Mál númer 202410416
- 20. nóvember 2024
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar #861
Upplýsingar tengdar fyrirhugaðri uppbyggingu og starfsemi á Farsældartúni lagðar fram.
Afgreiðsla 1646. fundar bæjarráðs samþykkt á 861. fundi bæjarstjórnar með 11 atkvæðum.
- 7. nóvember 2024
Bæjarráð Mosfellsbæjar #1646
Upplýsingar tengdar fyrirhugaðri uppbyggingu og starfsemi á Farsældartúni lagðar fram.
Svar bæjarstjóra við fyrirspurn tengdri fyrirhugaðri uppbyggingu og starfsemi á Farsældartúni lagt fram til kynningar.
- 6. nóvember 2024
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar #860
Umræða og upplýsingagjöf í tengslum við opnun meðferðardeildar fyrir börn í húsnæði Farsældartúns í Mosfellsbæ að beiðni Sjálfstæðisflokks.
Afgreiðsla 1644. fundar bæjarráðs samþykkt á 860. fundi bæjarstjórnar með 11 atkvæðum.
- 24. október 2024
Bæjarráð Mosfellsbæjar #1644
Umræða og upplýsingagjöf í tengslum við opnun meðferðardeildar fyrir börn í húsnæði Farsældartúns í Mosfellsbæ að beiðni Sjálfstæðisflokks.
Bæjarstjóri veitti upplýsingar um fyrirhugaða opnun meðferðardeildar fyrir börn í húsnæði Farsældartúns í Mosfellsbæ og umræða fór fram um málið.
Lögð er fram eftirfarandi fyrirspurn frá bæjarráðsfulltrúum D lista.
Þess er óskað að upplýst verði um eftirfarandi þætti:
1. Upplýst verði um stöðuna á Skálatúnsreitnum.
2. Upplýst verði hve lengi þetta tímabundna úrræði eigi að starfa, hvort von sé á að fleiri dagvistunarstofnanir eða stofnanir þar sem börn og unglingar dvelja til lengri tíma flytji í Skálatún áður en deiliskipulag og framkvæmdir hafa verið ræddar og samþykktar í stjórnsýslunni hjá Mosfellsbæ.
3. Einnig er beðið um að upplýst verði hvort það sé búið að ákveða að meðferðarheimilið Stuðlar eigi að flytja í heild sinni í Skáltún eins og mennta- og barnamálaráðherra hefur ítrekað fullyrt.Bæjarráð samþykkir með fimm atkvæðum að vísa fyrirspurninni til bæjarstjóra.
***
Bókun D lista:
Það kemur mjög á óvart að búið sé að ákveða að hluti af starfsemi meðferðarheimilis Stuðla sé að flytja í núverandi húsnæði í Skálatúni.
Þau áform höfðu ekki verið rædd eða kynnt í bæjarráði, bæjarstjórn eða í Velferðarnefnd Mosfellsbæjar.Í sjónvarpsfréttum sunnudaginn 20. október síðastliðinn fullyrti mennta- og barnamálaráðherra að öll starfsemi Stuðla myndi flytja í Skálatún og það úrræði sem samþykkt hefur verið að opna þar á næstu dögum sé fyrsta skrefið í þeirri vegferð.
Fulltrúar D-lista í bæjarráði Mosfellsbæjar lýsa yfir miklum vonbrigðum með upplýsingaleysi meirihlutans í þessu máli, því hér er um að ræða veigamikla breytingu á núverandi starfsemi að Skálatúni.
Bókun B, C og S lista.
Eins og fram hefur komið í opinberri umræðu þá hefur meðferðarþjónustu við börn og ungmenni á Íslandi verið ábótavant mörg undanfarin ár. Ýmiss konar úrræða er þörf og áform um uppbyggingu í Farsældartúni vekja vonir um að ríkisvaldið taki vandann alvarlega og úrbóta sé að vænta.Sveitarfélögin í landinu hafa ítrekað kallað eftir aðgerðum þegar kemur að búsetu fyrir börn með fjölþættan vanda og meðferðarheimili. Á undanförnum árum hefur meðferðarheimilum fækkað markviss en í kringum aldamótin voru þau 10 talsins. Sú stefna, að fækka meðferðarheimilum, hefur leitt til þess að aukinn kostnaður hefur flust yfir á sveitarfélögin sem hafa verið að greiða fyrir dýr úrræði á vegum einkaaðila. Auk þess hefur dýrmæt sérþekking í málaflokknum tapast.
Staðan í íslensku samfélagi einmitt núna er sú að sárlega skortir meðferðardeild fyrir 4-5 börn. Þar er um að ræða opið úrræði fyrir skjólstæðinga, þ.e. ekki neyðarvistun. Stjórn Farsældartúns samþykkti að Barna- og fjölskyldustofa fengi afnot af einu húsanna í Skálatúni undir tímabundið úrræði.
Sú ákvörðun er í fullu samræmi við þann samning sem gerður var árið 2023 á milli sjálfseignastofnunarinnar Skálatúns og ríkisins um uppbyggingu á þjónustu fyrir börn og ungmenni á Skálatúni. IOGT sem rak Skálatún ánafnaði fasteignum og lóðum Skálatúns til sjálfseignarstofnunarinnar Farsældartúns svo byggja mætti upp starfsemi í þágu barna og fjölskyldna þeirra.
Þá var einnig undirrituð viljayfirlýsing á milli mennta- og barnamálaráðuneytis og Mosfellsbæjar um að stofnanir ríkisins sem sinna málefnum barna, samtök sem vinna í þágu barna og þjónustuaðilar barna, verði staðsett í Farsældartúni (landi Skálatúns) í nokkurs konar miðstöð barna auk þess að byggð yrði upp þjónusta við börn með fjölþættan vanda.
Börnin sem njóta munu þjónustunnar koma víða að, meðal annars frá Mosfellsbæ.
Uppbygging í Farsældartúni mun að sjálfsögðu lúta skipulagsvaldi Mosfellsbæjar.
Eins og allir í bæjarráði eiga að vita þá er skýrt í samningum sem bæjarstjórn öll samþykkti í maí 2023 að í Farsældartúni myndi meðferðarúrræði fyrir börn með fjölþættan vanda verða starfrækt. Ásamt annarri starfsemi í þágu farsældar barna.