Mál númer 202211145
- 22. desember 2022
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar #818
Lögð er fram tillaga til breytinga á útsvarsprósentu ársins 2023.
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar samþykkir með 11 atkvæðum fyrirliggjandi tillögu um að álagningarhlutfall útsvars fyrir árið 2023 hækki um 0.22% og verði 14,74% á tekjur einstaklinga, sbr. ný samþykkta breytingu á 1. mgr. 23. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga.
Hækkunin er gerð í tengslum við samkomulag ríkis og sveitarfélaga um breytingu á fjármögnun á þjónustu við fatlað fólk. Samhliða þessum breytingum mun ríkið lækka tekjuskattsprósentur svo íbúar verði ekki fyrir aukinni skattheimtu vegna breytinganna.
Samkomulag er milli ríkis og sveitafélaga um að vinna áfram að greiningu á þróun útgjalda vegna þjónustunnar og leitast við að ná samkomulagi um styrkingu á fjárhagsgrundvelli hennar á næsta ári.
- 23. nóvember 2022
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar #816
Tillaga um álagningarhlutfall útsvars fyrir árið 2023.
Tillaga bæjarfulltrúa D lista:
Bæjarfulltrúar D lista leggja fram tillögu um að útsvarsprósenta fyrir árið 2023 verði óbreytt. Til þess að mæta þeim skertu tekjum sem tillagan hefur í för með sér, er lagt til að nýr meirihluti í bæjarstjórn taki til baka ákvörðun sína um að fjölga áheyrnarfulltrúum meirihlutans í nefndum bæjarins sem kosta skattgreiðendur um 15 milljónir á ári. Það væri góð fyrirmynd í vinnubrögðum nýs meirihluta að spara í gæluverkefnum sem þessum, í þeim sparnaði sem þau boða í fjármálastjórnun bæjarins.Tillagan var felld með sex atkvæðum B, C og S lista. Bæjarfulltrúar D lista greiddu atkvæði með tillögunni og bæjarfulltrúi L lista sat hjá við atkvæðagreiðsluna.
***
Bókun B, C og S lista:
Við viljum fjárfesta í fólki. Það er stöðugt ákall eftir meiri og betri þjónustu sveitarfélaga og viljum við svara því kalli innan þess ramma sem ábyrg fjármálastjórn veitir okkur. Það er markmið okkar að reka velferðarsamfélag þar sem hugað er að þörfum allra íbúa.Útsvarið er stærsti og mikilvægasti tekjustofn sveitarfélaga og til þess að geta veitt öfluga grunnþjónustu þá verðum við að nýta þennan tekjustofn til fulls.
***
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar samþykkir með sex atkvæðum fyrirliggjandi tillögu um að álagningarhlutfall útsvars fyrir árið 2023 verði 14,52% á tekjur einstaklinga. Bæjarfulltrúar D og L lista greiddu atkvæði gegn tillögunni.