Mál númer 201806076
- 22. ágúst 2018
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar #722
Nýr ráðningarsamningur við bæjarstjóra lagður fyrir bæjarráð. Drög verða kynnt á fundinum.
Afgreiðsla 1361. bæjarráðs lögð fram til kynningar á 722. fundi bæjarstjórnar.
- 22. ágúst 2018
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar #722
Frestað frá síðasta fundi. Nýr ráðningarsamningur við bæjarstjóra lagður fyrir bæjarráð.
Haraldur Sverrisson víkur sæti undir umræðum um málið.
Bókun C, L, M og S-lista: Bæjarfulltrúar C, L, M og S-lista í bæjarstjórn Mosfellsbæjar standa ekki að baki ráðningasamningi við bæjarstjóra, oddvita Sjálfstæðismanna, sem samþykktur var af meirihluta D og V lista á bæjarráðsfundi 1362 þann 16. ágúst 2018. Að mati minnihluta hefur ekki verið gengið úr skugga um að launasamsetning bæjarstjóra sé lögmæt auk þess að vera ógagnsæ og fjárhæðir of háar.
Í fyrsta lagi leikur vafi á lögmæti þeirrar ákvörðunar meirihluta V og D lista að greiða bæjarstjóra ekki sérstaklega laun fyrir bæjarfulltrúastarfið eins 32. gr. sveitarstjórnarlaga kveður á um og telur minnihlutinn að það sé ámælisvert að bíða ekki álits ráðuneytis sveitarstjórnarmála á því atriði enda ljóst að ekki tekur langan tíma að fá slíkt álit.
Efasemdir um lögmæti samningsins voru viðraðar á bæjarráðsfundi strax við fyrri umræðu um ráðningarsamninginn og var afgreiðslu frestað vegna þeirra. Meirihlutinn ákvað engu að síður að bíða ekki eftir því að fá álit ráðuneytis sveitarstjórnarmála heldur var ákveðið að breyta til bráðabirgða reglum bæjarins um Launakjör í nefndum til þess að unnt væri að réttlæta launasamsetningu bæjarstjóra. Með þessari ákvörðun meirihluta V og D lista er farið á svig við anda sveitarstjórnarlaganna og í staðinn valið að fara í aðgerðir til að komast hjá ákvæði laganna. Er það umhugsunarefni hvers vegna slík vinnubrögð eru viðhöfð.Í öðru lagi teljum við að launin séu úr takti við önnur laun sem sveitarfélagið greiðir og samsetning þeirra ógagnsæ. Þannig teldum við eðlilegt að bæjarstjóri fengi laun og hlunnindi í takti við aðra starfsmenn Mosfellsbæjar.
Ábyrgðin á ráðningarsamningi þessum er að fullu og öllu hjá Vinstri grænum og Sjálfstæðisflokki.
Anna Sigríður Guðnadóttir, S-lista
Stefán Ómar Jónsson, L-lista
Sveinn Óskar Sigurðsson, M-lista
Valdimar Birgisson, C-listaBókun V og D lista vegna ráðningarsamnings við bæjarstjóra Mosfellsbæjar:
Bæjarfulltrúar V og D lista benda á að laun bæjarstjóra Mosfellsbæjar munu lækka í nýjum samningi um 8% eða 155 þúsund kr. á mánuði, samanlagt 1860 þúsund kr. á ársgrundvelli. Það gerir samtals 7,4 milljónir króna á kjörtímabilinu. Í nýjum samningi eru laun bæjarstjóra undir einum hatti til einföldunar og til aukins gagnsæis.
Afgreiðsla 1362. fundar bæjarráðs lögð fram til kynningar á 722. fundi bæjarstjórnar. - 16. ágúst 2018
Bæjarráð Mosfellsbæjar #1362
Frestað frá síðasta fundi. Nýr ráðningarsamningur við bæjarstjóra lagður fyrir bæjarráð.
HS vék af fundi undir afgreiðslu málsins.
Tillaga M lista: Drög að samningi við bæjarstjóra verði send bæjarstjórn til umræðu áður en afgreiðsla á sér stað af hálfu bæjarráðs. Tillagan er felld með 2 atkvæðum.
