráðs samþykkt á 669. fundi bæjarstjórnar með níu atkvæðum.
- 13. apríl 2016
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar #669
Kynning á stöðu vinnu við gerð ársreiknings. Gögn lögð fram á fundinum.
Afgreiðsla 1253. fundar bæjarráðs samþykkt á 669. fundi bæjarstjórnar með níu atkvæðum.
- 13. apríl 2016
Bæjarráð Mosfellsbæjar #1254
Drög að ársreikningi Mosfellsbæjar 2015 lögð fram.
Á fundinn undir þessum dagskrárlið var mættur Pétur J. Lockton (PJL) fjármálastjóri Mosfellsbæjar.
Bæjarráð samþykkir ársreikning Mosfellsbæjar vegna ársins 2015 með áritun sinni og telst hann tilbúinn til endurskoðunar og afgreiðslu í bæjarstjórn. Samþykkt með þremur atkvæðum að vísa ársreiknngi Mosfellsbæjar 2015 til fyrri umræðu á næsta fundi bæjarstjórnar.
- 13. apríl 2016
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar #669
Ársreikningur Mosfellsbæjar 2015 lagður fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn
Á fundinn undir þessum dagskrárlið eru mætt Magnús Jónsson (MJ) endurskoðandi Mosfellsbæjar, Pétur J. Lockton (PJL) fjármálastjóri, Jóhanna B. Hansen (JBH) framkvæmdastjóri umhverfissviðs, Unnur V. Ingólfsdóttir (UVI) framkvæmdastjóri fjölskyldusviðs, Gunnhildur Sæmundsdóttir (GS), staðgengill framkvæmdastjóra fræðslusviðs og Aldís Stefánsdóttir (AS), forstöðumaður þjónustu- og samskiptadeildar.
Bæjarstjóri hóf umræðuna á því að fara yfir niðurstöður ársreiknings 2015. Þá fór endurskoðandi yfir helstu efnisatriði í drögum að endurskoðunarskýrslu sinni vegna ársins 2015. Í kjölfarið fóru fram umræður.
Forseti þakkaði endurskoðanda fyrir framsögu hans og útskýringar og fyrir vel unnin störf, einnig færði hann starfsmönnum bæjarins þakkir fyrir þeirra framlag fyrir hönd bæjarstjórnar.
Samþykkt með níu atkvæðum að vísa ársreikningi Mosfellsbæjar 2015 til annarrar og síðari umræðu á næsta fundi bæjarstjórnar.
- 7. apríl 2016
Bæjarráð Mosfellsbæjar #1253
Kynning á stöðu vinnu við gerð ársreiknings. Gögn lögð fram á fundinum.
Á fundinn undir þessum dagskrárlið var mættur endurskoðandi bæjarins Magnús Jónsson (MJ) frá KPMG. Auk hans sat fundinn undir þessum dagskrárlið Pétur J. Lockton (PJL) fjármálastjóri Mosfellsbæjar.
Magnús Jónsson fór yfir drög að ársreikningi. Umræður fóru fram.
Samþykkt með þremur atkvæðum að halda aukafund bæjarráðs hinn 13. apríl nk. kl. 15:45 þar sem stefnt er að því að samþykkja ársreikning og að honum verði vísað til fyrri umræðu í bæjarstjórn þann sama dag.