Mál númer 201607105
- 31. ágúst 2016
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar #677
Tillögu S-lista sem fram kom á 676. fundi bæjarstjórnar 17. ágúst sl., um að könnuð yrði staða og fjárfestingasaga þeirra aðila sem hyggjast standa fyrir byggingu einkásjúkrahúss og hótels í Mosfellsbæ, var vísað til umræðu í bæjarráði.
Tillaga bæjarfulltrúa M-lista
Ég tel að ákvörðun bæjarráðs um þetta mál á fundi þess 21. júlí s.l. hafa verið ólöglega skv. lið 6 í 7. kafla 58. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138 frá 2011.
Um málið er ágreiningur og það varðar verulega fjárhag sveitarsjóðs. Þess vegna á 35. gr 5. kafla sömu laga ekki við, bæjarráð hefur ekki heimild til þess að taka þessa ákvörðun, það verður bæjarstjórn að gera.
Ég legg því til að þessi ákvörðun verði felld úr gildi og málið sett í þann lýðræðislega farveg sem ætlast er til.
Jafnframt legg ég til að fengnir verði aðilar til þess að kanna hvort meirihlutinn hafi á þessu og síðasta kjörtímabili vísvitandi stillt mikilvægum málum þannig upp að þau fari eingöngu fyrir bæjarráð en ekki bæjarstjórn eins og krafist er og bæjarbúar hljóta að krefjast á grundvelli lýðræðislega vinnubragða.Tillagan felld með átta atkvæðum gegn einu atkvæði fulltrúa M-lista.
Bókun fulltrúa D-, V- og S- lista
Bæjarfulltrúar D- V og S lista eru ósammála túlkun bæjarfulltrúa Íbúahreyfingarinnar á 58. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 enda gefur 35. gr. sömu laga bæjarstjórn heimild til að færa bæjarráði fullnaðarafgreiðsluheimild í sumarfríi bæjarstjórnar.Afgreiðsla 1270. fundar bæjarráðs samþykkt á 677. fundi bæjarstjórnar með níu atkvæðum.
- 25. ágúst 2016
Bæjarráð Mosfellsbæjar #1270
Tillögu S-lista sem fram kom á 676. fundi bæjarstjórnar 17. ágúst sl., um að könnuð yrði staða og fjárfestingasaga þeirra aðila sem hyggjast standa fyrir byggingu einkásjúkrahúss og hótels í Mosfellsbæ, var vísað til umræðu í bæjarráði.
Bókun M-lista Íbúahreyfingarinnar
Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar furðar sig á að fulltrúi S-lista skuli á fundi bæjarráðs 21. júlí hafa gefið samþykki sitt fyrir úthlutun lóðar undir einkasjúkrahús í Mosfellsbæ, án þess að fyrir ráðinu lægi áreiðanleikakönnun á hæfi og fjárhagslegum burðum umsækjenda. Tillaga um að kanna stöðu þeirra og fjárfestingarsögu nú er of seint fram komin þar sem bæjarstjóri hefur núþegar gengið frá samningi um úthlutun lóðanna.Íbúahreyfingin telur að skaðinn sé nú þegar skeður og eðlilegasta framhald þessa máls að bæjarráð taki vinnubrögð sín við úthlutun lóða sveitarfélagsins til skoðunar.
Bókun fulltrúa D-, V- og S- lista
Fulltrúar D -,V - og S- lista í bæjarstjórn Mosfellsbæjar telja að eðlilega hafi verið staðið að endurúthlutun lóðar í landi Sólvalla til MCPB. Það hafi verið gert í samræmi við lög og reglur og í takt við yfirlýsta stefnu Mosfellsbæjar sem kemur fram í aðalskipulagi bæjarins og samþykkt var á síðasta kjörtímabili af öllum flokkum sem fulltrúa eiga í bæjarstjórn.Fyrirvari er af hálfu Mosfellsbæjar um framlagningu upplýsinga um fjárfesta, viðskiptaáætlun, staðfestingu á fjármögnun og greiðslu gatnagerðargjalda. Ef þessum skilyrðum verður ekki fullnægt mun Mosfellsbær rifta samningnum. Jafnframt er með öllu óheimilt að veðsetja lóðina nema að fyrir liggi samþykki Mosfellsbæjar.