Bókun C lista: Lagt var fram á fundi bæjarráðs 16. ágúst 2018 mál sem frestað var frá fyrri fundi. Mál nr. 201806076 - Ráðning bæjarstjóra. Engin gögn fylgdu þessu máli í fundarboðun. Þessi háttur var líka viðhafður við fyrri kynningu á þessu máli og var því mótmælt þá af hálfu fulltrúa Viðreisnar í bæjarráði. Af þessu leiðir að fulltrúar minnihluta í ráðinu hafa ekki haft tíma til þess að kynna sér málefnið og móta afstöðu til þess. Þessum vinnubrögðum er mótmælt og bent á að í 15. gr.í Sveitarstjórnarlaga, um boðun og auglýsing funda, segir fundarboði skal fylgja dagskrá fundarins og þau gögn sem eru nauðsynleg til að sveitarstjórnarmenn geti tekið upplýsta afstöðu til mála sem þar eru tilgreind.
Samþykkt með 2 atkvæðum 1362 fundar bæjarráðs að við gjaldskrá um Launakjör í nefndum og ráðum Mosfellsbæjar bætist nýr liður aftast sem hljóði svo: Til bráðabirgða: Til 1. Júní 2022 eru allar þóknanir Mosfellsbæjar til bæjarstjóra innifaldar í launum hans fyrir starf bæjarstjóra. Fulltrúi M lista situr hjá.
Fyrirliggjandi ráðningarsamningur við bæjarstjóra er samþykktur með 2 atkvæðum 1362. fundar bæjarráðs. Fulltrúi M lista situr hjá.
Bókun M-lista: Fulltrúi M-lista vill vísa málinu til bæjarstjórnar sem síðan getur vísað málinu til afgreiðslu bæjaráðsfundar eftir ítarlega umræðu í bæjarstjórn. Tafir við ráðningu bæjarstjóra hafa komið til vegna frestunar meirihlutans á málinu sem slíku. Það að vísa málinu til bæjarstjórnar yrði bæði lýðræðislegt og í samræmi við óskir kjósenda um að gagnsæi um ráðningu bæjarstjóra sé höfð að leiðarljósi. Tillaga M-lista um það var felld af hálfu tveggja fulltrúa D lista í bæjarráði. Með því fyrirkomulagi að lögbundin réttindi og laun bæjarfulltrúa séu spyrt saman við ráðningu viðkomandi aðila og sett inn í ráðningasamning hans þar sem hann afsali sér launum bæjarfulltrúa og að allar hans tekjur séu innifaldar í launasamningi um bæjarstjórastöðu gæti orkað tvímælis. Ekki liggur fyrir bindandi álit viðkomandi fagráðuneytis og gögn vegna þessa dagskrárliðar lágu ekki fyrir á fundargátt fyrir fundinn. Öll þessi vinna og allt form þess er vanbúið. Það er miður. Hins vegar fagnar fulltrúi M-lista að laun, sem hafa hækkað umtalsvert síðustu misseri og ár, lækki hjá bæjarstjóra. Hann hækkar þó um launaflokk og fer upp í hærri launaflokk en áður var.
- 19. júlí 2018
Bæjarráð Mosfellsbæjar #1361
Nýr ráðningarsamningur við bæjarstjóra lagður fyrir bæjarráð. Drög verða kynnt á fundinum.
Samþykkt með 3 atkvæðum 1361. fundar bæjarráðs að fresta málinu til næsta fundar.
- 13. júní 2018
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar #719
Ráðning bæjarstjóra sbr. 47. gr. í samþykkt um stjórn Mosfellsbæjar.
Tillaga hefur komið fram frá V og D lista um að ráða Harald Sverrisson sem bæjarstjóra kjörtímabilið 2018 til 2022 og fela formanni bæjarráðs að gera við hann drög að ráðningarsamningi sem lagt verði fyrir bæjarráð til samþykktar. Þar sem ekki kemur fram önnur tillaga telst hún samþykkt.