Mál númer 202004230
- 16. september 2020
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar #767
Niðurstaða starfshóps stjórnvalda um áhrif Covid-19 á fjármál sveitarfélaga.
Bókun bæjarfulltrúa C-, D-, L-, S- og V-lista.
Ljóst er að verulegt tekjutap og kostnaðarauki verður hjá sveitarfélögum um allt land vegna Covid 19 árin 2020 og 2021. Samkvæmt samantekt sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu er áætlað að samanlögð rekstrarniðurstaða sveitarfélaganna allra verði verri sem nemur 26,6 milljörðum á árinu 2020. Áætlað tekjutap og kostnaðarauki fyrir Mosfellsbæ er um 1,4 milljarðar króna á árinu 2020.
Það er mikilvægt að ríkissjóður komi að málum með almennum aðgerðum, beinum fjárhagslegum stuðningi, til að verja þjónustu og starfsemi sveitarfélaganna. Almennt er ríkisjóður í betri aðstöðu en sveitarfélögin til að skuldbinda sig með tilliti til tekjuöflunar, lánskjara og peningamarkaðsaðgerða. Slík ráðstöfun myndi koma í veg fyrir mikið tjón til framtíðar fyrir íbúa landsins.
Verði efnahagslegum áhrifum af faraldrinum velt yfir á fjárhag sveitarfélaga sem eingöngu verði mætt með stóraukinni lántöku, er ljóst að það hefur langvarandi áhrif á alla þjónustu við íbúa og nauðsynlegar framkvæmdir. Auknar skuldir munu óhjákvæmilega hafa í för með sér niðurskurð og skerta getu sveitarfélaga til að sinna nærþjónustu við íbúa sveitarfélagsins. Sveitarfélögin þurfa mun lengri tíma en ríkissjóður til að jafna sig á slíkum aðgerðum eins og getið er um hér að framan.
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar beinir því til ríkisstjórnar Íslands að bregðast við tekju- og kostnaðarauka sveitarfélaganna með almennum aðgerðum til viðbótar þeim nauðsynlegu sértæku aðgerðum sem hafa litið dagsins ljós og eru til umræðu.Bókun bæjarfulltrúa M-lista.
Það er algengt eftir slælegan rekstur og áralanga sóun í ýmis gæluverkefni að bíða eftir þannig árferði að hægt verði að dylja fjárhagslegan sóðaskap, safna honum saman og koma honum svo á herðar annarra þegar færi gefst. Þessi bjarnargreiðabókun til handa ríkisstjórninni er ekki trúverðug. Bókunin er orðuð fyrir höfuðborgarsvæðið í held en ekki aðeins Mosfellsbæ í sama mund og sömu meirihlutar þessara sveitarfélaga eru við völd sem heimta af ríkissjóði að farið sé í óarðbært verkefni eins og Borgarlínuna. Þessi bókun ætti að snúa að því að vegna fjárhagslegra aðstæðna hafni Mosfellsbær alfarið þátttöku sinni í þessu ólánslega verkefni. Þetta er verkefni sem ákveðið var að fara í án þess að fyrir lægi rekstrar- og fjárfestingaráætlun. Slíkum sveitastjórnarmeirihlutum er tæpast treystandi til að taka við frekara fjármagni úr hendi ríkissjóðs að svo komnu máli. Sökum þessa situr fulltrúi Miðflokksins hjá hvað þessa bókun varðar sem snýr í raun að „leit ullar í geitarhúsi“ ríkisstjórnar Íslands.Bókun bæjarfulltrúa D- og V-lista.
Bókun fulltrúa M - lista er full af ósannindum og dylgjum. Bókunin er ekki svaraverð og dæmir sig sjálf.Mosfellsbær er vel rekið sveitarfélag og þar hefur verið sýnd ábyrgð í rekstri hér eftir sem hingað til.
Gagnbókun bæjarfulltrúa M-lista.
Þessi bókun lágmarks meirihluta í bæjarstjórn Mosfellsbæjar bendir ekki til þess að ætlunin sé að læra af reynslunni og gæta að öruggri og ábyrgri fjármálastjórn heldur er þverskallast við þrátt fyrir að staðreyndir blasi nú við.
Afgreiðsla 1457. fundar bæjarráðs samþykkt á 767. fundi bæjarstjórnar með níu atkvæðum. - 10. september 2020
Bæjarráð Mosfellsbæjar #1457
Niðurstaða starfshóps stjórnvalda um áhrif Covid-19 á fjármál sveitarfélaga.
Greinargerð um helstu niðurstöður starfshóps um fjármál sveitarfélaga lögð fram en um er að ræða sameiginlegan starfshóp ríkis og sveitarfélaga til að meta áhrif Covid-19 á fjármál ríkis og sveitarfélaga. Í niðurstöðum starfshópsins kemur fram að gera megi ráð fyrir mun lakari rekstrarniðurstöðu sveitarfélaga 2020 og að tekjur þeirra af útsvari muni dragast verulega saman.
Bæjarstjóri fór yfir skýrsluna og alvarleg áhrif Covid-19 á fjárhagsstöðu sveitarfélaga.
- 29. apríl 2020
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar #760
Minnisblað frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu varðandi áhrif Covid 19 á fjárhag og þjónustu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.
Afgreiðsla 1440. fundar bæjarráðs samþykkt á 760. fundi bæjarstjórnar með níu atkvæðum.
- 29. apríl 2020
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar #760
Minnisblað frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu varðandi áhrif Covid 19 á fjárhag og þjónustu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.
Afgreiðsla 1440. fundar bæjarráðs samþykkt á 760. fundi bæjarstjórnar með níu atkvæðum.
- 22. apríl 2020
Bæjarráð Mosfellsbæjar #1440
Minnisblað frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu varðandi áhrif Covid 19 á fjárhag og þjónustu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.
Bæjarstjóri kynnti efni minnisblað Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu til fjármála- og efnahagsráðherra þar sem leitað er eftir stuðningi ríkisins við starfsemi sveitarfélaga.
Bæjarráð Mosfellsbæjar tekur undir óskir og áherslur í minnisblaði SSH til fjármála- og efnahagsráðherra um nauðsyn þess að ríkið komi að stuðningi við starfsemi sveitarfélaga.