Fjárhagslegur ávinningur Mosfellsbæjar yrði mikill ef af umræddum framkvæmdum verður. Við erum þess fullviss að samningurinn um lóðarúthlutunina tryggi hagsmuni Mosfellsbæjar, hvernig sem málinu lyktar.
Bókun M-lista Íbúahreyfingarinnar
Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar telur ekki rétt að bæjarfulltrúar D-, S- og V-lista reyni að ljá meðferð þessa máls trúverðugleika með því að vísa til aðalskipulagsvinnu á síðasta kjörtímabili. Jafn illa var staðið að úthlutun lóðarinnar þá enda runnu áætlanir út í sandinn. Engin umræða var heldur um sjúkrahúsið í bæjarfélaginu og engin umfjöllun í umhverfisskýrslu með aðalskipulagi þótt eftir því væri kallað.Undirrituð gerir alvarlegar athugasemdir við það að þurfa að sitja undir órökstuddum ásökunum um ósannindi og rangfærslur og minnir í því sambandi á kjörorð Mosfellsbæjar sem eru virðing, jákvæðni, framsækni og umhyggja.
Bókun fulltrúa D-, V- og S- lista
Fulltrúar D-, V- og S-lista ítreka mikilvægi þess að bæjarfulltrúar hafi gildi Mosfellsbæjar, virðing, jákvæðni, framsækni og umhyggju að leiðarljósi í störfum sínum fyrir samfélagið í Mosfellsbæ.Samþykkt með þremur atkvæðum að fela bæjarstjóra að vinna að málinu í samræmi við umræður á fundinum.
- 17. ágúst 2016
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar #676
Ósk MCPB ehf. um stamstarf um uppbyggingu sjúkarstofnunar og hótels.
Tillaga bæjarfulltrúa S-lista
Þar sem ýmsar misvísandi upplýsingar hafa komið fram í fjölmiðlum um fjárhagsleg umsvif þeirra aðila sem samið hefur verið við um uppbyggingu einkasjúkrahúss í landi Sólvalla leggja bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar til að fenginn verði ábyrgur aðili s.s endurskoðendur bæjarins, til að kanna stöðu og fjárfestingasögu þessara aðila sem samið hefur verið við til að sannreyna að þær upplýsingar sem fram komu á upplýsingafundi og framlögðum gögnum séu réttar. Staða málsins er þannig að bið eftir áreiðanleikakönnun samkvæmt samningnum er of löng.Forseti leggur til að tillögunni verði vísað til bæjarráðs til umræðu. Tillagan er samþykkt með níu atkvæðum.
Bókun bæjarfulltrúa S-lista
Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar telja að eðlilega hafi verið staðið að endurúthlutun lóðarinnar í landi Sólvalla til MCPB. Það hafi verið gert í samræmi við lög og reglur og í takt við yfirlýsta stefnu Mosfellsbæjar sem kemur fram í aðalskipulagi bæjarins sem samþykkt var á síðasta kjörtímabili af öllum flokkum sem fulltrúa eiga í bæjarstjórn.Þá er rétt að ítreka að landslög heimila starfsemi af því tagi sem hér er til umfjöllunar. Það er alþingis og yfirvalda heilbrigðismála að setja ramma um slíka starfsemi sem talin er þjóna best íslensku heilbrigðiskerfi, ekki einstakra sveitarfélaga í lóðaúthlutunum.
