15. desember 2016 kl. 07:30,
2. hæð Helgafell
Fundinn sátu
- Bryndís Haraldsdóttir (BH) formaður
- Kolbrún G Þorsteinsdóttir (KGÞ) varaformaður
- Anna Sigríður Guðnadóttir (ASG) aðalmaður
- Bjarki Bjarnason (BBj) áheyrnarfulltrúi
- Sigrún H. Pálsdóttir (SHP) áheyrnarfulltrúi
- Sigurður Snædal Júlíusson þjónustu- og samskiptadeild
- Aldís Stefánsdóttir (ASt) forstöðumaður þjónustu- og samskiptadeildar
Fundargerð ritaði
Sigurður Júlíusson
Dagskrá fundar
Almenn erindi
1. Yrkjusjóður - beiðni um stuðning fyrir árið 2017201611276
Erindi frá Yrkjusjóði, beiðni um styrk fyrir árið 2017. Erindinu var frestað á síðasta fundi.
Samþykkt með þremur atkvæðum að vísa erindinu til umsagnar umhverfisnefndar.
Bókun M-lista Íbúahreyfingarinnar
Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar gerir að tillögu sinni að Mosfellsbær veiti Yrkju - sjóði æskunnar til ræktunar landsins umbeðinn styrk. Vigdís Finnbogadóttir kom verkefninu á fót til að efla skógrækt á Íslandi. Sjóðurinn gegnir þýðingarmiklu uppeldishlutverki og er markmið hans að kveikja áhuga skólabarna á skógrækt, kenna þeim að planta trjám og vekja til vitundar um gildi þess að rækta landið.
Yrkjusjóður gefur grunnskólum sem þess óska plöntur. Samtals hafa mosfellsk skólabörn fengið um og yfir 13 þúsund plöntur að gjöf frá sjóðnum. Nú er erfitt í ári hjá Yrkju. Til að draga úr líkum á því að sjóðurinn og umhverfisfræðslustarf hans leggist af óskar Íbúahreyfingin eftir því að bæjarráð veiti honum styrkinn.Bókun D-, S- og V-lista.
Við teljum að réttast sé að vísa umræddu erindi frá Yrkjusjóði til umhverfisnefndar sem er fagnefndin í skógræktarmálum sveitarfélagsins. Nefndin geri umsögn til bæjarráðs um málið og þar verði litið til þess hvernig erindið rímar við skógræktarstarf í grunnskólum bæjarins.2. Bugðutangi 16 og 18 - Skemmdir á þaki201609158
Ósk um þátttöku í kostnaði vegna skemmda í þaki. Erindinu var frestað á síðasta fundi.
Samþykkt með þremur atkvæðum að synja erindinu.
3. Helgafellsskóli201503558
Óskað er heimildar bæjarráðs til að bjóða út verktakavinnu við uppsteypu 1.áfanga Helgafellsskóla.
Samþykkt með þremur atkvæðum að heimila umhverfissviði að bjóða út verktakavinnu við uppsteypu 1. áfanga Helgafellsskóla.
4. Jafnlaunaúttekt PWC201611186
Upplýst um stöðu jafnlaunaúttektar hjá Mosfellsbæ. Minnisblað mannauðsstjóra lagt fram.
Lagt fram.
5. Aðgerðaráætlun Lýðræðisstefnu 2015-2017201509254
Lögð fram útfærsla á lýðræðisverkefni til umfjöllunar og samþykktar.
Umræður fóru fram. Samþykkt með þremur atkvæðum að vísa málinu til afgreiðslu á næsta fundi bæjarráðs.
6. Málefni heilsugæslunnar í Mosfellsbæ201610288
Farið verður yfir málefni Heilsugæslu Mosfellsumdæmis vegna fyrirhugaðrar breytingar á vaktþjónustu.
Bæjarráð Mosfellsbæjar harmar þjónustuskerðingu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins við íbúa Mosfellsumdæmis vegna breytinga á kvöld og næturvöktum. Ástæða er til að hafa áhyggjur af mönnun Heilsugæslustöðvarinnar í kjölfar yfirlýstrar óánægju starfandi lækna með breytinguna og áhrifum hennar á dreifðar byggðir svæðisins. Bæjarráð veltir því upp hvort þjóðhagslega hagkvæmt sé að eina næturþjónustan sem bjóðist íbúum höfuðborgarsvæðisins sé bráðadeild Landspítala.
Bæjarráð leggur áherslu á að heilsugæslan sé fyrsti viðkomustaður íbúa þegar þeir leita heilbrigðisþjónustu. Heilsugæsluna þarf að efla og tryggja að nægu fjármagni sé varið til rekstrarins. Stytta þarf biðtíma sjúklinga, bæta sálfræðiþjónustu og heimahjúkrun.
Bæjarráð leggur mikla áherslu á að síðdegisvaktin verði lengd í kjölfar þeirra breytinga sem boðaðar hafa verið.