Mál númer 202103483
- 21. apríl 2021
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar #781
Önnur umræða um ársreikning Mosfellsbæjar 2020.
Forseti bar upp ársreikning bæjarins og stofnana hans í einu lagi og var ársreikningur ársins 2020 ásamt ábyrgða- og skuldbindingayfirliti staðfestur með átta atkvæðum, fulltrúi M-lista sat hjá. Helstu niðurstöðutölur eru þessar: Rekstrarreikningur A og B hluta: Rekstrartekjur: 13.007 mkr. Laun og launatengd gjöld 6.402 mkr. Hækkun lífeyrisskuldbindingar 263 mkr. Annar rekstrarkostnaður 5.704 mkr. Afskriftir 475 mkr. Fjármagnsgjöld 687 mkr. Tekjuskattur 17 mkr. Rekstrarniðurstaða neikvæð um 541 mkr. Efnahagsreikningur A og B hluta: Eignir alls: 23.709 mkr. Skuldir og skuldbindingar: 16.827 mkr. Eigið fé: 6.882 mkr.
****
Bókun V- og D-lista
Ársreikningur fyrir árið 2020 endurspeglar þann skugga sem heimsfaraldurinn varpar á starfsemi sveitarfélaga en einnig sterka stöðu Mosfellsbæjar til að mæta tímabundinni fjárhagslegri ágjöf. Minnkandi skatttekjur vegna áhrifa kórónaveirunnar á efnahag sveitarfélaga hefur neikvæð áhrif á afkomu sveitarfélagsins. Sveitarfélagið er rekið af ábyrgð með áherslu á komandi kynslóðir og ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2020 sýnir að við höfum hafið okkar viðspyrnu um leið og við verjum þjónustu við íbúa af fullu afli. Efnahagsleg áhrif faraldursins eru það mikil á rekstur sveitarfélagsins að óhjákvæmilegt er annað en að bæjarsjóður verði rekinn með halla um sinn. Hinn möguleikinn hefði verið að skera verulega niður í rekstri og þjónustu sveitarfélagsins en það er ekki skynsamleg stefna við ríkjandi aðstæður. Skilvirkur rekstur og sterk fjárhagsstaða auðveldar okkur að taka vel á móti nýjum íbúum og þjónustan er vel metin af íbúum samkvæmt niðurstöðum þjónustukönnunar Gallup. Sem fyrr viljum við nota þetta tilefni til að þakka starfsmönnum Mosfellsbæjar, kjörnum fulltrúum og nefndarfólki fyrir þeirra þátt í þeim árangri sem við höfum náð.***
Bókun C-lista
Viðreisn í Mosfellsbæ þakkar starfsfólki Mosfellsbæjar fyrir vel unnin störf á árinu 2020 við krefjandi aðstæður í miðjum heimsfaraldri. Þessi ársreikningur endurspeglar þann veruleika, skuldir aukast og tekjur dragast saman. Framundan er tími þar sem reynir áfram á starfsfólk Mosfellsbæjar, kjörna fulltrúa og nefndarfólk að reisa við fjárhag Mosfellsbæjar. - 7. apríl 2021
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar #780
Ársreikningur Mosfellsbæjar 2020 lagður fram til fyrri umræðu.
Ársreikningur Mosfellsbæjar 2019 lagður fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn. Á fundinn undir þessum dagskrárlið mættu Magnús Jónsson endurskoðandi Mosfellsbæjar (MJ), Pétur J. Lockton fjármálastjóri, Anna María Axelsdóttir verkefnastjóri í fjármáladeild, Sigurbjörg Fjölnisdóttir, framkvæmdastjóri fjölskyldusviðs, Jóhanna Björg Hansen framkvæmdastjóri umhverfissviðs, Linda Udengård, framkvæmdastjóri fræðslu- og frístundasviðs og Arnar Jónsson forstöðumaður þjónustu- og samskiptadeildar. Bæjarstjóri hóf umræðuna, ræddi niðurstöður ársreiknings og þakkaði endurskoðanda og starfsmönnum fyrir vel unnin störf í tengslum við gerð ársreiknings. Þá fór endurskoðandi yfir helstu efnisatriði í drögum ársreiknings 2020 og endurskoðunarskýrslu sinni vegna ársins 2020. Í kjölfarið fóru fram umræður og þökkuðu aðrir sem til máls tóku einnig endurskoðanda og starfsmönnum fyrir vel unnin störf í tengslum við gerð ársreiknings. Samþykkt með níu atkvæðum að vísa ársreikningi Mosfellsbæjar 2020 til annarrar og síðari umræðu á næsta fundi bæjarstjórnar.
- 7. apríl 2021
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar #780
Ársreikningur Mosfellsbæjar vegna 2020 lagður fyrir bæjarráð til undirritunar og tilvísunar til endurskoðunar og staðfestingar bæjarstjórnar. Jafnframt er ársreikningur Hitaveitu Mosfellsbæjar 2020 lagður fram til staðfestingar.
Afgreiðsla 1483. fundar bæjarráðs samþykkt á 780. fundi bæjarstjórnar með níu atkvæðum.
- 7. apríl 2021
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar #780
Magnús Jónsson, endurskoðandi kynnir stöðu á gerð ársreiknings og endurskoðunar Mosfellsbæjar vegna ársins 2020.
Afgreiðsla 1482. fundar bæjarráðs samþykkt á 780. fundi bæjarstjórnar með níu atkvæðum.
- 30. mars 2021
Bæjarráð Mosfellsbæjar #1483
Ársreikningur Mosfellsbæjar vegna 2020 lagður fyrir bæjarráð til undirritunar og tilvísunar til endurskoðunar og staðfestingar bæjarstjórnar. Jafnframt er ársreikningur Hitaveitu Mosfellsbæjar 2020 lagður fram til staðfestingar.
Bæjarráð samþykkir ársreikning Mosfellsbæjar vegna ársins 2020 með áritun sinni og telst hann tilbúinn til endurskoðunar og afgreiðslu í bæjarstjórn. Samþykkt með þremur atkvæðum að vísa ársreikningi Mosfellsbæjar 2020 til fyrri umræðu á næsta fundi bæjarstjórnar.
Jafnframt samþykkt með þremur atkvæðum að staðfesta ársreikning Hitaveitu Mosfellsbæjar 2020.
- 25. mars 2021
Bæjarráð Mosfellsbæjar #1482
Magnús Jónsson, endurskoðandi kynnir stöðu á gerð ársreiknings og endurskoðunar Mosfellsbæjar vegna ársins 2020.
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri og Magnús Jónsson, endurskoðandi hjá KPMG, kynntu vinnu við gerð ársreiknings og endurskoðunar Mosfellsbæjar vegna ársins 2020.