Samningurinn um lóðarúthlutunina tryggir að fjárhagslegir hagsmunir Mosfellsbæjar séu tryggðir, hvernig sem fer um verkefnið. Hins vegar er ljóst að rétt hefði verið að taka meiri tíma í undirbúning samningsgerðarinnar en raunin var, sérstaklega með tilliti til þess hversu lítill tími gafst til samráðs og skoðunar og þeirrar staðreyndar að bæjarstjórn og flestir embættismenn voru í sumarleyfi á þessum tíma. Af þessu ferli er nauðsynlegt fyrir kjörna fulltrúa að draga lærdóm.
Bókun M-lista Íbúahreyfingarinnar
Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar átelur þau vinnubrögð fulltrúa D- og S-lista í bæjarráði Mosfellsbæjar harðlega að hafa í sumarfríi bæjarstjórnar úthlutað óþekktum aðilum í trássi við eðlilega verkferla samtals hundrað og tuttugu þúsund m2 af landi Mosfellsbæjar til eignar undir þrjátíu þúsund m2 einkasjúkrahús og -hótel með þyrlupalli.Handhöfum leyfist að veðsetja lóðirnar að fengnu óskilgreindu leyfi Mosfellsbæjar og líka kaupréttinn.
Engin gögn fylgdu málinu sem bentu til forvinnu af neinu tagi; engin áreiðanleikakönnun var gerð á því hvort um væri að ræða aðila sem væru traustsins verðir; engin greinargerð viðskiptabanka um fjárhagslega burði þeirra til að ráðast í verkefni af stærðargráðunni 50 milljarðar króna; engir útreikningar á arðsemi verkefnisins fyrir Mosfellinga; engar upplýsingar um umhverfisáhrif; ekkert samráð við heilbrigðisyfirvöld, heldur ekki íbúa og engin fagleg álit stjórnsýslustofnana. Lýðræðislegum stjórnsýsluþætti undirbúnings var hreinlega sleppt.Við lestur samningsins vaknar grunur um að þessir aðilar hafi ekki fjármagn til að greiða gatnagerðargjöld nema að þeir fái leyfi til að veðsetja landið. Landið er líklega það verðmikið að þeir geta líka tekið lán út á það til að fjármagna kostnað við að gera það byggingarhæft. Að því loknu geta þeir veðsett kaupréttinn.
Samningurinn bendir til þess að þetta séu aðilar með hafa hugmynd en lítið sem ekkert eigið fé. Það má teljast með öllu óábyrgt af bæjarráði að afhenda óþekktum, erlendum aðilum verðmætar eignir sveitarfélagsins. Sá möguleiki er raunverulegur að landið komist í hendur þriðja aðila í gegnum veðsetningar og að sá aðili vilji síðan koma landinu í verð fyrir sem mestan pening, án tillits til hagsmuna sveitarfélagsins. Það gengur þvert á stefnu sveitarfélaga að selja land sem þau eiga.
Þessi samningur verður ekki skilinn öðruvísi en sem atvinnuþróunaraðstoð Mosfellsbæjar við aðila sem bæjarráð veit ekki hverjir eru og hafa ekki sýnt fram á að hafi neitt eigið fé, hvað þá trúverðugleika eða burði til að standa í framkvæmdum upp á 50 milljarða. Í því sambandi vekur athygli að þeir þurfa ekki að framvísa viðskiptaáætlun fyrr en 1. desember 2017.
Hér er um að ræða dýrmætt land í eigu Mosfellsbæjar sem látið er af hendi gegn vægu verði og fyrir starfsemi sem gengur þvert á vilja þjóðarinnar og stefnu stjórnvalda í heilbrigðismálum.
Bókun bæjarfulltrúa D- og V- lista
Mosfellsbær hefur úthlutað lóð til MCPB undir sjúkrahús og hótel. Lóðinni hafði áður verið úthlutað árið 2010 til Primacare fyrir sambærilega starfsemi. Umrædd lóð er á aðalskipulagi skilgreind fyrir slíka starfsemi. Árið 2011 þegar umrædd lóð var sett á aðalskipulag greiddu allir flokkar í bæjarstjórn atkvæði með þeirri breytingu svo og lóðaúthlutuninni sjálfri.Umræddur samningur tekur á því að MCPB sér um allar framkvæmdir sem nauðsynlegar eru til að gera lóðina byggingarhæfa og ber af því allan kostnað. Þetta telur m.a. gatnagerð, aðkomuvegi og lagnir.
