25. ágúst 2016 kl. 07:30,
2. hæð Helgafell
Fundinn sátu
- Bryndís Haraldsdóttir (BH) formaður
- Kolbrún G Þorsteinsdóttir (KGÞ) varaformaður
- Ólafur Ingi Óskarsson (ÓIÓ) varamaður
- Bjarki Bjarnason (BBj) áheyrnarfulltrúi
- Sigrún H. Pálsdóttir (SHP) áheyrnarfulltrúi
- Haraldur Sverrisson bæjarstjóri
- Sigurður Snædal Júlíusson þjónustu- og samskiptadeild
Fundargerð ritaði
Sigurður Júlíusson
Dagskrá fundar
Almenn erindi
1. Ósk um samstarf vegna uppbyggingar heilbrigðisstofnunar og hótels í Mosfellsbæ201607105
Tillögu S-lista sem fram kom á 676. fundi bæjarstjórnar 17. ágúst sl., um að könnuð yrði staða og fjárfestingasaga þeirra aðila sem hyggjast standa fyrir byggingu einkásjúkrahúss og hótels í Mosfellsbæ, var vísað til umræðu í bæjarráði.
Bókun M-lista Íbúahreyfingarinnar
Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar furðar sig á að fulltrúi S-lista skuli á fundi bæjarráðs 21. júlí hafa gefið samþykki sitt fyrir úthlutun lóðar undir einkasjúkrahús í Mosfellsbæ, án þess að fyrir ráðinu lægi áreiðanleikakönnun á hæfi og fjárhagslegum burðum umsækjenda. Tillaga um að kanna stöðu þeirra og fjárfestingarsögu nú er of seint fram komin þar sem bæjarstjóri hefur núþegar gengið frá samningi um úthlutun lóðanna.Íbúahreyfingin telur að skaðinn sé nú þegar skeður og eðlilegasta framhald þessa máls að bæjarráð taki vinnubrögð sín við úthlutun lóða sveitarfélagsins til skoðunar.
Bókun fulltrúa D-, V- og S- lista
Fulltrúar D -,V - og S- lista í bæjarstjórn Mosfellsbæjar telja að eðlilega hafi verið staðið að endurúthlutun lóðar í landi Sólvalla til MCPB. Það hafi verið gert í samræmi við lög og reglur og í takt við yfirlýsta stefnu Mosfellsbæjar sem kemur fram í aðalskipulagi bæjarins og samþykkt var á síðasta kjörtímabili af öllum flokkum sem fulltrúa eiga í bæjarstjórn.Fyrirvari er af hálfu Mosfellsbæjar um framlagningu upplýsinga um fjárfesta, viðskiptaáætlun, staðfestingu á fjármögnun og greiðslu gatnagerðargjalda. Ef þessum skilyrðum verður ekki fullnægt mun Mosfellsbær rifta samningnum. Jafnframt er með öllu óheimilt að veðsetja lóðina nema að fyrir liggi samþykki Mosfellsbæjar.
Fjárhagslegur ávinningur Mosfellsbæjar yrði mikill ef af umræddum framkvæmdum verður. Við erum þess fullviss að samningurinn um lóðarúthlutunina tryggi hagsmuni Mosfellsbæjar, hvernig sem málinu lyktar.
Bókun M-lista Íbúahreyfingarinnar
Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar telur ekki rétt að bæjarfulltrúar D-, S- og V-lista reyni að ljá meðferð þessa máls trúverðugleika með því að vísa til aðalskipulagsvinnu á síðasta kjörtímabili. Jafn illa var staðið að úthlutun lóðarinnar þá enda runnu áætlanir út í sandinn. Engin umræða var heldur um sjúkrahúsið í bæjarfélaginu og engin umfjöllun í umhverfisskýrslu með aðalskipulagi þótt eftir því væri kallað.Undirrituð gerir alvarlegar athugasemdir við það að þurfa að sitja undir órökstuddum ásökunum um ósannindi og rangfærslur og minnir í því sambandi á kjörorð Mosfellsbæjar sem eru virðing, jákvæðni, framsækni og umhyggja.
Bókun fulltrúa D-, V- og S- lista
Fulltrúar D-, V- og S-lista ítreka mikilvægi þess að bæjarfulltrúar hafi gildi Mosfellsbæjar, virðing, jákvæðni, framsækni og umhyggju að leiðarljósi í störfum sínum fyrir samfélagið í Mosfellsbæ.Samþykkt með þremur atkvæðum að fela bæjarstjóra að vinna að málinu í samræmi við umræður á fundinum.
2. Prókúra fyrir framkvæmdastjóra sviða201607055
Tillaga um að tilteknum starfsmönnum verði veitt prókúruumboð til að skuldbinda sveitarfélagið.
Bæjarráð Mosfellsbæjar samþykkir með þremur atkvæðum, í samræmi við heimild í 4. mgr. 55. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, að bæjarstjóra sé heimilt að veita Aldísi Stefánsdóttur, forstöðumanni þjónustu- og samskiptadeildar og staðgengli bæjarstjóra, Jóhönnu B. Hansen, framkvæmdastjóra umhverfissviðs, Unni V. Ingólfsdóttur, framkvæmdastjóra fjölskyldusviðs, Guðbjörgu Lindu Udengard, framkvæmdastjóra fræðslusviðs, og Pétri J. Lockton, fjármálastjóra, prókúruumboð fyrir hönd Mosfellsbæjar.
3. Umsögn um frumvarp til laga um námslán og námsstyrki2016081465
Óskað er umsagnar um frumvarp til laga um námslán og námsstyrki.
Lagt fram.
4. Samstarf um þróun og uppbyggingu Sunnukrika 3-92016081486
Beiðni um samstarf við þróun og uppbyggingu á Sunnukrika 3-9.
Samþykkt með þremur atkvæðum að fela bæjarstjóra að fara í viðræður við Leigufélagið Bestlu ehf. um mögulegan samstarfssamning um uppbyggingu hótels og þjónstukjarna að Sunnukrika 3-9.
5. Aðstaða fyrir félagsstarf FaMos2016081672
Ósk um afnot af Hlégarði fyrir félagsstarf FaMos.
Aldís Stefánsdóttir (AS), framkvæmdastjóri þjónstu- og samskiptadeildar, mætti á fundinn undir þessum lið.
Samþykkt með þremur atkvæðum að vísa erindinu til umsagnar og afgreiðslu menningarmálanefndar.
6. Aðgerðaráætlun Lýðræðisstefnu 2015-2017201509254
Eftirfylgni aðgerðaráætlunar Lýðræðisstefnu Mosfellsbæjar 2015-2017.
Aldís Stefánsdóttir (AS), forstöðumaður þjónstu- og samskiptadeildar, mætti á fundinn undir þessum lið.
Rædd var aðgerðaráætlun lýðræðisstefnunnar.