Mál númer 202208733
- 28. september 2022
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar #812
Rekstur deilda fjölskyldusviðs janúar - júní 2022 lagður fyrir til kynningar og umræðu.
Afgreiðsla 324. fundar fjölskyldunefndar samþykkt á 812. fundi bæjarstjórnar með 11 atkvæðum.
- 20. september 2022
Fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar #324
Rekstur deilda fjölskyldusviðs janúar - júní 2022 lagður fyrir til kynningar og umræðu.
Rekstur deilda fjölskyldusviðs janúar - júní lagður fram til kynningar og umræðu.
- 14. september 2022
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar #811
Rekstrar- og fjárfestingayfirlit janúar til júní 2022 lagt fram til kynningar.
Bókun bæjarfulltrúa D lista:
Árshlutareikningur Mosfellsbæjar fyrir fyrstu 6 mánuði ársins 2022 sýna að almennur rekstur gekk vel og var í samræmi við þau markmið um þjónustu við íbúa sem sett voru.Skatttekjur fyrstu 6 mánuði ársins eru hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir og það endurspeglar áframhaldandi hraðari viðsnúning atvinnulífsins í kjölfar heimsfaraldursins. Kostnaður er í takti við áætlanir með litlum frávikum.
Rekstur málaflokka gekk vel og er í góðu samræmi við fjárhagsáætlun. Þá var áfram mikið framkvæmt á tímabilinu og þá sérstaklega í viðhaldi og endurbótum fasteigna sveitarfélagsins.
Há verðbólga gerir það að verkum að útkoma fyrstu 6 mánaða ársins er lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir vegna aukins fjármagnskostnaðar.
Íbúum í Mosfellsbæ fjölgar áfram en traustur daglegur rekstur og sterk fjárhagsstaða þrátt fyrir tímabundin ytri áföll gera samfélaginu kleift að veita íbúum góða þjónustu sem hefur verið að aukast og mun gera áfram. Framkvæmdir á vegum Mosfellsbæjar hafa á undanförnum árum verið miklar og mun sú þróun halda áfram enda sveitarfélagið í vexti.Þrátt fyrir meiri halla vegna verðbólgu er fjárhagsstaða Mosfellsbæjar sterk og er það vegna góðrar og ábyrgrar fármálastjórnunar mörg undanfarin ár. Það er mikilvægast í því efnahagsástandi sem nú ríkir að nýr meirihluti og reyndar bæjarstjórn öll haldi áfram vandaðri og ábyrgri fjármálastjórn svo áfram verði hægt að bæta okkar þjónustu enn frekar ásamt því að halda áfram uppbyggingu á innviðum í takt við fjölgun bæjarbúa.
Mikilvæg er áframhaldandi góð samvinna starfsfólks og kjörinna fulltrúa svo markmið náist og vonandi næst að brýna alla til áframhaldandi góðra verka á næstu misserum.
Bókun bæjarfulltrúa B, C og S lista:
Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 var gert ráð fyrir rekstrarafgangi upp á rúmar 200 m.kr. en niðurstaða fyrstu 6 mánaða var halli upp á tæpan milljarð. Það er því alveg ljóst að niðurstaða er verulega langt frá áætlun bæjarins sem er mjög miður. Frávikin skýrast ekki einungis af utanaðkomandi ástæðum eins og hárri verðbólgu þó svo að hún vegi vissulega þungt. Niðurstaðan sýnir okkur að sveigjanleiki í rekstri bæjarins er ekki nægjanlegur til þess að takast á við áskoranir eins og umfangsmiklar en nauðsynlegar umbætur á Kvíslarskóla.Verðbætur vegna aukinnar verðbólgu á árinu aukast verulega enda Mosfellsbær með næst hæsta skuldahlutfallið af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu árið 2021 eða 134%, sem í krónum talið var 1.391.595 kr. á íbúa. Gjaldfærður kostnaður vegna reiknaðra verðbóta af langtímalánum á fyrstu 6 mánuðum ársins er 466 m.kr. hærri en gert var ráð fyrir. Því miður er ekki útlit fyrir annað en að verðbólgan haldist há það sem eftir lifir árs þannig að ljóst er að árið 2022 er þungt í rekstri bæjarfélagsins.
Bókun bæjarfulltrúa D lista:
Fjárhagsstaða Mosfellsbæjar er sterk þrátt fyrir niðurstöður fyrstu sex mánaða ársins. Aukinn halli er fyrst og fremst vegna utanaðkomandi ástæðna auk aukinnar skuldasöfnunar m.a. vegna tekjufalls í kjölfar heimsfaraldursins 2020 og 2021. Í Mosfellsbæ sem er ört stækkandi sveitarfélag hafa verið framkvæmdir upp á u.þ.b. tvo til þrjá milljarða árlega undanfarin ár m.a. í uppbyggingu innviða og viðhaldi fasteigna sveitarfélagsins. Hluti af þeim kostnaði hefur komið með aukinni lántöku auk fjármagns úr eigin rekstri sveitarfélagsins. Það er því eðlilegt að skuldir sveitarfélagsins hafi aukist tímabundið en langtíma fjárhagsáætlanir gera ráð fyrir að skuldir verði greiddar hratt niður á næstu árum.***
Afgreiðsla 1547. fundar bæjarráðs samþykkt á 811. fundi bæjarstjórnar með 11 atkvæðum. - 1. september 2022
Bæjarráð Mosfellsbæjar #1547
Rekstrar- og fjárfestingayfirlit janúar til júní 2022 lagt fram til kynningar.
Pétur J. Lockton fjármálastjóri fór yfir yfirlit yfir rekstur deilda janúar til júní 2022.
***
Bókun B, C og S lista:
Það lá ljóst fyrir þegar meirihluti Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar tók við í Mosfellsbæ að sveitarfélagið væri skuldsett vegna fjárfestinga síðustu ára og örs vaxtar sveitarfélagsins. Árshlutauppgjörið sýnir hversu mikil áhrif breyttar ytri aðstæður hafa á rekstrar umhverfi bæjarins til hins verra.Til þess að sveitarfélagið sé betur í stakk búið til að þess að takast á við svona sveiflur er mikilvægt að að styrkja tekjustofna sveitarfélagsins og munum við leggja mikla áherslu á það.