MCPB greiðir þrátt fyrir þetta helming gatnagerðargjalda sem er u.þ.b. 500 mkr. Miðað við 30.000 fm byggingar. Samtals eru því einskiptisgreiðslur til Mosfellsbæjar ef af verkefninu verður allt að um 700 mkr.
Gera má ráð fyrir að fasteignagjöld að umræddum mannvirkjum geti numið allt að 150 mkr. á ári.
Fyrirvarar eru í samningnum af hálfu Mosfellsbæjar.
1. Fyrirvari er af hálfu Mosfellsbæjar um framlagningu upplýsinga um fjárfesta, viðskiptaáætlun og staðfestingu á tilurð fjármagns innan tilskilins tímafrests. Að öðrum kosti getur Mosfellsbær sagt samningnum upp
2. Fyrirvari er að hálfu Mosfellsbæjar um greiðslu gatnagerðargjalda innan tveggja ára. Að öðum kosti getur Mosfellsbæjar sagt samningnum upp.Því er hér um að ræða algjörlega áhættulausan samning fyrir Mosfellsbæ. Samningurinn fellur úr gildi ef ákveðnar upplýsingar berast ekki eða að gatnagerðargjöld verði ekki greidd. Sú fullyrðing bæjarfulltrúa íbúahreyfingarinnar um að það sé verið að afhenda land til þriðja aðila og viðkomandi geti veðsett landið er alröng. Þvert á móti er ákvæði í samningnum um að veðsetning sé ekki heimil nema með samþykki Mosfellsbæjar. Öðrum fullyrðingum Íbúahreyfingarinnar er vísað á bug.
Þó umrætt mál hafi verið unnið hratt í bæjarráði þá er nauðsynlegt að horfa til þess að áður hafði verið farið í samskonar vinnu sem unnin var með samþykki allra flokka í bæjarstjórn. Hagsmunir bæjarins eru í einu og öllu tryggðir.
Bókun frá bæjarfulltrúa V-lista
Í ljósi þeirrar umræðu sem verið hefur á síðustu vikum um málið hef ég fyllst efasemdum um það hvort núgildandi lög standi nægjanlega vel vörð um íslenskt heilbrigðiskerfi. Mikilvægt er í mínum huga að hér þróist ekki tvöfalt heilbrigðiskerfi og íslensku heilbrigðiskerfi stafi ekki ógn af starfsemi sem þessari.Afgreiðsla 1268. bæjarráðs lögð fram til kynningar á 676. fundi bæjarstjórnar.
- 21. júlí 2016
Bæjarráð Mosfellsbæjar #1268
Ósk MCPB ehf. um stamstarf um uppbyggingu sjúkarstofnunar og hótels.
Aldís Stefánsdóttir forstöðumaður þjónustu- og samskiptadeildar og Sigurður Snædal Júlíusson lögmaður sátu fundinn við umfjöllun málsins.
Samþykkt með þremur atkvæðum að heimila bæjarstjóra að undirrita samning við MCPB ehf. um úthlutun lóðar undir 30 þúsund fermetra byggingu sem mun hýsa einkarekna heilbrigðisstofnun og hótel fyrir erlenda sjúklinga.
Um er að ræða land við Sólvelli í Mosfellsbæ sem er staðsett við Hafravatnsveg. Mosfellsbær er heilsueflandi samfélag sem leggur áherslu á heilsutengda ferðaþjónustu og hefur sjálfbærni og umhyggju fyrir náttúrnni að leiðarljósi. Uppbygging á sjúkrastofnun og hóteli fellur vel að þeirri stefnu.