Mál númer 202111151
- 24. nóvember 2021
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar #794
Erindi Sveins Óskars Sigurðssonar, bæjarfulltrúa M-lista, varðandi eignasjóð, innri leigu og viðhald eigna, dags. 08.11.2021.
Tillaga M-lista
Í samræmi við 1. mgr. 108. gr. a í lögum um ársreikninga nr. 3/2006 leggur bæjarstjórn Mosfellsbæjar til að komið verði á laggirnar endurskoðunarnefnd fyrir bæjarfélagið í samræmi við framangreind lög.Fram kom frávísunartillaga sem var samþykkt með átta atkvæðum gegn einu atkvæði fulltrúa M-lista.
Bókun M-lista
Afstaða bæjarfulltrúa M-lista er að endurskoðunarnefndir eru mikilvægar og gegna þær því hlutverki að tryggja áreiðanleika og óhæði endurskoðunar. Eitt af meginmarkmiðum með starfsemi nefnda af þessum toga er að draga úr hættu á fjármálamisferli og efla traust á fjárhagsupplýsingum. Mosfellsbær er með útgefin skráð skuldabréf á markaði og sé horft til þess ber bæjarfélaginu skylda að hafa starfandi endurskoðunarnefnd sé litið til laga um ársreikning nr. 3/2006 ásamt síðari breytingum. Tilurð endurskoðunarnefnda felur í sér góða stjórnarhætti. Mosfellsbær fellur undir einingu tengda almannahagsmunum í skilningi framangreindra laga og engar undanþáguheimildir frá starfrækslu endurskoðunarnefndar eru fyrir sveitarfélög, sem eru með skráð skuldabréf á markaði, hvorki í íslenskum lögum né ESB-rétti. Því er mikilvægt að Mosfellsbær uppfylli þetta ákvæði laga um ársreikninga nr. 3/2006.Bókun V- og D-lista
Ástæða frávísunartillögu og samþykkt hennar er sú að hér er lögð fram tillaga af fulltrúa Miðflokksins sem er í engu samræmi við efni málsins sem hér er til umfjöllunar. Heiti málsins er Eignasjóður, innri leiga og viðhald eigna. Tillagan er hinsvegar um stofnun endurskoðunarnefndar sem er allt annað mál og enginn bæjarfulltrúi undirbúinn að fjalla um. Því er sérkennilegt að hér sé lögð fram bókun sem fjallar um það efnisatriði sem ekki er á dagskrá fundarins.
En hvað varðar bókun fulltrúa M-lista um stofnun endurskoðunarnefndar þá er um það að segja að það hefur alls ekki verið litið svo á að sveitarfélögum bæri að skipa sérstakar endurskoðunarnefndir. Framkvæmdin hefur allar götur verið sú að bæjar/byggðaráð sveitarfélaganna fari með hlutverk endurskoðunarnefndar. Sveitarfélög ráða sína löggiltu endurskoðendur sem endurskoða reikninga bæjarins og skila sérstökum endurskoðunaráætlunum til bæjar/byggðaráða sem er grundvöllur endurskoðunarinnar. Það er álit endurskoðenda bæjarins að þetta sé hið eðlilega fyrirkomulag og er það stutt af áliti Sambands íslenskra sveitarfélaga. Enda hefur engin athugasemd um stofnun sérstakrar endurskoðundarnefndar komið fram í almennri endurskoðun bæjarins eða sérstakri stjórnsýsluendurskoðun sem framkvæmd er á hverju áriBókun fulltrúar C-, L- og S-lista
Bókun fulltrúa M-lista er í engu samræmi við efni fundarins. Tillaga sem sett var fram á þessum bæjarstjórnarfundi var vísað frá vegna þess að hún var ekki á dagskrá fundarins. Tillaga sú var sett fram á þessum bæjarstjórnarfundi án fyrirvara og án þess að bæjarfulltrúar haft haft tíma til þess að afla nauðsynlegra gagna eða haft tækifæri til þess að kynna sér málið. Það er grundvallaratriði að bæjarfulltrúar hafi tíma til þess að setja sig inn í þau mál sem fyrir liggja og að tillögu fylgi gögn sem hægt er að kynna sér fyrirfram. Það var ekki svo í þessu tilfelli.Afgreiðsla 1511. fundar bæjarráðs samþykkt á 794. fundi bæjarstjórnar með átta atkvæðum. Fulltrúi M-lista greiddi atkvæði gegn samþykkt.
- 11. nóvember 2021
Bæjarráð Mosfellsbæjar #1511
Erindi Sveins Óskars Sigurðssonar, bæjarfulltrúa M-lista, varðandi eignasjóð, innri leigu og viðhald eigna, dags. 08.11.2021.
Tillaga M-lista:
Bæjarráð leggur áherslu á að sett sé á laggirnar undirbúningsnefnd sem endurskoði reikningsskil Mosfellsbæjar m.t.t. að viðhald á eignum og rekstur þeirra sé sett fram með skýrari hætti en nú er í fjárhagsáætlunum og í ársreikningi bæjarins. Jafnframt verði litið til þess í þessari vinnu að sett yrði á laggirnar endurskoðunarnefnd og umboðsmaður rekstrareininga sveitarfélagsins.
Bæjarráð synjar tillögunni með þremur atkvæðum.