20. mars 2014 kl. 07:30,
2. hæð Helgafell
Fundinn sátu
- Bryndís Haraldsdóttir (BH) formaður
- Kolbrún G Þorsteinsdóttir (KGÞ) varaformaður
- Jón Jósef Bjarnason (JJB) aðalmaður
- Jónas Sigurðsson (JS) áheyrnarfulltrúi
- Ólafur Gunnarsson (ÓG) vara áheyrnarfulltrúi
- Haraldur Sverrisson bæjarstjóri
- Stefán Ómar Jónsson (SÓJ) bæjarritari
Fundargerð ritaði
Stefán Ómar Jónsson bæjarritari
Dagskrá fundar
Almenn erindi
1. Erindi Torfa Magnússonar varðandi gatnagerðargjöld201311140
Erindi Torfa Magnússonar dags. 3. desember varðandi gatnagerðargjald af fyrirhugaðri byggingu. Afgreiðslu erindisins var frestað á 1151. fundi.
Samþykkt með þremur atkvæðum að verða við erindi umsækjanda frá 3. desember 2013 þess efnis að skráðir fermetrar húss sem stóð á lóðinni Bræðratungu verði færðir til inneignar á móti gatnagerðargjaldi af því húsi sem byggt verður að Bræðratungu.
2. Erindi Jóns Jósefs Bjarnasonar, umræður um gjaldtöku landeigenda á ferðamannastöðum og viðbrögð Mosfellinga201403282
Tillaga bæjarráðsmanns Jóns Jósefs Bjarnasonar um að Mosfellsbær bregðist við fyrir hönd íbúanna og innheimti gjöld af þeim sem fara um Mosfellsbæ.
Bæjarráðsmaður Jón Jósef Bjarnason ber upp tillögu um að Mosfellsbær bregðist við fyrir hönd íbúanna og innheimti gjöld af þeim sem fara um Mosfellsbæ. Undanþegnir gjaldinu eru þeir sem ekki innheimta slík gjöld af íbúum Mosfellsbæjar.
Þetta er vitaskuld táknrænt og til þess að vekja athygli á mótsögninni í því að íslenskir skattgreiðendur, sem bera þungan af kostnaði við að komast á ferðamannastaði þurfi líka að greiða inna þessi svæði. Mosfellingar hafa kostnað og óþægindi af þeim hundruðu þúsunda sem fara um bæinn og ósanngjarnt að þeir þurfi að greiða sumum þeirra gjald fyrir að fara um þeirra land.
Tillagan lögð fram.
3. Starfshópur um byggingu leiguíbúða201403371
Lögð er fram tillaga um stofnun starfshóps um byggingu leiguíbúða.
Tillaga um stofnun starfshóps um byggingu leiguíbúða.
Bæjarráð Mosfellsbæjar samþykkir að skipaður verði þriggja manna starfshópur sem skoði hvernig Mosfellsbær geti stuðlað að því að byggðar verði leiguíbúðir í bænum. Skoðað verði sérstaklega hvort hægt sé að koma á samstarfi bæjarins og einkaaðila um byggingu leiguíbúða.
Verkefni hópsins veri m.a. að kanna hvort lóðir sem bærinn hefur aðgang að henti undir byggingu leigubúða og hvort grundvöllur sé fyrir lækkun gjalda til að stuðla að byggingu slíkra íbúða í bænum. Jafnframt kanni hópurinn hjá eigendum annarra lóða í bænum vilja þeirra til að koma að slíku verkefni.
Með hópnum starfi framkvæmdastjóri umhverfissviðs Mosfellsbæjar.
Tillagan samþykkt með þremur atkvæðum og að hópinn skipi Haraldur Sverrisson bæjarstjóri, Bjarki Bjarnason formaður umhverfisnefndar og Jónas Sigurðsson bæjarfulltrúi.
4. Frítt í sund.201403401
Áheyrnarfulltrúi í bæjarráði leggur til að bæjarráð samþykki tímabundna breytingu/viðauka við gjaldskrá íþróttamiðstöðva og sundlauga í Mosfellsbæ varðandi frítt í sund fyrir nemendur Framhaldsskólans í Mosfellsbæ.
Tillaga áheyrnarfulltrúa í bæjarráði Jónasar Sigurðssonar.
Bæjarráð samþykkir tímabundna breytingu/viðauka við gjaldskrá íþróttamiðstöðva og sundlauga í Mosfellsbæ sem er eftirfarandi:
Framhaldskólanemendum í Mosfellsbæ, framhaldskólakennurum sem búa í Mosfellsbæ og kennurum sem starfa við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ býðst að fara frítt í sund í sundlaugum bæjarins gegn framvísun skírteina þar að lútandi á meðan verkfall framhaldsskólakennara sem nú er hafið stendur yfir.
Bókun með tillögunni.
Tillaga þessi er lögð fram svo frétt, m.a. þessa efnis, á heimasíðu bæjarins hafi stoð í lögmætri ákvörðun um breytingu á gjaldskrá bæjarins. Jafnframt er því bætt við það sem fram kemur í fréttinni að framhaldskólakennarar sem búa í Mosfellsbæ sem og til viðbótar kennarar sem starfa við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ standi það sama til boða. Í framhaldinu verði ákvörðun bæjarráðs sett sem frétt á heimasíðu bæjarins.Tillagan borin upp og felld með tveimur atkvæðum.
Bæjarráð fagnar þeirri ákvörðun að gefa framhaldsskólanemum frítt í sund á meðan á verkfalli stendur og styður hana heilshugar. Bæjarráð vonar að þetta geti stutt við framhaldsskólanemendur og hvatt þá til að framfylgja námsmarkmiðum sínum.